Vinnan - 01.05.1966, Page 14
12
U
aincin
Guðgeir Jónsson:
„Fremjið eigi rangindi — Þolið
eigi rangindi,/
Þess hefir verið óskað, að ég skrifaði stutta grein
— einskonar afmæliskveðju — til Alþýðusambands ís-
lands vegna 50 ára afmælis þess.
Ég vil reyna að verða við þessu. Mér kemur þá fyrst
í hug að minnast á árið 1942. Það herrans ár hófst
með verkföllum nokkurra verkalýðsfélaga. Samninga-
umleitanir höfðu verið reyndar, en ekki borið neinn
árangur. Þegar þessi verkföll höfðu staðið um viku-
tíma, brá þáverandi ríkisstjórn á það ráð, að gefa út
bráðabirgðalög til að ógilda verkföllin og skipa verk-
fallsmönnum að hverfa aftur til vinnu, án nokkurra
lagfæringa á kjörum. Jafnframt var settur á lagg-
irnar svokallaður gerðardómur, sem verða átti alls-
ráðandi um kjör og kaup verkalýðsins.
Alþýðuflokkurinn átti þá einn ráðherrann af fimm.
Sá ráðherra var andvígur þessum ráðstöfunum, og
dró flokkurinn hann úr ríkisstj órninni af þessum sök-
um. Alþingi staðfesti bráðabirgðalögin um veturinn
gegn atkvæðum þingmanna verkalýðsflokkanna.
Þetta gerðardómslagatilræði ríkisstjórnarinnar og
meiri hluta Alþingis varð til þess að þjappa öllum stétt-
vísum verkalýð svo fast saman, að verkalýðsflokk-
arnir, Alþýðuflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn, urðu,
nauðugir viljugir að fella niður að verulegu leyti
illvígar deilur sín á milli.
Margir forystumenn verkalýðsfélaganna sneru bök-
um saman, til varnar gegn þessum þvingunarlögum.
Þessi sameiginlega vörn snerist furðu fljótt upp i
sókn. „Gerðardómurinn“ varð óvirkur, og um sum-
arið varð ríkisstjórnin að skipa sérstaka sáttanefnd
til að koma á samningum milli Dagsbrúnar og Vinnu-
veitendafélagsins.
Fyrir ágústlok felldi Alþingi svo gerðardómslögin úr
gildi og heimilaði uppsögn samninga með viku fyrir-
vara.
Svo fór um sjóferð þá.
Þessi samstaða verkalýðsins, gegn gerðadómslög-
unum, hlaut að hafa veruleg áhrif á Alþýðusambands-
þingið, sem saman kom um haustið. Þar sveif sá andi
yfir vötnunum, að samkomulag yrði að takast um
myndun sambandsstjórnar. Sú varð og líka raunin á.
Sambandsstjórnin var kosin einróma, og miðstjórnin
skipuð fjórum Alþýðuflokksmönnum, fjórum Sósíal-
istaflokksmönnum og einum utan flokka.
Ég hygg, að mér sé óhætt að fullyrða, þótt mér sé
málið skylt, að samstarfið í miðstjórninni hafi gengið
furðuvel og aukið á traust verkalýðsfélaganna, bæði
innávið og útávið.
Meðal þess, sem þessi miðstjórn réðist í, var stofn-
un og útgáfa tímaritsins Vinnunnar, og þó að tíma-
ritið hafi, því miður, ekki fullnægt fyllstu vonum, sem
því voru tengdar í upphafi, tel ég, að betur hafi þetta
verk verið unnið, en óunnið.
Því miður varð þetta samstarf of endasleppt. Þegar
líða tók að kosningum til Alþýðusambandsþings, 1944,
fóru flokkspólitísku sjónarmiðin að segja til sín, og
á þinginu sjálfu sauð uppúr. En það er annar kapítuli,
og að mínu viti til viðvörunar.
Ég hefi kosið að dvelja aðallega við árið 1942, til
þess að minna forystumenn verkalýðsfélaganna og
allan verkalýð yfirleitt á nauðsyn þess aff standa sam-
an á verði um áunninn rétt sinn og sækja fram til
aukinnar menningar.
„Fremjið eigi rangindi. — Þolið eigi rangindi“, voru
einkunnarorð Ólafs Friðrikssonar á verkalýðsblaðinu
„Dagsbrún“ forðum daga. Þetta ættum við enn að
hafa í minni.
Ég árna svo Alþýðusambandi íslands allra heilla á
fimmtíu ára afmælinu og vona, að í forystu þess verði
ætíð viðsýnir verkalýðssinnar.