Íslenskt mál og almenn málfræði - 2014, Blaðsíða 101
3. Hvers konar framgómun?
3.1 Misvirk ferli
Eins og Michael Schulte bendir á í andmælum sínum (2013:214–215)
eyðir Haukur talsverðu púðri í að hrekja hugmyndir Gussmanns (1984)
um framgómun sem hljóðkerfislega virka reglu í íslensku. Þetta tekst
býsna vel, enda vildi Gussmann í raun leggja öll dæmi um framgómun í
íslensku að jöfnu. Hins vegar benda rannsóknir til þess að framgómun á
undan /í, i/ (þ.e. [i, ɪ]) lúti ekki sömu lögmálum og framgómun á undan
/e, ei/ (þ.e. [ɛ, ei]) og síðan er framgómun á undan /æ/ (þ.e. [ai]) alveg sér
á parti. Haukur fjallar nokkuð um þetta (2013a:62 o.áfr.) og sumt af þessu
hefur líka verið rannsakað skipulega, t.d. af Ingibjörgu Frímannsdóttur
(2001). Í því sambandi bendir hún líka á (2001:25–26) að framgómun sé
almennt algengari í tungumálum á undan frammæltum sérhljóðum því
nálægari sem þau eru og vísar m.a. í Kenstowicz og Kisseberth (1979:19,
255) í því sambandi. Samkvæmt því væri í raun eðlilegt að dregið hefði úr
framgómun á undan /e/ þegar það varð fjarlægara á sínum tíma (sbr.
áðurnefndar hugmyndir Guðvarðar Más Gunnlaugssonar 1993).
Guðvarður (1993) og Kristján Árnason (2005:251–252) ræða muninn
á framgómun á undan /í, i/ annars vegar og /e, ei/ (og /æ/) nokkuð ítar-
lega. Hér er ekki rúm til að tína til allt sem styður það að gerður sé greinar -
munur á þessum ferlum, en aðalatriðin eru þessi (sum dæmin tekin úr
grein Guðvarðar (1993), önnur úr ritgerð Ingibjargar Frímannsdóttur
(2001) eða handbók Kristjáns (2005:251)):12
(1) a. Framgómun á undan /í, i/ virðist undantekningarlaus í öllum gerð -
um orða, svo sem rótum erfðarorða (kíll, gíll, kista, gista), á undan
innlendum viðskeytum (vinkill, diskill), í skammstöfunum (KÍM), í
tökuorðum (kíper, gítar, kikk, gilli), í erlendum nöfnum sem eru
notuð í íslensku (Gínea, Kissinger) o.s.frv.
b. Framgómun á undan /e, ei/ er undantekningarlaus í rótum erfðar-
orða (ker, ger, keimur, geimur) en talsvert er um undantekningar frá
henni í annars konar orðum, t.d. á undan viðskeytum eða sýndar -
Stuðlar, hefðarreglur, hljóðkerfi 101
12 Í töflu VII í ritgerð Ingibjargar Frímannsdóttur (2001:107–108) er gefið yfirlit yfir
niðurstöður úr könnun þar sem skoðað var hvort málnotendur bæru fram framgómmælt
eða uppgómmælt lokhljóð á undan /e, ei/ í völdum orðum, m.a. tökuorðum eins og agent,
bakkelsi, orgel, parkett og erlendum landfræðiheitum eins og Genf, Genúa, Kenía,
Kensington o.fl. Verulegur breytileiki kom fram í framburði þessara orða.