Bændablaðið - 14.01.2021, Blaðsíða 10

Bændablaðið - 14.01.2021, Blaðsíða 10
Bændablaðið | Fimmtudagur 14. janúar 202110 FRÉTTIR Káraknjúkur, Káraknjúkastífla og Hálslón. Vatnsaflsvirkjanir Landsvirkjunar: Miðlanir standa vel þrátt fyrir lítið innrennsli Þrátt fyrir litla úrkomu og kulda­ tíð á hálendinu stendur orku­ kerfi Landsvirkjunar vel og er ekki útlit fyrir takmarkanir á raforkuafhendingu á yfir­ standandi vetri. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun hefur innrennsli í miðlunarlón verið í minna lagi í haust og engir vetrarblotar náð inn á hálendið það sem af er vetri. Öll miðlunarlón voru full fram yfir miðjan október, en frá þeim tíma hefur niðurdráttur verið samfelldur. Vegna þessa er heildarstaða miðlana um áramót ívið lakari en í fyrra. Innrennsli á Þjórsársvæði og í Hálslón hefur verið með allra minnsta móti. Á móti kemur að orkusala hefur verið undir væntingum þannig að miðlunarstaðan nú um áramót er vel þolanleg. Aðeins rennur á yfirfalli þegar lónið er í hæstu stöðu sem er yfirleitt á tímabilinu ágúst til október. Hvort og hvenær rennur um yfirfallið og hversu mikið er þó verulega háð árferði sem er mjög breytilegt milli ára. Á síðasta ári var rennsli um yfirfall frá 22. ágúst til 17. september. Þess utan rann ekkert um yfirfallið. Mest var rennslið um yfirfall þann 2. september, eða 174,26 rúmmetrar á sekúndu, en féll svo hratt niður í 0,41 m3/s þann 17. september. Hægt er að fylgjast með vatnshæð lóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar: www.landsvirkjun. is/rannsoknirogthroun/voktun. Þegar lág vatnsstaða er í Hálslóni þorna set sem getur verið rokgjarnt þegar hvessir. Er slíkt fok vel vaktað. Sem dæmi var lítils háttar fok í 153,35 klukkustundir á árinu 2019. Töluvert uppfok var í 19,75 klukkutíma og mikið uppfok var samtals í 4,6 klukkustundir. Hálslón er stærsta manngerða uppistöðulón á Íslandi, eða 57 ferkílómetrar. Það er 25 km að lengd og allt að 2 km á breidd. Nýtanlegt vatnsmagn fyrir rekstur virkjunarinnar er 2.100 gígalítrar (2,1 teralítrar eða 2,1 rúmkílómetrar) og renna úr því 107 m3 á sekúndu niður í stöðvarhús virkjunarinnar í Teigsbjargi, þaðan sem vatninu er beint í Jökulsá í Fljótsdal sem aftur rennur í Lagarfljót. Þórisvatn er reyndar líka nýtt sem miðlunarlón fyrir virkjanir á Þjórsár- og Tungnársvæðinu og er um 70 km2 frá náttúrunnar hendi. Það getur hins vegar orðið allt að 86 km2 vegna áhrifa af stíflumannvirkjum og verður þá stærra en Þingvallavatn sem er stærsta stöðuvatn a Íslandi, eða 84 km2. Þingvallavatn væri reyndar aðeins minna ef þar væru engin stíflumannvirki vegna Sogsvirkjunar. /HKr. Hálslón 28. júní 2019. Myndin var tekin úr gervihnetti. Hægra megin á myndinni gnæfir Snæfell í 1.833 metra hæð yfir sjávarmáli. Danskir minkabændur koma að minkaeldi í Skagafirði Einar Eðvald Einarsson, loðdýrabóndi að Syðra­Skörðugili og formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, hefur tekið minkabúið í Héraðsdal á leigu af Kaupfélagi Skagfirðinga en danskir minkabændur fjármagna framleiðsluna. Að sögn Einars er hann eini loðdýrabóndinn á Norðurlandi og þar sem verð á minkaskinnum hefur verið lágt undanfarin misseri með tilheyrandi fækkun bænda er leigan á búinu og samningurinn við Danina hluti af því markmiði að auka aftur framleiðsluna án þess þó að skinnaverð séu komin á réttan stað aftur. Danir tryggja framleiðslukostnaðinn „Samningurinn við Danina gengur út á að þeir tryggja mér framleiðslukostnað á skinnum sem koma frá Héraðsdalsbúinu. Í raun er samningurinn þannig að þeir kaupa af mér skinnin fyrir það verð sem kostar að framleiða þau samkvæmt mínum útreikningum. Ég er þannig lagað búinn að selja þeim skinnin fyrirfram og fæ mánaðarlegar greiðslur næstu tólf mánuðina frá og með 1. janúar síðastliðinn. Ég veit þannig fyrirfram úr hverju ég hef að spila fjárhagslega. Skili skinnin hagnaði er svo í samningnum ákvæði um hvernig honum er skipt. Það er því tryggt að ég tapa ekki á framleiðslunni en á móti er ekkert víst að ég græði á þessu heldur. Hitt er hins vegar ljóst að með þessu erum við að búa til um það bil tvö ný stöðugildi, auka fóðursölu frá fóðurstöðinni og koma vannýttum byggingum í notkun ásamt því að auka útflutningstekjur þjóðarinnar,“ segir Einar. Samningur til þriggja ára „Samningurinn við Danina er til þriggja ára en byrjað verður með 1.500 læður og svo metum við fram- haldið þegar hjólin fara að snúast. Markmið Dananna með þessu er að kanna hvernig aðstæður eru til minkaeldis á Íslandi, prófa samstarf við okkur og meta aðstæður. Þeir hafa óbilandi trú á framtíðinni og sannfærðir um að nægur markaður verði á komandi árum fyrir skinnin. Þeir eru því ekki hræddir við að gera þetta með þessum hætti en mín trygging fyrir því að þeir hlaupi ekki frá þessu er sú að þeir kaupa lífdýrin sem við svo sjáum um að þjónusta og vinna með. Danirnir hafa í raun enga beina aðkomu að rekstri búsins aðra en að ég verð í góðu sambandi við þá og þeir ætla að koma hér reglulega og fylgjast með. Þetta er mjög reynslumikið fólk sem hefur verið í minkarækt í tugi ára, þannig að við eigum eflaust eftir að eiga líflegar umræður um hvernig reka eigi minkabú en það erum við sem ráðum og þeir hætta þá ef þetta gengur ekki, en ég er samt mjög bjartsýnn á að þetta eigi eftir að ganga vel,“ sagði Einar að lokum. /VH Einar Eðvald Einarsson. Sauðárkrókur: Tilraun með almenningssamgöngur á Sauðárkróki stendur fram í mars Byggðaráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar samþykkti á síðari hluta árs 2020 að hefja almennings­ samgöngur á Sauðárkróki í tilraunaskyni fram til marsloka á þessu ári. Einungis verður ekið innan þéttbýlisins. Skólabörnum er heimilt að nýta sér þessar ferðir og hafa þar forgang umfram fullorðna segir í fundargerð byggðaráðs. Einnig að allar ferðir séu gjaldfrjálsar á þessu tímabili. Lögð verður áhersla á að öryggi þeirra sem nýta sér slíkar samgöngur verði sem best tryggðar, m.a. með reglum um hámarkshraða. Að tilrauninni lokinni mun byggðaráð meta árangurinn og hvort haldið verði áfram með verkefnið en m.a. verður tekið tillit til mismunandi þátta við það mat, kostnaðar, notkunar og stefnu um heilsueflingu svo dæmi séu tekin. /MÞÞ Allar „strætóferðir“ verða gjaldfrjálsar á þessu tilraunatímabili. Fuglaflensa fer eins og eldur í sinu um Evrópu Að undanförnu hefur fuglaflensa farið eins og eldur um sinu í Evrópu. Flest fuglaflensutilfelli sem greinst hafa í Evrópu síðustu mánuði eru vegna skæðrar fuglaflensuveiru af gerðinni H5N8. Mikilvægt er að hafa í huga að fólk getur smitast af fuglaflensu. Afbrigðið hefur greinst bæði í villtum fuglum og fuglum í eldi. Villtir fuglar virðast hafa mesta þýðingu fyrir útbreiðslu veirunnar. Mast er á vaktinni Á heimasíðu Matvælastofnunar segir að stofnunin fylgist stöðugt með þróun faraldursins og metur áhættu fyrir Ísland. Stofnunin hvetur fuglaeigendur að huga ávallt vel að smitvörnum og búa sig undir þann möguleika að fyrirskipaðar verði sérstakar smitvarnaráðstafanir. Ekki þörf á auknum viðbúnaði Matvælastofnun álítur ekki þörf fyrir aukinn viðbúnað hér á landi enn sem komið er en um leið og farfuglarnir fara að skila sér aftur til landsins er hugsanlegt að það breytist. Stofnunin minnir fuglaeigendur á að gera ráðstafanir til að verja fugla sína fyrir smiti frá villtum fuglum með því að viðhafa ávallt góðar almennar smitvarnir, forðast að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla, gæta þess að fóður og drykkjarvatn sé ekki aðgengilegt villtum fuglum og halda fuglahúsum vel við. Fuglaeigendur eru líka beðnir um að vera vakandi og hafa samband við Matvælastofnun ef þeir verða varir við sjúkdómseinkenni eða aukin dauðsföll. Svínabændur sem eru líka með alifugla þurfa að gæta sérstaklega vel að smitvörnum því svín geta líka smitast af fuglaflensu. Almenningur beðinn að hafa augun opin Almenningur er beðinn um að tilkynna Matvælastofnun ef villtir fuglar finnast dauðir og orsök dauða þeirra er ekki augljós. Það má gera með því að senda ábendingu eða tölvupóst á mast@ mast.is eða hringja í 530-4800 á opnunartíma. Þrjú viðbúnaðarstig Matvælastofnun hefur skilgreint þrjú viðbúnaðarstig vegna fugla- flensu. Viðbúnaðarstig 1 er alltaf í gildi en ef líkur aukast á að skæð fuglaflensa berist til landsins tekur viðbúnaðarstig 2 gildi. Þá mun Matvælastofnun leggja til við ráð- herra að fyrirskipa tímabundnar aðgerðir til að hindra að flensan berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Komi upp grunur um skæða fuglaflensu eða hún staðfest, fær- ast viðbrögð yfir á stig 3. Mikilvægt er að hafa í huga að fólk getur líka smitast af fuglaflensu. Við handfjötlun dauðra fugla er því nauðsynlegt að gæta smitvarna, að minnsta kosti nota grímur og hanska. Þegar um er að ræða smit í hópi fugla þurfa þeir sem vinna að aðgerðum að klæðast fullkomnum hlífðarbún- aði. Það skal þó tekið fram að það afbrigði sem nú geisar í Evrópu hefur hingað til ekki valdið sýk- ingum í fólki. Engar vísbendingar eru um að fólk geti smitast af neyslu eggja og kjöts. /VH Snemmbær Aðlögun Það er fátítt að lömb komi í heim inn á þessum árstíma en það gerðist þó á bænum Gríshóli í Helgafellssveit. Þann 9. janúar bar ærin Aðlögun tveimur fallegum gimbrum, sem hafa fengið nöfnin Fanney og Ísold. Aðlögun bar á eðlilegum tíma í vor en hefur greinilega átt ævintýri í úthaganum í sumar. Á bænum Gríshóli búa mæðginin Guðrún Reynisdóttir og Guðmundur Karl Magnússon með um á fjórða hundrað fjár. /MHH
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.