Heilbrigðisskýrslur - 01.12.1932, Blaðsíða 84
82
konunnar í fjóra mánuði ársins, en fé Deildarinnar hrökk elcki til með
öðru móti. Félagið var þó svo heppið að fá hjúkrunarkonuna til að taka
aftur við starfinu um haustið. Sjúkrabifreið félagsins var allmikið
notuð og gefst ágætlega. Því miður er hún dýr í rekstri, og erfitt að fá
greiðslu fyrir flutning sjúklinga, sem margir eru fátækir og þurfaling-
ar. Stjórnin hefir nú sótt um hækkaðan ársstyrk frá Alþingi, og væntir,
með aðstoð landlæknis, að sú umsókn beri góðan árangur. Tekjur af
skemmtunum, merkjasölu og gjöfum fara rénandi síðari árin. Kostn-
aður við skemmtanir þær, sem haldnar eru til fjáröflunar, er óhæfi-
lega mikill (húsaleiga, dansmúsik o. fl.). Hlutaveltur eru nú bannaðar,
en þær gáfu allgóðar tekjur, og hér við bætist, að áhugi almennings
virðist vera að dofna fyrir öllum góðgerðarfélagsskap og hjálparstarf-
semi.
Höfðahverfis. Starfsstúlkan er ráðin til 14. maí 1933. Hættir hún þá
störfum, og er óvíst, að önnur fáist í hennar stað. Hún hefir kr. 200,00
í árskaup. Auk þess hefir hún í dagpeninga kr. 2,00 á dag frá 14. maí
til 1. okt. en kr. 1,00 fyrir vetrarmánuðina. Af þessum 90 þjónustu-
dögum hafa 23 verið gefnir. Félagið gefur við og við fátækum sængur-
konum og sjúklingum dálitlar fjárupphæðir.
Seyðisfj. Iðgjöld sjúkrasamlagsins eru frá kr. 1,00 upp í kr. 3,50 pr.
mánuð. Meðlimum tryggð sjúkrahúsvist í 30 vikur og dagpeningar,
sem fara eftir iðgjaldi, í 10 vikur. Læknir og lyfjabúð gefa 15% afslátt.
Norðfj. Ekkert sjúkrasamlag eða hjúkrunarfélag til í héraðinu. Til-
raunin til að endurreisa sjúkrasamlag Norðfjarðar hefir lognast út af.
Reyðarfj. Sjúkrasamlag starfar á Búðareyri með um 20 meðlimi
(ekki skráð).
Vestmannaeyja. Engin lærð hjúkrunarkona starfar að hjúkrun í
héraðinu, utan sjúkrahúss. Sjúkrasamlög eru hér ekki til.
Rangár. Tvö sjúkrasamlög,FIjótshlíðar og' Holtamanna, eru starf-
andi í héraðinu. Rekstur þeirra gengur, að ég held, vel.
Iíeflavíkur. 1 Sandgerði var á vertíðinni lærð hjúkrunarkona, eins
og undanfarandi, á vegum Rauðakrossins. Hefir hún mjög mikið að
gera. Full þörf væri þar á sjúkraskýli, því iðulega verður að senda
burtu sjúklinga, sem hjúkrunarkonan gæíi stundað, ef þar væri skýli.
C. Barnahæli — fávitahæli.
Barnahæli, sem tekur bæði heilbrigð börn og fávita, hefir verið reist
á Hverakoti í Grímsnesi, að einhverju leyti í skjóli Prestafélags ís-
lands.
Héraðslæknir lætur þessa getið:
Grímsnes. Á barnahælinu á Sólheimum í Grímsnesi eru um 30
börn á ýmsum aldri, flest úr Reykjavík. Flest vanrækt börn, eða
börn, sem eru vandræðagripir að einhverju leyti. Forstöðukona hæl-
isins, Sesselja Sigmundsdóttir, er eigandi þess og rekur það fyrir
eiginn reikning. Húsið er hitað með jarðhita og stendur í skjóli fyrir
norðanvindi móti suðri og sól. Að vetrinum njóta börnin þar einnig
kennslu. Heilsufar barnanna hefir verið gott, og aðbúð þeirra og upp-
eldi er að mínu áliti í ágætum höndum.