Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 34

Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 34
Bændablaðið | Fimmtudagur 30. júlí 202034 Á FAGLEGUM NÓTUMUTAN ÚR HEIMI Dulinn doði er algengt vandamál Doði er líklega einn þekktasti sjúk dómurinn sem kýr fá, fyrir utan júgurbólgu, og er tíðni hans um það bil 5%. Tíðnin hækkar venjulega með aukinni nyt og aukinni tíðni mjaltaskeiða en kýr á fyrsta mjaltaskeiði fá sjaldan þennan sjúkdóm þar sem þær mjólka minna og líkami þeirra er betur fær um að takast á við breyttar aðstæður en líkamar eldri kúa. Bandarísk rannsókn á Holstein kúm bendir til þess að tíðni sýnilegs doða sé 1% hjá kúm á fyrsta mjaltaskeiði, 4% hjá kúm á öðru mjaltaskeiði, 7% hjá kúm á þriðja mjalta skeiði og 10% hjá kúm á fjórða mjaltaskeiði. Dulinn doði er aftur á móti minna þekktur sjúkdómur en einföld þumalputtaregla segir að fyrir hvert sýnilegt tilfelli af doða séu jafnvel allt að því 10 önnur sem eru dulin og með öðrum orðum þá séu flestar eldri kýrnar að takast á við þetta vandamál með einum eða öðrum hætti. Toppurinn á vandamálinu Skömmu fyrir burð fara 8-10 g/dag af kalki frá kúnni yfir í kálfinn og þegar hún ber flyst mikið af kalki frá henni yfir í broddinn og síðar mjólkina. Þessi mikla þörf líkamans til að skilja út kalk er allt að því 10 sinnum meiri en líkaminn þarf til viðhalds án mjólkurframleiðslu. Þessi mikla breyting á kalkþörf líkamans á ein ungis örfáum dögum gerir það að verk um að efnaskipti kýrinnar þurfa að aðlagast hratt breyttum aðstæðum til þess að styðja við aukna þörf fyrir kalk. Ef það gerist ekki nógu fljótt, eða af nægilegri stærðargráðu, getur styrkur kalks í blóði kýrinnar lækkað og farið undir krítísk viðmiðunarmörk og það getur leitt til sýnilegs doða en oft ná einkennin ekki að verða sýnileg. Það má því segja að hvert sýnilegt tilfelli sé aðeins toppurinn á vandamálinu. Þetta sýna niður stöður bandarískrar rannsóknar sem einnig sýna að fóðrun síðustu vikurnar fyrir burð hafi mikil áhrif á fjölda kúa sem fái doða, bæði klínísk og dulin einkenni. Dulinn doði Rannsóknir benda til þess að dulinn doði geti verið í beinu sambandi við aðra efnaskiptasjúkdóma og geti verið aðal- eða afleidd orsök slakra afurða. Kýr með dulinn doða sýna ekki hefðbundin einkenni en hafa lágan styrk kalks í blóði, venjulega innan sólarhrings eftir burð. Þetta þýðir að eina leiðin til að vita hvort kýr eru að upplifa dulinn doða er að greina styrk kalks í blóði þeirra og þetta þarf að gera á fyrstu 1-2 dögunum eftir burð. Þegar verið er að meta hvort kýr er með dulinn doða, þ.e. sýnir ekki sýnileg einkenni, er erlendis miðað við að kalkstyrkurinn í blóði sé 8,0 mg/100 ml eða lægri. Hins vegar sýndi nýleg rannsókn í Bandaríkjunum að ef viðmiðið er hækkað í 8,5 mg/100 ml þá er mun líklegra að finna kýr sem þurfa á aðstoð að halda og í þessari rannsókn komust vísindamennirnir að því að á þessum skurðpunkti séu í raun 60% eldri kúa og um helmingur fyrsta kálfs kvígna að upplifa dulinn doða með einhverjum hætti. Hlutverk kalks Kalk er lífsnauðsynlegt fyrir lík- amann og tengist m.a. stoðgrind, vöðva- og taugastarfsemi og lægsti styrkur kalks í blóði verður venju- lega 12-24 klukkustundum eftir burð og fer venjulega aftur í eðlilegt horf hjá heilbrigðum kúm innan 2-3 daga eftir burð. Styrkur kalks í blóði er stjórnað með frásogi kalks úr fæðunni og losun eða upptöku kalks úr beinum. Tvö skjaldkirtilshormón, þekkt sem PTH, stjórna þessum ferlum og þegar styrkur kalks lækkar í blóði hefur PTH áhrif á nýrun til að draga úr útskilnaði kalks í þvag. Þessi breyt- ing gerir þó aðeins kleift að aðlagast litlum breytingum á styrk kalks í blóði og ef þörf er á meira magni af kalki hefur PTH áhrif á beinin og kalk er þá losað þaðan og yfir í blóðið. Til þess að PTH sé seytt frá kirtlinum og til þess að það geti unnið með réttum hætti þarf að vera til stað- ar nægilegt magn af magnesíum auk þess sem blóðsýrustigið þarf að vera aðeins minna basískt en venju lega. Þessar kröfur hafa áhrif á nauðsyn þess að gefa kúm kórrétt fóður á réttum tíma svo kýrnar hafi rétt og gott aðgengi að öll nauðsynleg um næringarefnum þegar þær þurfa á þeim að halda. Að hverju á að leita? Skipta má doða í þrjú stig miðað við alvarleika: Fyrsta stig Fyrsta stig doða er það sem venjulega er talið vera dulið ástand sjúkdómsins. Þetta getur oft verið afar erfitt að greina vegna þess að þetta stig stendur yfir í skamman tíma og einkennin geta verið breytileg. Þetta stig stendur yfirleitt í innan við klukkustund og meðal einkenna eru lystarleysi, taugaveiklun, riða og óeirð í afturfótum. Annað stig Annað stig doða varir venjulega allt frá 1-12 klukkustundum og sýnileg einkenni eru daufleiki til augna, köld eyru, skjálfti í vöðvum, óregla á göngu og óvirk melting. Líkamshiti kýrinnar gæti einnig lækkað. Þriðja stig Þriðja stigi doða er alvarlegast og nú getur kýrin ekki staðið upp og mun missa meðvitund sem svo leiðir til þess að hún fellur í dá. Hjartsláttur getur aukist hratt og gæti farið yfir 120 slög á mínútu. Venjulega lifa kýr í þriðja stigi, sem ekki fá meðhöndlun, ekki lengur en nokkrar klukku stundir. Áhrif doða Doði hefur áhrif á heilsu nýbæra og mjólkurframleiðslu þeirra í heildina tekið sem og frjósemi. Rannsóknir hafa sýnt að ónæmisstarfsemin er einnig í hættu hjá kúm með lága kalkþéttni í blóði og ef það á sér stað á fyrsta degi eftir burð er líklegra að kýrin fái vinstrarsnúning, súrdoða, alvarlegar sýkingar vegna fastra hilda eða jafnvel júgurbólgu. Kýr í of miklum holdum eru líklegri til að fá doða. Forvarnir Forvarnir gegn lágum styrk kalks í blóði við burð er mikilvægur þáttur þegar hugað er að meðhöndlun kúa á þessu mikla umbreytingaskeiði þ.e. þegar kýr fara úr því að vera í geldstöðu og yfir í að hefja mjólkurframleiðslu á ný. Öll kúabú ættu að hafa áætlun um það hvernig staðið skuli að meðferð kúnna á þessu tímabili svo þær nái sem bestri heilsu eftir burðinn og haldi góðri frjó- og afurðasemi. Eins og er með alla efnaskiptasjúkdóma þá eru réttar forvarnir lykillinn að góðum árangri og almennt gerist það með því að gefa þeim rétt fóður síðustu þrjár vikurnar fyrir burð. Með því að gefa kúnni rétt Snorri Sigurðsson snorri.sigurdsson@outlook.com Eftir burð eru kýr yfirleitt mjög þyrstar og þá er upplagt að gefa þeim sérstaka steinefna-, vítamín- og orkublöndu sem hjálpar þeim að komast vel frá burðinum og því efnaójafnvægi sem myndast í kringum breytingaskeiðið. Nýja-Sjáland: Hærra verð fyrir umhverfisvænni mjólk Nýsjálenska afurðafélagið Font erra hefur nú ákveðið að stíga skref í átt að aukinni sjálfbærni með því að breyta útreikningi á afurða­ stöðvaverði til eigenda sinna og greiða álag til þeirra bænda sem framleiða mjólk sem er metin umhverfis vænni. Fonterra er nánast einstakt á heims- vísu fyrir þær sakir að 95% af fram- leiðslu þess fer til útflutnings og er félagið umsvifamesta fyrirtækið á hinum alþjóðlega heimsmarkaði með mjólkurvörur. Það er einmitt vegna breytinga á heimsmarkaðinum sem Fonterra fetar sig nú í átt að kerfi sem er þekkt frá sumum öðrum löndum þar sem bændur fá greitt meira fyrir að framleiða mjólk við skilyrði sem hafa minni áhrif á umhverfið en gerist og gengur. Greitt fyrir efnainnihald Hingað til hafa nýsjálenskir bændur fengið borgað fyrir mjólkina í samræmi við efnainnihald hennar og í samræmi við það verð sem Fonterra hefur fengið fyrir annars vegar mjólkurfitu og hins vegar mjólkur prótein við sölu afurðanna. Nú eru hins vegar nýir tímar og sumir kaup endur eru tilbúnir að greiða álag á mjólkurvörurnar séu þær framleiddar við ákveðin skilyrði sem áður var lítið sem ekkert hugsað um. Til þess að mæta þessu hefur Fonterra nú útbúið sérstakar leiðbeiningar fyrir bændur varðandi umhverfisvæna framleiðslu og ef búin uppfylla skilyrðin og eru jafnframt með góð mjólkurgæði fá þau bónus. Þessi bónus getur numið allt að 9 íslenskum krónum á hvert kíló þurr efnis og kemur þessi bónusgreiðsla með tilfærslu innan afurðastöðvaverðsins, þ.e. heildarútgjöld Fonterra munu ekki aukast heldur verður afurðastöðvaverð lækkað hjá þeim sem verst standa sig. /SNS Kasakstan hyggst auka kornframleiðslu til muna Kasakstan er níunda stærsta land í heimi í ferkílómetrum talið og eru stór landsvæði þar sem nýtast vel til kornframleiðslu. Nú hyggjast stjórnvöld þar í landi auka korn­ framleiðsluna til muna og horfa til nýrra útflutnings markaða og fjárfesta til að koma inn í land­ búnaðinn. Árlega framleiða bændur í land- inu 19,5 milljónir tonna af korni en innlend eftirspurn er í kringum níu milljónir tonna. Uppskera undanfarin ár hefur verið í jafnvægi og helstu lönd sem korn er flutt út til eru nágrannalöndin Kákasus, Afganistan og Íran. Þar að auki hefur útflutningur til Kína, Tyrklands, Ítalíu og Spánar aukist hin síðustu ár. Ný tækni og fleiri styrkir Í Kasakstan er meginlandsveðurfar þar sem meðalhiti yfir sumartímann er í kringum 30 gráður en getur farið niður í mínus 20 yfir vetrartímann. Í norðurhluta landsins er frjósöm jörð og rigning á köflum. Stór svæði landsins eru þakin skógi en í suðurhluta landsins eru þurrar sléttur og eyðimerkur. Næstum engin á í landinu rennur til hafs heldur renna þær flestar í vötn eins og Kaspíahaf eða gufar upp í eyðimörkinni. Flestir árfarvegir eru uppþornaðir stóran hluta ársins. Í stórum hlutum landsins gera náttúru legar og veðurfarslegar aðstæður það að verkum að gott er að rækta korn, sérstaklega hveiti. Nú er einnig unnið að því að þróa ræktun á fleiri tegundum með nýrri tækni og auknum styrkjum til bænda. Rúmlega 250 þúsund bændur eru í landinu og öll kornframleiðsla er í einkaeigu. Svæði bænda eru mis- stór, allt frá fimm þúsund hekturum í suðurhluta landsins til upp undir 70 þúsund hektarar í mið- og norð- urhluta landsins. Erlendir fjárfestar streyma að Fjárfestar víða um heim líta nú landið hýru auga enda er það að- laðandi vegna legu þess, stuðn- ingskerfis og réttindum fjárfesta. Fjárfestinga verkefni í landinu njóta hagstæðra skattareglna. Umhverfið hefur leitt til þess að erlendir fjár- festar hafa veðjað á landið en fastar fjármagnsfjárfestingar jukust á síðasta ári um tæp 30 prósent og samsvaraði 1,4 milljörðum dollara. Yfirvöld bjóða fjárfestum upp á alla þá aðstoð sem þeir þurfa hyggist þeir fjárfesta í landbúnaði /ehg - Bondebladet Amerískir kúabændur fá 1 milljarð dollara í krísustuðning Kúabændur í Ameríku hafa farið illa út úr afleiðingum kórónufar­ aldursins og hafa stjórnvöld nú veitt greininni einn milljarð dollara í krísuhjálp sem deilist á tæp lega 18 þúsund kúabændur þar í landi. Hvert kúabú fær því að meðaltali um 60 þúsund dollara í stuðning frá ríkinu vegna áhrifa heims­ farald ursins. Mjólkurverð í landinu hefur ekki verið lægra í tíu ár og því er erfitt um vik fyrir kúabændur og skýrist það helst af COVID-19 en einnig af viðskiptastríði milli Bandaríkjanna og Kína sem hefur áhrif á verð land- búnaðarvara. Haft er eftir forseta landsins, Donald Trump, að sam- band landanna hafi kólnað enn frekar í kjölfar kór- ónu-veirunn- ar. Þar að auki hefur meðhöndlun Kínverja á Hong Kong og múslímskum minni- hluta hópum í landinu slæm áhrif. Kínversk stjórnvöld hafa gefið út að fyrsti viðskiptasamningurinn milli landanna, sem er upp á um 500 milljarða norskra króna, sé í hættu ef Bandaríkin láti ekki af gagnrýni sinni. /ehg - Bondebladet Mynd / Gunnhildur Gísladóttir Amerískur bóndi.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.