Fréttablaðið - 22.08.2020, Side 26
Kórónuveirufaraldurinn geisar, efnahagurinn versnar, félagsleg einangrun eykst
og þannig mætti lengi halda áfram. Eina vonin er bóluefni er sagt og það er ekki
alveg á næsta leiti. Ég velti því fyrir mér hvort annars konar bóluefni sé ef til vill
hluti af lausninni. Reyndar hefur töluvert borið á því en enn fleiri mættu fá sér
þessa bólusetningu. Hún er kærleikur, umburðarlyndi og samhugur. Þetta er
bólusetning sem búið er að margreyna í aldanna rás og hefur sýnt sig að virkar
mjög vel. Það besta við þetta bóluefni er að það þarf ekki að bíða eftir framleiðslu
eða athuga birgðastöðu, það er alltaf til í ríkulegu magni fyrir þá sem vilja þiggja.
En hvernig tekur maður inn þetta bóluefni? Það er heldur ekkert vandamál. Það
þarf enga sérfræðinga eða sprautu til heldur getur hver og einn notað sína aðferð
við að innbyrða bóluefnið. Og það besta er að allir finna áhrifin, þetta virkar strax.
Bólefnið hefur í för með sér að sá sem hefur verið bólusettur sýnir ábyrgð og vilja
til að tryggja öryggi og hag annarra og dómharka og eigingirni hverfur á braut.
Nú er tækifæri til að sýna samhug og kærleika. Nú er átakið „Ekkert barn útundan“
í gangi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, við erum að safna fjármunum til að geta stutt
efnalitla foreldra grunnskólabarna í upphafi skólaárs.
Félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar taka í síauknum mæli á móti fjölskyldum
sem eru í þeirri stöðu að hafa minna en ekkert á milli handanna eftir að fastaútgjöld
heimilisins hafa verið greidd um mánaðamót. Hvaða útgjöld eru þetta? Jú,
húsnæðiskostnaður, sími, rafmagn og hiti, tryggingar, skólamáltíð, samgöngu-
kostnaður – og afborgun lána. Það er nefnilega þannig að þegar fjárhagsstaðan er
endurtekið í mínus getur hún ekki annað en versnað. Þá eru tekin yfirdráttarlán og
fólk festist í vítahring fátæktar.
Kórónuveirufaraldurinn hefur leitt til þess að enn fleiri upplifa tekjulækkun og
jafnvel tekjumissi. Þegar fjárhagsstaðan er neikvæð til lengri tíma er hætt við því
að börnin líði fyrir. Frístundastyrkurinn dugar fyrir frístund eftir skóla en þá er
ekkert eftir í iðkunargjöld hjá íþróttafélögum. Þá er heldur ekkert eftir til að kaupa
íþróttabúnað eða greiða fyrir ferðir með hinum krökkunum þar sem dýrmæt
félagsleg tengsl verða.
Þegar fjárhagsstaðan er í mínus til lengri tíma er erfitt að greiða skólagjöld í
framhaldsskóla og dekka efniskostnað. Það er eiginlega ómögulegt að fæða og
klæða börnin almennilega hvað þá að kaupa handa þeim síma eða hlaupabretti eins
og hinir krakkarnir fá.
Innbyrðum bóluefnið samhug og kærleika og látum gott af okkur leiða. Ein leiðin er
að taka þátt í söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Fyllum svo á bóluefnið eftir þörfum
það er enginn hætta á ofskömmtun!
Bjarni Gíslason,
framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar
Framkvæmdastjóri:
Bjarni Gíslason
Margt smátt …,
2. tbl. 32. árg. 2020
Ábyrgðarmaður:
Kristín Ólafsdóttir
Myndir:
Forsíða og bls. 3
Rakel Ósk Sigurðardóttir fyrir
Hjálparstarf kirkjunnar.
Aðrar myndir: Hjálparstarf
kirkjunnar og samstarfsaðilar
Prentvinnsla:
Umbrot:
Pipar\TBWA
Prentun:
Ísafoldarprentsmiðja
Annars konar bóluefni
Bjarni Gíslason framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar
ÞÖKKUM STUÐNINGINN
Dedicated to People Flow
Sími 6178830
2 – Margt smátt ...