Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 30.07.2020, Blaðsíða 6
Bændablaðið | Fimmtudagur 30. júlí 20206 Á sumarleyfistímum er lítið um að vera í hinu opinbera kerfi. Allir njóta þess að ferðast innanlands eins og ráðlegging þríeykisins hljómaði í upphafi sumars. Það er ánægjulegt að sjá og finna hversu Íslendingar eru duglegir að nýta það sem landið okkar hefur upp á að bjóða. Bæði í afþreyingu og þjónustu úti um allt land. Ferðaþjónustan í hinum dreifðu byggðum nýtur góðs af því þessar fáu vikur sem við leyfum okkur að hverfa frá amstri hversdagsins. Við sem einstaklingar beinum okkar viðskiptum að innlendum þjónustuaðilum sem nú sakna sárlega allra erlendu gestanna sem voru margfalt fleiri en búa hér á landinu bláa. Eitthvað er nú að glæðast í þeim efnum en ég hef talsverðar áhyggjur af þeim tíðindum sem berast frá Evrópu vegna svokallaðrar seinni bylgju kórónuveirunnar. Sums staðar er rætt um að taka upp ferðatakmarkanir að nýju sem vekur okkur til umhugsunar hversu lengi þetta ástand kemur til með að vara. Ferðaþjónustan á ekki sjö dagana sæla og þarf að þreyja þorrann og góuna. Rekstraraðilar sjá þegar fram á mikið tekjufall og margir ágætir starfsmenn í ferðaþjónustunni eru nú atvinnulausir. Í ljósi þess verðum við að treysta því að ríki og sveitarfélög ásamt bankakerfinu komi til með að sýna ástandinu skilning. Kolefnisspor matvælaframleiðslunnar Alltaf sprettur upp umræða um kolefnisspor íslensks landbúnaðar og sumir halda því fram að hann sé mesti skaðvaldur í öllum kolefnissporum landsins. Það er af og frá. Við höfum lifað í gegnum aldir á afurðum okkar hér heima og eigum að vera stolt af því. Það eru talsverð kolefnisspor af innflutningi og einnig af framleiðslunni í öðrum löndum. Við bændur getum lagt heilmikið af mörkum til þess að bregðast við loftslagsvandanum. Nýleg umhverfisstefna Bændasamtakanna rammar ágætlega inn vilja bænda. Við viljum stunda landbúnað á Íslandi í sátt við náttúruna og alla þegna landsins. Það eru mörg tækifæri sem liggja í betri búskaparháttum og bændur geta sótt fram á mörgum sviðum. Við eigum til dæmis alltaf að keppa að bættri afurðasemi gripa, betri nýtingu á tilbúnum áburði og búfjáráburði, loftslagsvænni ræktunaraðferðum og nýta orkuna eins vel og hægt er. Þannig leggjum við okkar af mörkum. Umræðan um loftslagsmálin er hins vegar flókin og tekur á sig ýmsar myndir. Það sem einum þykir augljós sannleikur einn daginn getur verið hin mesta bábilja þann næsta. Mér þótti athyglisvert að ræða plastnotkun við finnska kollega mína í garðyrkjunni fyrir nokkru. Þeir hafa fengið háskóla í Finnlandi til að gera úttekt á þeirra málum. Meðal annars var metið hvaða áhrif plastnotkun í gúrkuframleiðslu hefði á sótsporið. Niðurstaðan var sú að gúrka í plasti endist betur og er ekki nema tvo sólarhringa að vinna upp kolefnissporið sem tapast með rýrnun á vörunni ef ekkert væri plastið. Matarsóun er stór breyta sem þarf að taka tillit til. Það er mikið unnið með því að auka geymsluþol matvara og minnka þannig sóun. Þá þarf að framleiða færri gúrkur og sótsporið er minna fyrir vikið. Plastið er því ekki alslæmt! Í mínum huga er plastið ekki vandamálið ef við höfum farveg til að endurnýta eða endurvinna það. Þar eru fjölmargir möguleikar sem við erum ekki að nýta okkur í dag. Búskapur er eins og lífsins lotterí Uppskera bænda er misjöfn milli landshluta og ekki hafa veðurguðirnir verið öllum jafn hliðhollir. Á Suðurlandi muna menn vart eftir annarri eins uppskeru af túnum á meðan bændur á Norðaustur- og Austurlandi hafa þurft að lifa við óhemju mikið kal í vor og takmarkaða uppskeru af endurrækt vegna þurrka og kulda á nóttunni. Útiræktað grænmeti er farið að streyma á markað en það er svona í meðallagi varðandi árstíma þar sem kuldi í vor seinkaði aðeins þroska. Kornakrar líta vel út á flestum stöðum og eru væntingar um góða uppskeru í haust. Það er nú samt ekkert öruggt í þessu lífi. Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 11.200 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgara og öryrkja kostar 7.200 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Gætum hagsmuna hver annars Það er áþreifanleg spenna í þjóðfélaginu þrátt fyrir að nú séu flestir landsmenn í sumarleyfum. Bannsett kórónuveiran er að sækja í sig veðrið á ný og fjöldi nýrra smita minnir okkur á að fara að öllu með gát. Veðurspá verslunar mannahelgarinnar er með þeim hætti að áhyggjur af úti- samkomum sem ögra fjöldatakmörkunum virðast óþarfar. Einhver gárungurinn sagði að Þórólfur sóttvarnalæknir hefði verið bænheyrður þegar hann sá rigningarmerkin í veðurkortunum. Kári Stefánsson birt- ist í fréttatímanum í vikunni og tilkynnti þungur á brún að Íslensk erfðagreining ætlaði að taka til við skimun á ný. Hrós til Kára og hans fólks! Þrátt fyrir ferðagleði landans hvílir skuggi yfir ferðaþjónustunni sem berst í bökkum. Þar hafa margir misst vinnuna á síðustu vikum og það er sárt. Fjöldi fyrir- tækja er tæknilega gjaldþrota og ljóst að kraftaverk þarf til að rekstur margra þeirra geti haldið áfram óbreyttur. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar var fjöldi atvinnulausra í júní 8.300 manns, eða um 4,1% af vinnuaflinu í landinu. Þessar tölur eiga vafalaust eftir að hækka í haust þegar sumarvertíðinni lýkur. Annars er óvissan mikil og enginn getur í raun og veru spáð fyrir um þróunina. Við sjáum hins vegar að staðan er alvarleg. Þær fréttir sem berast af lífróðri Icelandair endurspegla vandann í atvinnugreininni. Stjórnendur eru ekki öfundsverðir þegar þeir horfa fram á algjört tekjuhrap og kjarasamninga sem er ógjörn- ingur að standa við í því ástandi sem nú ríkir. Vinnudeila flugfreyja og stjórnenda Icelandair sýnir svart á hvítu hvað hark- an er mikil og veruleikinn óblíður þegar harðnar á dalnum. Flugfreyjum var stillt upp við vegg þegar þeim var sagt upp á einu bretti í kjölfar viðræðuslita. Svo náðist samningur sem báðir aðilar eru örugglega ekki fyllilega sáttir við þótt menn segi annað í sjónvarpsviðtölum. Eftir situr minna traust, beiskja og særindi. Sú hætta er veruleg þegar illa árar í efnahagslífinu að brotið sé á réttindum launafólks eða mörg skref stigin til baka í þeirra réttindabaráttu. Á dögunum kom undirritaður á bensínstöð og gaf sig á tal við afgreiðslumann. Hann var þreytulegur og sagði farir sínar ekki sléttar. Eigendurnir eru búnir að skera allt inn að beini og fækka starfsfólki. Afgreiðslumaðurinn var einn á 8 tíma vakt þar sem hann hafði ýmis hlut- verk; aðstoða bíleigendur, afgreiða pylsur og hella upp á kaffi. Hann þarf að læsa bensínstöðinni þegar hann bregður sér á salernið og engan hvíldartíma fær hann á meðan vinnutíma stendur, hvorki kaffi- né matartíma. Ég hváði og spurði hvort þetta væri yfir höfuð hægt að bjóða nokkrum manni. „Maður getur svo sem ekki kvartað þegar atvinnuástandið er eins og það er,“ sagði hann. Samfélagið ætti allt að hafa þetta í huga og halda vöku sinni. Pössum líka upp á okkar minnstu bræður og systur. Sparnaður og niðurskurður í velferðarkerfinu verð- ur kominn á dagskrá áður en við vitum af. Fljótt gengur á féð í ríkiskassanum og alþingismenn geta tæplega stofnað til nýrra útgjalda á næstu misserum. En það er ekki allt að fara til fjandans og best að minna sig á það í öllum bölmóð- inum. Við sem störfum í landbúnaðinum höfum ástæðu til að gleðjast yfir góðri tíð og ágætri sölu á okkar afurðum. Ástæða er til að þakka tryggð neytenda sem hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeir eru þakklátir fyrir íslenska matvælaframleiðslu og aðrar afurðir bænda. /TB Veljum íslenskt fyrir umhverfið og efnahaginn Ritstjóri:Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is & Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Sími: 563 0332 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621 Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands gunnar@bondi.is ÍSLAND ER LAND ÞITT Vitinn á Kálfshamarsnesi við Kálfshamarsvík. Hann var upphaflega reistur 1913 en endurbyggður 1939. Kálfshamarsvík er lítil vík norðarlega á vestanverðum Skaga, milli Skagafjarðar og Húnafjarðar. Fyrsta húsið í víkinni var reist rétt eftir aldamótin 1900. Á fyrstu áratugum 20. aldar og fram undir 1940 var mikil útgerð í Kálfshamarsvík. Í þorpinu var samkomuhús og skóli og einhverjar smáverslanir. Fiskleysi og þjóðfélagsbreytingar á stríðsárunum urðu til þess að fólki fækkaði og síðustu íbúarnir fluttu burt veturinn 1947–1948. Mynd / Hörður Kristjánsson. Mynd / BBL

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.