Bændablaðið - 07.06.2018, Blaðsíða 48
48 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. júní 2018
„Við höfum ekki farið varhluta
af aukningu ferðamanna hér í
Mývatnssveit enda er þetta svæði
aðal ferðasegullinn á Norðurlandi
eystra,“ segir Þorsteinn
Gunnarsson, sveitarstjóri í
Skútustaðahreppi.
Jarðböðin eru góður mælikvarði
á aðsóknina og þar hefur mikil
aukning orðið í aðsókn undanfarin
ár. Mesta aukningin hefur verið
yfir vetrartímann sem er ánægjuleg
þróun að sögn Þorsteins og
hefur gert það að verkum að
ferðaþjónustan er orðin að heilsárs
atvinnugrein í meira mæli en áður
í Mývatnssveit. Vöxturinn er þó
hægari en undanfarin ár.
Til að bregðast við fjölguninni
hefur sveitarfélagið, rekstraraðilar
og Umhverfisstofnun brugðist
við með uppbyggingu innviða.
Til að styðja við ferðaþjónustuna
allt árið er t.d. snjómokstur á
göngustígum, landvarsla hefur
verið aukin, en tveir landverðir
eru í fullu starfi allt árið, og sjö
yfir sumartímann. Sveitarfélagið
hefur farið í umhverfisátak vegna
ferðamannasorps og á næstunni
verður aðgengi bætt að Höfða,
sem er vinsæll áningastaður í
Mývatnssveit og reyndar eina
landið sem er í eigu sveitarfélagsins.
Fjölbreytt afþreying
Í Mývatnssveit hafa verið reist
tvö glæsileg hótel síðustu misseri,
þ.e. Fosshótel og Hótel Laxá. Sel-
hótel var stækkað. Þá er hér fjöl-
breytt gisting og þrjú tjaldsvæði.
Veitinga- og kaffihús eru mörg og
fjölbreytt. Það sama má segja um
afþreyingu fyrir ferðamenn, sem
dæmi eru í boði hestaleiðir, fjalla-
jeppaferðir, vélsleðaferðir, ýmsar
skoðunarferðir, skoðunarferð í
lofti, Jarðböðin, hellaferðir, hunda-
sleðaferðir, Fuglasafn Sigurgeirs,
hjólaferðir og margt fleira.
Upplýsingastofan Mývatnsstofa
er öflug í að miðla upplýsingum
til ferðamanna.
Ferðalangar almennt ánægðir
Rannsóknamiðstöð ferðamála
og Háskóli Íslands gerðu
ferðavenjukönnun 2016 á meðal
erlendra gesta í Mývatnssveit.
Í Mývatnssveit hefur hlutfall
sumargesta frá Þýskalandi mælst
hærra en á landsvísu undanfarin ár.
Á tímabilinu 2014–2016 lækkaði
það þó úr 22% í 18% á sama tíma og
það fór úr 13% í 10% á landsvísu.
Bandaríkjamönnum hefur fjölgað
nokkuð hratt á svæðinu, eða úr 7% í
21%, á sama tíma og hlutfall þeirra
jókst úr 16% í 26% á landsvísu.
Almennt voru þátttakendur mjög
ánægðir (52%) eða ánægðir (34%)
með dvöl sína í Mývatnssveit. Um
3% aðspurðra sögðust hvorki vera
ánægðir né óánægðir, um 1%
gesta voru óánægðir og 10% mjög
óánægðir.
Á skalanum 1–5 var
ánægjustig gesta 4,19. Gestir frá
Bandaríkjunum mældust með 4,23
til samanburðar við 3,98 meðal
gesta frá Þýskalandi og 4,05 meðal
gesta frá Frakklandi.
Meiri ánægja virtist vera meðal
þeirra gesta sem fóru í gönguferð
þar sem ánægjustig þeirra mæld-
ist 4,29 til samanburðar við 3,99
meðal þeirra sem fóru ekki. Hjá
þeim sem fóru á kaffi- eða veitinga-
hús mældist ánægjan 4,34 til sam-
anburðar við 4,08 meðal þeirra sem
fóru ekki.
Áhugavert fráveituverkefni
Mývetningar hafa verið frumkvöðl-
ar í ýmsu um tíðina, nú síðast í
fráveitumálum. Umhverfisráðherra,
fjármálaráðherra og fulltrúar
Landgræðslunnar ásamt sveitar-
stjóra undirrituðu í apríl viljayf-
irlýsingu þessa efnis úti á ísnum á
vatninu. Nýta á salernisúrganginn til
uppgræðslu á Hólasandi. Umræða
hefur staðið yfir um nokkra hríð
um hvernig megi bæta frárennsl-
ismál við Mývatn. Nú hefur verið
ákveðið að aðskilja skólp frá salern-
um í lokaðan tank sem á að nýta til
uppgræðslu á Hólasandi í samstarfi
við Landgræðsluna.
„Þetta er mjög áhugaverð
lausn sem orðin er að stóru
umhverfisvænu verkefni. Við
byrjum í sumar, en aðalþunginn
á þeim framkvæmdum, bygging
á safntanki og annað verður
sumarið 2019. Umbótaáætlunin
er 4 ára verkefni. Landgræðslan
hefur verið með ekki ósvipað
verkefni í uppsveitum Árnessýslu
með góðum árangri. Þetta er bara
mjög spennandi á allan hátt,“ segir
Þorsteinn. /MÞÞ
SKÓGRÆKT&LANDGRÆÐSLA
Um fullnægjandi undirbúning og skýr markmið
Hjörleifur Guttormsson nátt-
úrufræðingur ritar grein í
Morgunblaðið 28. maí og ræðir um
gróður- og jarðvegsauðlindina. Um
hana vanti heildstæða stefnu og
löggjöf. Ábendingin er góð. Verri
eru fullyrðingar Hjörleifs um þá
mikilvægu atvinnugrein sem skóg-
rækt er í landinu.
Í yfirlætislegum tón ræðir
Hjörleifur um nytjaskógræktar-
verkefni á lögbýlum sem hann
nefnir þó ekki réttu nafni. Orðrétt
stendur: „Plöntun barrtrjáa í
birkiskóglendi heyrir víðast sögunni
til en undirbúningur og eftirlit
með svonefndri bændaskógrækt
er allsendis ófullnægjandi og
markmiðin óskýr.“ Hér er undið upp
á hlutina vægast sagt.
Hvergi eru barrtré gróðursett í
birkiskóglendi nú orðið. Það hefur
ekki verið gert í áratugi þótt víða
kunni annað að virðast. Birkið fagnar
þeirri beitarfriðun sem skógræktinni
fylgir og er fljótt að dreifa sér inn í
skógræktarsvæði. Þá getur litið svo
út sem barrtrén hafi verið gróðursett
í birkikjarri þótt svo sé alls ekki.
Gott væri að sjá rökstuðning
fyrir þeim orðum Hjörleifs að
undirbúningur og eftirlit með
skógræktarverkefnum á lögbýlum
sé „allsendis ófullnægjandi og
markmiðin óskýr“. Annars eru þetta
dylgjur.
Vandað til verka í skógrækt á
lögbýlum
Þegar bændur eða aðrir
landeigendur óska eftir því að
gera skógræktarsamning við
Skógræktina hefst mjög vönduð
undirbúningsvinna sem snertir
ótalmarga þætti. Send er inn ítarleg
umsókn þar sem fram kemur hvar og
hversu mikið landeigandi vilji rækta
af skógi. Taka þarf tillit til ræktaðs
lands svo sem túna og akra, huga að
fornleifaskráningu, náttúruminjum
og lífverum sem njóta verndar,
taka mið af vatnsverndarsvæðum
og fleira. Þegar samningssvæði
hefur verið afmarkað er sótt um
framkvæmdaleyfi til sveitarfélagsins
og send inn greinargerð
skógræktarráðgjafa ásamt loftmynd
af landinu. Öll þessi vinna lýtur
ákvæðum laga um skipulag og
vernd náttúru og minja en einnig
aðal- og deiliskipulagi viðkomandi
sveitarfélags. Svo ströng er gangan
að stundum þarf þrautseigju til
að komast yfir þennan hjalla í
umsóknarferlinu.
Þegar leyfi hefur fengist
fyrir samningi um skógrækt
á lögbýli gera skógfræðingar
Skógræktarinnar skógræktaráætlun
fyrir viðkomandi jörð. Nú er liðin
tíð að skógræktarreitir séu pínulítil
ferhyrnd „frímerki“ í fjallahlíðum.
Skógræktin er skipulögð með tilliti
til landslags, látin fylgja bugðum
og beygjum og leitast við að hafa
fjölbreytni í vali trjátegunda eftir
því sem skynsamlegt og mögulegt
þykir. Tekið er tillit til mikilvægra
vistkerfa, fugla og fleiri þátta. Alltaf
er þó hægt að gera betur og við það
er leitast.
Skýr markmið
Markmið nytjaskógræktar verkefna á
lögbýlum eru alls ekki óskýr. Lagt
var upp með það með lagasetningu
fyrir rúmum aldarfjórðungi að rækta
skyldi skóg á 5% láglendis undir
400 metra hæð yfir sjó. Hægt gengur
að ná því markmiði enda voru
framlög til nýskógræktar lækkuð
verulega eftir hrun og hafa ekki
hækkað síðan. Rétt er að benda á að
skógræktarverkefni á lögbýlum eru
ein tegund landbúnaðar sem stunduð
er á landbúnaðarlandi ekki ósvipað
túnrækt og akuryrkju.
Stefnt hefur verið að því um
árabil af hálfu hins opinbera að
gerð yrði landsáætlun í skógrækt og
landshlutaáætlanir. Sú vinna er nú
hafin hjá Skógræktinni. Með slíkum
áætlunum verða markmiðin enn
skýrari og þar með auðveldara að
laga skógræktarverkefnin að öðrum
þáttum sem snerta landnýtingu og
vernd. Þá geta allir séð hvar skuli
rækta skóg og hvar skuli ekki rækta
skóg. Ef að því kemur að mótuð
verði „heildstæð stefna og löggjöf“
um gróður- og jarðvegsauðlindina
er víst að Skógræktin hefur unnið
heimavinnu sína og er tilbúin með
sitt. Eitt er þó víst. Löngu er þörf á
afgreiðslu nýrra skógræktarlaga sem
eru að stofni til frá 1955.
Vandað eftirlit
Vandséð er að „svonefnd
bændaskógrækt“ sé nokkuð
annað en vel undirbúin
starfsemi. Eftirlitið er líka gott.
Skógræktarráðgjafar gera reglulegar
úttektir á skógræktarjörðum,
meta gæði gróðursetninga, taka
út tilviljanakennda mælifleti og
leiðbeina skógareigendum um það
sem betur megi fara. Allt er ítarlega
skráð og skógareigendur búa við
stöðugt aðhald fagfólks. Mógilsá,
rannsóknasvið Skógræktarinnar,
sér um að mæla allt skóglendi á
Íslandi með vissu millibili, þar á
meðal ræktað skóglendi á lögbýlum.
Tölum er skilað á hverju ári til
Loftslagssamnings Sameinuðu
þjóðanna. Loftslagssamningurinn
sendir fulltrúa sína hingað til
lands annað veifið til að meta
aðferðir og vinnubrögð þeirra sem
mælingarnar gera og hefur aldrei
gert athugasemdir. Er þörf á meira
eftirliti?
Hjörleifur endar grein sína á
því að nefna hækkun meðalhita
sem spáð er á norðlægum slóðum.
Hækkaður hiti muni væntanlega
bæta vaxtarskilyrði innlends
gróðurs, þar á meðal birkis. Ekki
er einsýnt um þetta. Skaðvaldar
herja nú á birki, einkum á láglendi.
Óvíst er hvernig íslenska birkinu
reiðir af á láglendi í hlýnandi
loftslagi. Þá er enn meiri þörf
annarra trjátegunda svo Íslendingar
geti bundið kolefni og séð sjálfum
sér fyrir því timbri sem verður
meginhráefni framtíðarinnar þegar
jarðarbúar snúa bakinu við kolum,
olíu, stáli og steinsteypu. Vonandi
fær birkið griðland til fjalla og á
hálendinu í friði fyrir sauðfjárbeit
og öðrum öflum sem viðhalda
auðnum. Á Íslandi eru ógnarstórar
auðnir sem við mennirnir eigum
sök á. Þessar auðnir losa mikinn
koltvísýring því þar liggja gamlar
jarðvegsleifar enn og rotna. Að
klæða þessar auðnir gróðri er eitt
stærsta náttúruverndarverkefnið
sem blasir við okkur. Skyldi
undirbúningur og eftirlit með
ástandinu á svonefndum ósnortnum
víðernum vera fullnægjandi og
markmiðin skýr?
Pétur Halldórsson
Kynningarstjóri Skógræktarinnar
Snauður melur sem áður var einskis nýtur og losaði jafnvel kolefni með rotnun gamalla jarðvegsleifa skrýðist
Mynd / Pétur Halldórsson
Oft margt um manninn í Mývatnssveit:
Brugðist við fjölgun ferðamanna
með uppbyggingu innviða
-
„Við höfum ekki farið varhluta
aðal ferðasegullinn á Norðurlandi