Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 20

Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 20
Bændablaðið | Fimmtudagur 30. júlí 202020 Viðtal Hannes Snorrason, fyrirtækjaeftirlitsmaður á öryggis- og tæknisviði Vinnueftirlitsins: „Fólk sér ekki hætturnar“ – Eftirlit í landbúnaði er í lágmarki. Því er áhættustýrt og fjármunum forgangsraðað í þágu stórra og fjölmennra vinnustaða. Vinnuslys eru afar kostnaðarsöm fyrir samfélagið og geta reynst einstaklingum sem lenda í þeim þungbær. Vinnuveitendur bera mikla ábyrgð og það er þeirra að sjá um að aðstæður á vinnustað séu til fyrirmyndar. Hannes Snorrason starfar við fyrirtækjaeftirlit hjá Vinnueftirlitinu. Hann segir að lítið eftirlit sé í landbúnaði því fjármunir séu af skornum skammti og áhættumat um eftirlit ráði áherslum. Hannes er með starfsstöð á Selfossi en honum er falið að sjá um eftirlit í sjávarútvegi og landbúnaði, allt frá Vesturlandi og austur í V-Skaftafellssýslu. Að auki sinnir hann ýmsu öðru eftirliti á Suður- landi. Hann kemst ekki yfir nema hluta af því sem honum er falið en til þess að svo mætti vera þyrfti að fjölga eftirlitsmönnum að hans mati. „Ég er útlærður vélfræðingur og með meistarabréf í vélvirkjun. Ég hef unnið á sjó og í landi í þeim fögum sem og við ýmislegt annað, t.d. við stjórnun og viðgerðir á alls konar vinnuvélum. Fyrir 15 árum hóf ég störf hjá Vinnueftirlitinu þar sem ég byrjaði að skoða vinnuvélaskráð tæki og vinnuvélar. Eftir ýmsar breytingar á starfinu var ég kominn inn í fyrirtækjaeftirlitið einvörðungu og hættur skoðun vinnuvéla. Þar með fór ég að skoða fyrirtæki almennt og undanfarin ár verið með áherslu á vélar og búnað. Mér voru faldar tvær yfiratvinnugreinar að vinna í: fiskveiðar, fiskverkun og fiskeldi ásamt því að hafa eftirlit með landbúnaði.“ Landbúnaðurinn ekki í forgangi Hannes segir að hefðbundinn landbúnaður sæti afgangi í fyrirtækjaeftirliti því velja þurfi á milli þess að skoða stóra vinnustaði með mikla hættu og mörgu starfsfólki eða heimsækja vinnustaði með fáum starfsmönnum eins og hefðbundin bændabýli. „Í fullkomnum heimi þá gæti þurft marga eftirlitsmenn í hvorum geira fyrir sig, sjávarútvegi og landbúnaði. Ég er með þessa tvo stóru geira á minni könnu en fæ vissulega hjálp frá eftirlitsmönnum víða um land. Aðrir eftirlitsmenn eru þó með sínar eigin yfiratvinnugreinar sem þeir þurfa að líta eftir. Í grunninn þarf ég að sinna öllu suðvesturhorninu og kemst ekki yfir nema brot af því sem þarf að gera. Ég get því ekki sinnt skoðunum í landbúnaði eins og þörf væri á,“ segir Hannes. Vinnueftirlit í hefðbundnum land búnaði var umtalsvert á fyrri árum þegar bændur voru heimsóttir reglulega og vélakosturinn tekinn út. „Það byggðist á því að eftirlitsmenn fóru út á land og tóku fyrir viss svæði og heimsóttu bæi. Þá var aðallega verið að skoða vélbúnaðinn, þ.e. dráttarvélar, heyvinnuvélar og slík tæki. Farið var yfir bremsur og stýri, hlífar yfir aflúrtök og ýmis almenn öryggisatriði og mikil áhersla lögð á drifsköft. Enn lengra síðan voru veltibogarnir t.d. áhersluatriði. Þarna voru ekki komin tæki eins og liðléttingar sem eru nú á öðrum hverjum bæ. Í dag eru liðléttingarnir skoðaðir árlega þar sem þeir eru vinnuvélaskráðir og því tekið gjald fyrir skoðunina. Almenn skoðun fyrirtækja eða býla er hins vegar ekki gjaldskyld.“ Hannes segir að síðar hafi skoðunin orðið víðtækari og ekki einskorðast við vélar og tæki. „Lögð var áhersla á að kynna áhættumat starfa og við fórum t.d. að skoða aðstæður í mjólkurhúsum, hvernig var búið um eiturefni sem notuð voru við þrif á mjaltakerfum. Einnig hvernig frágangur var við haughús og hvort væri hægt að detta ofan í þau eða í gegnum hlemma eða ófullkominn frágang. Því miður var þetta sum staðar í ólagi. Málið er að menn ætla ekki að hafa hlutina svona, þeir verða bara samdauna sínu umhverfi og sjá ekki hætturnar. Það er í raun ekkert öðruvísi en á öðrum vinnustöðum. Áætlað var að skoða hvert býli á fjögurra ára fresti en hér á Suðurlandi a.m.k. var langt í frá að það tækist miðað við þann tíma sem gefinn var í þetta. Ástæðan var sú að við vorum það fáir eftirlitsmenn sem vorum í þessu, margir bæir og stuttur tími áætlaður í verkið á hverju ári. Mögulega var hægt að fylgja þessari áætlun á öðrum stöðum á landinu þar sem voru færri bæir á hvern eftirlitsmann,“ segir Hannes. Hætt að fara í kerfisbundnar skoðanir á býli Það fór svo að tekin var ákvörðun innan Vinnueftirlitsins að breyta áherslunum í fyrirtækjaskoðunum. „Það var farið að áhættumeta eftirlitið hjá stofnuninni og spurt í hvað við værum að eyða kröftunum okkar. Ef að ég ætti að velja sjálfur hvort ég ætti að fara í 50 manna fyrirtæki í fiskvinnslu með mörgum hættum eða tveggja manna bændabýli með miklum áhættum þá vil ég helst ekki þurfa þess. Eyða í það jafn miklum tíma jafnvel. Hvort á ég að velja? Það er vont að þurfa að velja svona,“ segir Hannes og heldur áfram. „Vinnueftirlitið tók af skarið með þetta og sagði einfaldlega að það yrði ekki skoðað í landbúnaði í bili, nema eitthvað sérstakt kæmi upp. Þá var átt við kvartanir og slys. Það var sem sagt hætt að fara í kerfisbundnar skoðanir á hefðbundin býli. Þetta fannst mér persónulega mjög vont en ég skil alveg rökin.“ Fjárveitingar duga ekki til Að mati Hannesar eru of fáir eftirlitsmenn starfandi og þess vegna sé ekki hægt að sinna eftirliti eins og þyrfti. „Við erum einfaldlega ekki að sinna eftirliti sem skyldi, til dæmis í landbúnaði. Við höfum ekki fjármagn, ekki mannskap og ekki getu. Það þyrfti meiri peninga ef það ætti að sinna þessu sómasamlega. Skoðun hjá fyrirtækjum er á fjárlögum og inni í þeim fjárveitingum sem Vinnueftirlitið fær árlega. Þær duga bara ekki til svo hægt sé að sinna öllu. Ég tel okkur vera langt undir því að geta sinnt okkar hlutverki samkvæmt lögum því stofnunin er svo fjársvelt. Miðað við löndin sem við berum okkur oft saman við þá erum við með miklu færri eftirlitsmenn á hverja 10 þúsund starfandi en þau. Að auki tel ég að við séum með síðri reglugerðir að hluta til og ekki eins stíf viður lög við brotum. Við höfum til dæmis ekki þau völd að geta beitt beinum sektum þegar hlutirnir eru augljóslega ekki í lagi og valda mikilli hættu.“ Landbúnaður í stöðugri þróun Þrátt fyrir að skoðanir á býlum séu ekki lengur við lýði er ýmislegt gert fyrir landbúnaðinn. Nýlega lauk sérstöku samstarfsverkefni við Landbúnaðarháskólann sem sneri að gerð kennsluefnis. Einnig hafi verið skoðað hjá Landbúnaðarháskólanum og Skógræktinni og er Vinnueftirlitið í góðu samstarfi við þessa aðila. Þá hafi Vinnueftirlitið, í samvinnu við Bændasamtökin og Evrópsku vinnuverndarstofnunina, komið á fót rafrænu áhættumati fyrir bændur sem heitir Oira. Það verkfæri er komið í loftið til skoðunar en er þó enn í þróun og verður kynnt með meiri þunga þegar þeirri vinnu lýkur. „Við höfum verið að sinna ýmsum verkefnum sem gaman er að segja frá. Við erum til dæmis að horfa á nýjar búgreinar eins og skógrækt þar sem stundað er skógarhögg sem er afar áhættusöm iðja. Það eru um 700 skógarbændur á landinu og veitir ekki af að sinna þeim. Það eru stór fyrirtæki og stofnanir í geirum tengdum þessum málaflokki sem og garðyrkju og skrúðgarðyrkju. Ég er búinn að skoða nokkra aðila eins og Skógræktina og í góðri samvinnu við þá að leiðbeina um vinnuverndarstarf og ýmislegt því tengdu. Vinnueftirlitið hefur að auki skoðað hinar ýmsu starfsstöðvar hjá Landbúnaðarháskólanum. Þetta eru aðilarnir sem kenna fólkinu okkar og að sjálfsögðu þarf allt að vera í lagi þar. Við hjá Vinnueftirlitinu erum því ekki alveg að skilja landbúnaðinn út undan,“ segir Hannes. Vinnuslys í landbúnaði Aðspurður um tíðni vinnuslysa í landbúnaði segir Hannes að það sé vitað að vinna með og í kringum dýr er stærsti áhættuþátturinn. Í samantekt sem gerð var árið 2004 um slys meðal bænda á Íslandi á vegum Vinnueftirlitsins, kom í ljós að tæpur helmingur slysa til sveita var vegna umgengni við skepnur. Næstmesta hættan er í kringum viðhald og endurbyggingar en 16,5% slysa urðu við þau störf. 11,3% slysa urðu við viðhaldsstörf á vélum. En eru bændur samviskusamir að tilkynna slys? „Það virðist því miður ekki í nógu góðu lagi. Bændur þurfa líklega að vera duglegri að tilkynna vinnuslys. Það byggist eflaust á því að þeim finnst ekki taka því ef slysið er minni háttar en það er þó lagaleg skylda að tilkynna vinnuslys sem veldur meiri fjarveru en bara slysdaginn. Minni háttar slys sem valda fjarveru er auðvelt að tilkynna á Mínum síðum á heimasíðu Vinnueftirlitsins og er aðallega til þess gert að hægt sé að vinna í tölfræðinni og breyta eða leggja áherslur á vissa þætti í eftirlitinu. Auðvitað er tilgangurinn líka að skrá slysin á formlegan hátt svo þau gögn séu til hjá opinberum aðila. Við fáum oftast inn til okkar tilkynningar um alvarleg slys þar sem kallaður er til sjúkrabíll eða lögregla. Þegar hringt er í 112 er spurt hvort um sé að ræða vinnuslys og þaðan er haft samband við viðbragðsaðila Hannes Snorrason, eftirlitsmaður hjá Vinnueftirlitinu, segir að lítið eftirlit sé í landbúnaði því fjármunir séu af skornum skammti. Áður var kerfisbundið farið í heimsóknir til bænda til þess að skoða vélakost og vinnuaðstæður en það sé liðin tíð. Myndir / TB Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.