Fræðaþing landbúnaðarins - 08.02.2008, Page 21
ALÞJÓÐLEG ÞRÓUN í LANDBÚNAÐI | 19
Leiðin frá Balí: Skógar, landnýting og loftslagsbreytingar
Hugi Olafsson
Umhverfisráðuneytinu
Ágrip
Erindið er yfirlitserindi um þátt skóga og landnýtingar í alþjóðlegum samningum um
loftslagsmál, en sérstaklega í viðræðum um nýtt samkomulag, sem hleypt var af
stokkunum á fundi í Balí í árslok 2007.
Þrettándi aðildarríkjaíundur Loftslagssamnings S.þ. í Balí 2007 var þýðingarmikill
vegna þeirrar ákvörðunar hans að hleypa af stokkunum nýjum samningaviðræðum
með þátttöku allra ríkja til að ná framtíðarsamkomulagi um loftslagsmál sem taka á
við eftir að skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur 2012. Ljóst er að
umræða um landnýtingu og skóga verður fyrirferðarmikil í samningaviðræðunum
framundan, m.a. vegna ákvörðunar um að skoða möguleika á draga úr skógareyðingu
í þróunarríkjum. Island á að taka virkan þátt í þeirri umræðu, bæði vegna mikilvægis
landnýtingarþáttarins á heimsvísu og vegna aðstæðna á Islandi, þar sem miklir
möguleikar eru á að binda kolefni úr andrúmsloftinu í gróðri og jarðvegi.
Loftslagsvandinn er tilkominn vegna uppsöfnunar koldíoxíðs og annarra
gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, sem veldur hlýnun lofthjúpsins, sem aftur
getur valdið mikilli röskun á lífríki og lífsskilyrðum mannkyns. Það á ekki síst við um
landbúnað og fæðuframleiðslu, en þurrkar og breytt ræktunarskilyrði munu hafa
afdrifaríkar afleiðingar sérstaklega fyrir þann stóra hluta mannkyns sem býr við
sjálfsþurftarbúskap og fátækt.
Loftslagsvandinn er fyrst og fremst orkuvandi, því stærstur hluti losunar GHL af
mannavöldum er vegna bruna jarðefnaeldsneytis. Landnýting er þó veruleg uppspretta
losunar, einkum eyðing skóga í hitabeltinu, sem er talin losa e.t.v. um fímmtung
heildarlosunar af mannavöldum. Á móti kemur að skógrækt og landgræðsla geta
bundið kolefni úr andrúmslofti. Ef vel tekst til ætti að vera hægt að ná verulegum
árangri í loftslagsmálum og á öðrum sviðum með því að draga úr skógar- og
landeyðingu og auka upptöku kolefnis í nytjaskógum eða með endurheimt vistkerfa.
Þetta er viðurkennt í Loftslagssamningnum og Kýótó-bókuninni, sem heimilar ríkjum
að gefa út sk. bindingareiningar, sem nota má til að uppfylla tölulegar skuldbindingar
þeirra. Þar er einkum horft til skógræktar og umhirðu skóga, en einnig er hægt að telja
sér landgræðslu til tekna, en Island lagði fram tillögu þess efnis á vettvangi
loftslagssamningsins.
Þótt mikilvægi landnýtingarþáttarins í kolefnishringrásinni og loftslagsbreytingum sé
augljós, hafa ýmsir þó lýst yfir efasemdum um að taka landnýtingu formlega inn í
“kolefnishagkerfið” sem Kýótó-bókunin setur á fót. Bent er á að binding sé ótrygg og
að henni séu takmörk sett. Mæling á bindingu er flókin og óvissumörk stór. Erfitt er
að fá heildarsýn yfir kolefnisbúskap lífríkisins og koma í veg fyrir að friðun á einum
stað leiði ekki til aukinnar eyðingar annars staðar. Aðgerðir á sviði bindingar geta haft
ófyrirséðar afleiðingar á öðrum sviðum. Sumir telja að binding dragi athygli og krafta
frá því meginverkefni að breyta orkubúskap heimsins frá notkun jarðefnaeldsneytis til
endumýjanlegra orkugjafa. Þetta hefur m.a. leitt til þess að strangari reglur gilda um
aðgerðir á sviði bindingar, t.d. í loftslagsvænni þróunaraðstoð, en varðandi aðgerðir til
minnkunar losunar frá orkuframleiðslu og iðnaði.