Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 7
Bændablaðið | Fimmtudagur 30. júlí 2020 7
LÍF&STARF
Brennivín sem ilmar af sveitinni
Nýverið kom á markað nýtt handgert íslenskt
brennivín frá fyrirtækinu Brunni Distillery
sem ber nafnið Þúfa og er skír skotun í ís
lenska sveit. Upprunalega átti vínið að heita
Hey skapur enda er reyrgresi uppistaða sem
bragð efni vínsins sem gefur mjúkt og gott
heybragð af brennivíninu.
„Þetta var hugsað sem drykkur hestamanna,
eins og ginið sem við settum á markað árið
2016, Himbrimi, sem var hugsað sem drykkur
veiðimanna. Himbriminn átti upprunalega að
vera til einkanota í veiðiferðum fjölskyldunnar
en síðan komust barþjónar í þetta og úr varð
að ég og ítalskur félagi minn, Junio Carchini,
hófum að þróa vöruna til sölu. Árið 2019 vann
Himbrimi verðlaun sem besta gin í sínum flokki
á heimssýningu ginframleiðenda og þá fór
boltinn enn frekar að rúlla. Nú er himbriminn
borinn fram á Michelin-veitingastöðum
víða í Evrópu og er jafnan dýrasta ginið á
matseðlinum. Undanfarið höfum við síðan
þróað brennivín og er Þúfa afrakstur þess,“
útskýrir Óskar Ericsson, annar eigenda Brunns.
Sætur vanillukókoskeimur
Félagarnir vinna út frá því markmiði að nota
úrvalshráefni til að framleiða hágæðavörur
þar sem íslenska vatnið leikur stórt hlutverk.
Þeir auglýsa ekki vörurnar sínar heldur nýta
sér orðsporið til að koma vörunum á framfæri.
„Við vildum endurheimta orðspor
brennivínsins og framleiða gæðavöru en
einnig að leggja íslenskri byltingu lið sem er að
hefja fáguð eimingahús til vegs og virðingar.
Þúfa er okkar framlag í arfleifð hins íslenska
brennivíns og viljum við kynna það erlendis
sem hágæða áfengi. Útgangspunkturinn í Þúfu
er íslenskt reyrgresi svo það er mikið heybragð
af brennivíninu. Reyrgresi hefur verið notað til
að gefa góða lykt inn á heimili og hefur verið
notað til dæmis á kirkjugólfum og inn í skúffur
sem dæmi. Það gefur sætan vanillukókoskeim
og síðan notum við kúmen til að það teljist
brennivín ásamt vallhumli. Þetta er búið til
af mikilli natni og er í raun íslensk útgáfa af
ákavíti,“ segir Óskar.
Enginn ruddi
„Ég fer með ljá á sumrin og slæ reyrgresið
sem ég tek niður við fjöru svo það er svolítil
selta í því sem gefur örlítinn karamellukeim.
Síðan er það þurrkað og því snúið daglega
eins og heyi. Síðan notum við gæðaspíra og
sérsmíðaðan eimingarketil en þetta er eimt
yfir vatnsbaði við 360 gráðu hita. Það eykur
mýkt vörunnar og notað er íslenskt hveravatn
í eimingunni. Útkoman verður síðan mjúkt
og flókið brennivín sem gefur mikið bragð
og eftirbragð svo þetta er enginn ruddi. Það
má segja að þetta ilmi af sveitinni og íslenskri
náttúru og gott er að dreypa á þessu með klaka
og njóta frekar en að skjóta þessu í sig. Við
höfum fengið mikinn meðbyr og seljum nú
til margra landa í Evrópu ásamt Ameríku og
Ástralíu. Það kom örlítið bakslag núna vegna
kórónukrísunnar en það er í raun til góðs því
þá hefur okkur unnist tími til að fara í enn
frekari vöruþróun.“ /ehg
Landgræðsluaðgerðir á Landmannaafrétti 2004–2020:
Bændur hafa borið tilbúinn áburð á
3.635 hektara lands til gróðurstyrkingar
Bændur í Holta og Landsveit hafa verið
ákaflega samstarfsfúsir við Landgræðslu
ríkisins þegar kemur að landgræðslustörfum
á Landmannaafrétti. Það hafa þeir sýnt
í verki með umfangsmiklum aðgerðum
og lagt fram sín tæki og sína vinnu við
áburðardreifingu og uppgræðslustörf.
Frá árinu 2004 hafa bændur borið tilbúinn
áburð á um 3.635 hektara lands til gróður-
styrk ingar þar sem endurborið er á sum
svæðin og nýjum svæðum bætt við árlega.
Telur uppgræðslusvæðið um 800 hektara.
Kjöt mjöl hefur verið borið á síðastliðin haust
á 12 hektara, sáð hefur verið grasfræi í 126
ha með undraverðum árangri, auk þess sem
gömlum heyrúllum hefur verið dreift. Vegna
mikils áhuga heimamanna setti Landgræðslan
í gang tilraun árið 2018 inni við Valafell á
Land manna afrétti um hvaða áburðartegund af
tilbúnum áburði sé heppilegust til uppgræðslu
í úthaga og verður fróðlegt að sjá niðurstöður
þeirrar tilraunar.
Fé fer fækkandi á Landmannaafrétti
Þegar gæðastýring í sauðfjárrækt var
tekin upp var einn liður hennar að gera
landbótaáætlanir fyrir afrétti og einnig hluta
af heimalöndum bænda. Landbótaáætlanir
eru ekkert annað en gríðargott tæki
sem tekur á uppgræðsluaðgerðum og
beitarstýringu. Í núgildandi landbótaáætlun
fyrir Landmannaafrétt kemur fram að
búið er að friða 51,5% af heildarstærð
Landmannaafréttar. Beitartími er ákaflega
stuttur, aldrei er farið með fé á afréttinn fyrr
en í fyrsta lagi 10. júlí og því fær gróðurinn
gott forskot áður en beitartímabilið hefst.
Beitarþungi er ákaflega lítill og fer fé
fækkandi á afréttinum en til er nákvæm
skráning á þeim hausafjölda sem beitt er ár
hvert á afréttinn. Hófleg beit er hagabót var
eitt sinn ritað í afmælisrit Landgræðslunnar og
telja undirrituð að slík beit sé viðhöfð á Land-
manna afrétti. Það eru engir aðrir en bænd urnir
sjálfir sem þekkja afréttinn best, fara um hann
að lágmarki 2–3 skipti á hverju hausti við
smalamennskur og fylgjast vel með þróun á
gróðurfari. Það er sárt að sitja undir orðum
landgræðslustjóra þegar hann fer trekk í trekk
í fjölmiðla og heldur því fram að bændur
séu ekki að standa í stykkinu. Náttúrulegar
auðnir munum við aldrei geta grætt upp við
núverandi meðalárshita þar sem jarðvegsgerð,
vatnsrof og vindrof gegna lykilhlutverki í að
viðhalda slíkum svæðum. Beitarrannsóknir
undirritaðra á Landmannaafrétti staðfesta það
sem við bændur höfum alltaf vitað að fé beitir
sér ekki á slíkar auðnir. Landmannaafréttur er
eins og börnin okkar og við bændur leggjum
okkur fram við að hlúa að honum og vernda.
Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir, Skarði
Kristinn Guðnason, Árbæjarhjáleigu
Þátturinn verður helgaður efni nýútgefinnar vísnabókar eftir Hrein Guðvarðarson. Hreinn er fæddur að
Minni-Reykjum í Fljótum árið 1936. Hann
fór ungur að fást við kveðskap og varð
undra leikinn og listfengur í sinni vísnagerð.
Efnistökin eðlilega tengd atburðum dagsins
og hið skoplega fléttað einkar vel inn í
leikandi og lipurt ferskeytluformið. Vísur
Hreins bera flestar knappa yfirskrift sem
gefa lesanda grun um framhaldið. Á baksíðu
bókarinnar eru skráð þessi heilræði:
Þó stöðugt lífið strunsi hjá
og stríði allavega,
reyndu að koma auga á
allt það skemmtilega.
Þakka hamingjuóskir:
Þó víst sé hik á væntingum,
að verði ævin mikið betri,
þegar maður eldist um
ár á svo til hverjum vetri.
Veðrið, já:
Eflaust má telj’etta indælis tíð,
þó auðvitað misjafnt í sóknum.
Blíðu veður í Blönduhlíð
en bölvaður gustur á Króknum.
Ný ríkisstjórn bráðum:
Ég sit hérna hungraður, hattlaus
og hugs’um hvað margt á að laga,
því brátt verð ég skuldlaus og skattlaus
og skemmti mér alla daga.
Eftir kosningar:
Þagnaður hver túli trekktur,
trylltum lokið orðafans.
Eftir stend ég úfinn, svekktur,
illa svikinn, tældur, blekktur.
Því loforðanna ljómi þekktur
lýsti úr augum kjósandans.
Æ, fari það allt til andskotans.
Í stórhríðinni:
Í vetrarins ógnþrungna oki,
austan og norðaustan roki,
allt skeflir í kaf
sem skaparinn gaf
þó að ég moki og moki.
Hvað heldur þú?
Ýmsir hafa í orðum tengt sig
við æðri mátt og kristnu trúna,
en ætli Júdas hefði hengt sig
hefð’ann verið uppi núna?
Í ömmukaffi á Blönduósi:
Hér mót víni er fettur fingur
í fyllstu merking orðsins.
Samt er hálfur Húnvetningur
hinu megin borðsins.
Veðurfréttir með Hrafni:
Ég skil svo sem kortið með skúrir og hríð,
samt skýringar fer hann að þylja.
Þegar svo karlanginn þagnar um síð
þá er ég hættur að skilja.
Fundir og mannfagnaðir:
Í góðum hópi sæll ég sit
í sátt við augnablikið.
Í öllu tali er eitthvað vit
þó ekki sé það mikið.
SigurRós:
Ég spilinu helst ekki hæli
og hreint ekki skil þó ég pæli.
Þessum einskonar tón
með einskonar són
og einskonar angistar væli.
Bágindi:
Stundum mér verður í geðinu gramt
og grun hef um hvað veldur.
Ég get ekki vakað en geri það samt
því ég get ekki sofið heldur.
Umsjón:
Árni Geirhjörtur Jónsson
kotabyggð1@gmail.com
Hluti þeirra bænda sem tóku þátt í áburðardreifingu á Landmannaafrétti í sumar. Myndir / Guðlaug Berglind Guðgeirsdóttir
255MÆLT AF
MUNNI FRAM
Páll á Galtalæk við uppgræðslustörf.
Erlendur í Skarði og Ólafía í Húsagarði fylla á
áburðardreifarann.
Óskar Ericsson þefar af töðunni. Myndir / BD
Þúfu er ætlað að leggja sitt af mörkum til að
efla orðspor íslenska brennivínsins.