Fræðaþing landbúnaðarins - 08.02.2008, Page 373
MÁLSTOFA H - FERÐAMÁL OG SAMFÉLAGSGERÐ | 371
Landbúnaðartengd ferðaþjónusta
Hlín C. Mainka Jóhannesdóttir
Hólaskóli - Háskólinn á Hólum
Útdráttur
í þessu erindi verður fjallað um landbúnaðartengda ferðaþjónustu og stöðu hennar hér
á landi. Þá er landbúnaðartengd ferðaþjónusta í Þýskalandi tekin til skoðunar.
Landbúnaðartengd ferðaþjónusta virðist þar hafa skýrari ímynd og sterkari stöðu en
hér á landi og er lögð áhersla á að gestir dvelji á bænum um einhvern tíma og skapi
jákvæða tengingu við fólkið á bænum, umhverfið og náttúruna. Fimm býli í
Þýskalandi voru heimsótt og viðtöl tekin við rekstraraðila. Fjallað er um þá
margþættu þjónustu sem í boði er erlendis og tækifæri sem til staðar eru á Islandi til að
efla landbúnaðartengda ferðaþjónustu.
Landbúnaðartengd ferðaþjónusta og dreifbýlisferðaþjónusta
Dreifbýlisferðaþjónusta, landbúnaðartengd ferðaþjónusta, ferðaþjónusta bænda - allt
eru þetta skyld hugtök, en hafa þó aðeins ólíka merkingu. Landbúnaðartengd
ferðaþjónusta, sem á ensku kallast agritourism hefur verið skilgreind sem hvaða
fyrirtæki eða starfsemi sem er, sem býður gestum að koma á sveitabæ, búgarð eða inn
í dreifbýlt samfélag til þess að njóta landbúnaðar og náttúrulegra auðlinda (Maetzold,
2004). Víða í Evrópu er hugtakið farm tourism notað í sömu merkingu, en einnig eru
notuð hugtök svo sem farm holidays,farm vacation tourism og tourism on farms.
Landbúnaðartengd ferðaþjónusta er ein undirgreina dreifbýlisferðaþjónustu (e. rural
tourism) en undir hana flokkast einnig ferðaþjónustugreinar eins og náttúrutengd
ferðaþjónusta, ævintýraferðaþjónusta og menningartengd ferðaþjónusta. Þannig er
dreifbýlisferðaþjónusta mun víðara hugtak en landbúnaðarferðaþjónusta. Þessar
ferðaþjónustugreinar tengjast þannig ekkert endilega landbúnaði, þ.e.a.s. landbúnaður
er ekki beint þema í þeirra vöruffamboði, þó að þær kunni að fara fram í umhverfi þar
sem landbúnaður er rekinn (O’Donnell, 1991; Lane 1995).
Landbúnaðartengd ferðaþjónusta getur verið margra vikna dvöl með gistingu á býli, en
einnig stutt heimsókn yfír daginn á sveitabýli með uppákomu, sýningu eða fræðslu
tengdri landbúnaðarstarfsemi. Hér má nefna dæmi eins og skólaheimsóknir,
sveitamarkaði eða fræðsluferðir (Wilson, Fesenmaier, Fesenmaier og Van Es, 2001).
Framboð innan landbúnaðartengdrar ferðaþjónustu er nokkuð misjafnt á milli landa en
i mörgum nágrannalöndum okkar er það afar fjölbreytt. I Þýskalandi heldur Deutsche
Landwirtschafts- Gesellschaff (DLG) úti einni af stærstu vefsíðum Þýskalands
(www.landtourismus.de~) sem miðlar upplýsingum um dreifbýlisferðaþjónustu á
landsvísu. DLG er ein helsta landbúnaðarstofnun Þýskalands og tekur út og flokkar
fyrirtæki í dreifbýlisferðaþjónustu eftir ströngum gæðakröfum. Þannig er framsetning
framboðsins stöðluð með ákveðnum hætti (ekki framboðið sjálft) í því skyni að
tryggja betur að áfangastaðir standist sem best væntingar viðskiptavina (DLG, án árs).