Bændablaðið - 11.03.2021, Qupperneq 29

Bændablaðið - 11.03.2021, Qupperneq 29
Bændablaðið | Fimmtudagur 11. mars 2021 29 sínar sem tengjast Odda og miðöld- um, en á þessu og næstu árum mun Oddastefnan alfarið verða helguð Oddarannsókninni, sem er þverfag- leg rannsókn fræðimanna og skiptist í tvo hluta. Annar hlutinn er fornleifarann- sókn og -uppgröftur í Odda, sem stýrt er af Kristborgu Þórsdóttur hjá Fornleifastofnun Íslands, en hinn hlutinn er rannsókn á Odda sem kirkju- og valdamiðstöð í Rangárþingi, um nám Sæmundar fróða o.fl. og þeim hluta er stýrt af dr. Helga Þorlákssyni, en með honum í teymi eru Ármann Jakobsson og Sverrir Jakobsson ásamt Agli Erlendssyni.“ Vekja úr mold hin sögustóru fold – Það eru háleit markið um fram- tíðaruppbyggingu Odda, út á hvað ganga þau markmið og hvað ætlið þið að gera? „Já, við viljum leggja okkur fram um að láta draum sr. Matthíasar Jochumssonar rætast, en hann var prestur í Odda um aldamótin 1900 og orti kvæðið Á Gammabrekku. Í því kvæði segir hann m.a.: „En samt þú svafst of lengi / ó sögu- stóra fold. /Ég vil, en vantar strengi / að vekja þig úr mold.“ Við viljum sem sagt gera hvað við getum til að „vekja úr mold hina sögustóru fold“ og lítum svo á að það sé ekki aðeins verðugt verkefni fyrir okkur í Oddafélaginu, heldur í raun fyrir landsmenn alla. Framlag Oddaverja til íslenskrar menningar er einfaldlega ómetan- legt og það er okkar skylda að halda nafni þeirra og verkum á lofti og minnast þeirra með þakklæti. Því hvað erum við Íslendingar annað en sú menning sem hver kynslóð skilur eftir og næstu kynslóðir byggja á? Menning, í þess orðs víðustu merk- ingu, er bæði sprottin af sjálfsmynd okkar og mótar hana um leið. Ef sjálfsmynd okkar er sterk og stendur djúpum rótum í vitund okkar sem einstaklinga þá vegnar okkur betur í lífinu, hvar sem við erum stödd í samfélaginu. Þjóðarsaga okkar er merkileg og hún er í raun ótrúlegt ævintýri. Að viðhalda þekkingu á henni er eitt það dýrmætasta sem við getum fært samtíma okkar og kynslóðum framtíðarinnar. Horfum bara á verk Snorra. Án þeirra hefði t.d. Tolkien ekki haft neinn efni- við í höndunum nema Bjólfskviðu. Hringadróttinssaga hefði aldrei verið skrifuð, og þar af leiðandi aldrei Game of Thrones, ef út í það er farið. Þetta er augljóst og nýlegt dæmi sem ætti að opna augu allra fyrir því hverslags verðmæti felast í bókmenntaarfi okkar, menningar- leg náttúruauðlind sem skapar arð í beinhörðum peningum,“ segir Friðrik. Fjölbreytt menningar- og fræðasetur Friðrik segir að stóra verkefni Oddafélagsins í framtíðinni, og meginmarkmið þess frá upphafi, er að reisa Sæmundarstofu, menn- ingar- og fræðasetur í Odda og nýja Oddakirkju fyrir 4-500 manns, sem jafnframt yrði tónlistarhús. „Sæmundarstofa þarf að vera fjölbreytt menningar- og fræðasetur, annars vegar fyrir íbúa Rangárþings, með aðstöðu fyrir ýmiss konar við- burði, t.d. sýningar, tónleikahald, fundi, ráðstefnur, skemmtanir, einkaviðburði og samkomur, fyrir- lestra og námskeið. Hins vegar þyrfti Sæmundarstofa einnig að þjóna sem menningar- og fræðasetur fyrir alla landsmenn og erlenda gesti, með fastri sýningu um Sæmund Sigfússon og sögu Odda og veita gestum og gangandi almenna þjónustu. Nú hefur Suðurland eignast sína eigin sinfóníuhljómsveit, sem mun án efa vaxa og dafna á komandi árum. Tónlistarfólk í Rangárþingi hefur lengi skort verðugan vettvang fyrir tónleikahald, og í því sambandi hafa mörg úr þeirra hópi nefnt að ný kirkja í Odda, sérhönnuð fyrir tón- listarflutning, væri eftirsóknarverður möguleiki fyrir söng- og tónlistar- fólk héraðsins, um leið og að vera aðlaðandi tónlistarhús fyrir innlent og erlent tónlistarfólk og rúma vel tónlistarviðburði af svipuðum toga og haldnir eru árlega í Skálholti, Reykholti og að Hólum. Auðvitað mun gamla kirkjan halda áfram að þjóna sínu hlut- verki, t.d. fyrir smærri fjölskyldu- athafnir eins og skírn eða brúð- kaup. Við höfum horft til þeirrar frábæru uppbyggingar sem átt hefur sér stað í Reykholti, sem sr. Geir Waage og Dagný Emilsdóttir eiga stærstan heiður af, og það öfl- uga og merkilega menningarstarf sem Snorrastofa hefur afrekað með Berg Þorgeirsson forstöðu- mann í fararbroddi frábærra starfs- manna. Við lítum til Snorrastofu og Reykholtskirkju sem fyrirmyndar að vissu leyti, en kringumstæður hér og þarfir héraðsins munu auðvit- að móta verkefnið, sem og niður- stöður Oddarannsóknarinnar. Svo ræðst staðsetningin kannski fyrst og fremst af ákvörðun fornleifa- fræðinganna, því ekki megum við byggja ofan á fornleifar.“ Langtímaverkefni sem þarf að vanda vel til og vinna skref fyrir skref – Eru þessar framkvæmdir, ný kirkja og Sæmundarstofa, ekki dýr fram- kvæmd og hvernig ætlið þið að fjár- magna verkefnin? „Það er auðvitað ekki hægt að áætla kostnað við svona framkvæmd fyrr en búið er að meta þörfina á fermetrafjölda og gera grófa rýmis- teikningu. Þetta er langtímaverkefni sem þarf að vanda vel til og vinna skref fyrir skref. Fyrst er að fá rým- isteikningu og síðan tillögur að útliti. Varðandi fjármögnun þá lítum við auðvitað til þess hvernig aðrir okkar sögufrægustu staða hafa verið byggðir upp. Þar hefur ríkissjóður auðvitað komið að málum og þjóð- kirkjan þegar um kirkjustaði er að ræða. En annars konar fjármögnun kemur auðvitað líka til greina og allar leiðir þarf að skoða. Við finnum að það er mikill stuðningur við uppbyggingu í Odda bæði innan héraðs sem utan og því spennandi og verðugt verkefni að finna leiðirnar til fjármögnunar. Hliðstæð menningarsöguleg upp- byggingarverkefni hafa ávallt að hluta til verið fjármögnuð með söfn- unum og framlögum og það er ekki eftir neinu að bíða að hefja slíkt. Við vitum t.d. að fyrirtæki og íbúar í héraði munu leggja þessu verðuga verkefni lið, hver eftir sínum mætti. Oddafélagið hefur nú þegar opnað sérstakan söfnunar- reikning fyrir verkefnið og mun standa fyrir viðburðum til að safna í Sæmundarsjóð sem við köllum svo, m.a. höldum við styrktartónleika í sumar á Oddahátíð, sem verða í Odda laugardaginn 3. júlí. Við áttum okkur á því að verkefnið mun taka tíma en við erum byrjuð, það er fyrir öllu,“ segir Friðrik. Við minnumst 900 ára ártíðar Sæmundar fróða eftir 12 ár – Hvaða tímaplan er í gangi, hvenær munum við sjá nýja Oddakirkju rísa og hvenær verður Sæmundarstofa tekin formlega í notkun ef allt gengur upp? „Það eru 12 ár þar til við minn- umst 900 ára ártíðar Sæmundar fróða, sem lést þann 22. maí 1133. Svo á þeim degi, árið 2033 væri við hæfi að einhverjum áfanga hefði verið náð í Odda sem vert væri að fagna. Best væri að á þeim degi mætti bjóða til stórra tónleika í nýrri Oddakirkju að lokinni sálumessu fyrir Sæmund; að fræðimenn sem hefðu gist Sæmundarstofu gætu haldið erindi í menningarsalnum og boðið yrði upp á aðra viðburði og góðar veitingar í tilefni dagsins. Eigum við ekki að segja að það sé draumurinn á þessari stundu.“ - Hversu brýnar og nauðsynlegar eru þessar framkvæmdir að þínu mati og ykkar hjá Oddafélaginu? „Þær eru brýnar og nauðsynlegar frá ýmsum sjónarhornum. Fyrir það fyrsta þá er engin stór kirkja í Rangárþingi sem kalla mætti hér- aðskirkju, og sem rúmar t.d. stórar athafnir eða jarðarfarir. Mjög margir neyðast til að flytja útför ættingja sinna á Selfoss. Þetta er aðeins eitt dæmi um nauðsyn stórrar héraðs- kirkju, sem er vel sett í miðju hér- aðsins og getur rúmað allar helstu athafnir, jafnt og hátíðir kirkjuársins eins og páska- eða jólamessu. Tónlistarfólk í héraði hefur engan stóran vettvang fyrir æfingar eða flutning, nema mögulega íþrótta- húsin. Hvað Sæmundarstofu varðar er brýnt að skapa þá menningarmiðju í héraðinu sem lengi hefur skort, eins konar samastað og athvarf íbúa og þann stað sem býður upp á aðstöðu fyrir samkomur af öllu tagi, ráðstefn- ur, fundi og hvers kyns sýningarhald. Nýliðnir Zoom og Teams-tímar hafa kannski kennt okkur þá lexíu að það jafnast ekkert á við að hitta fólk í sama rými. Tæknin er góð og nauðsynleg og hefur bjargað mörgu á þessum erfiðu tímum sem vonandi eru að baki. En það kemur ekkert í staðinn fyrir mannlega nærveru, samtöl og samfélag fólks undir sama þaki. Sú starfsemi sem Sæmundarstofu er ætlað að inna af hendi er bæði atvinnu- og verðmætaskapandi. Sæmundarstofa gerir Odda að áfangastað á Suðurlandi fyrir inn- lenda sem erlenda ferðamenn og er um leið samastaður og samkomu- staður fyrir alla Rangæinga,“ segir Friðrik. Blásið til Oddahátíðar 3. júlí – Það stendur mikið til í sumar í Odda, 3. júlí. Hvað gerist þá ná- kvæmlega? „Já, það er rétt, þá ætlar Odda- félagið að blása til Odda hátíðar, bæði vegna þess að hátíðin féll niður á síðasta ári og vegna 30 ára afmælis félagsins, 1. desem- ber sl. Eins og hefðin býður þá hefst hátíðin á messu í Oddakirkju kl. 11, en annars mun þessi hátíð verða rammi utan um styrktar- tónleika fyrir Sæmundarstofu, en Sinfóníuhljómsveit Suðurlands mun koma þar fram í fyrsta skipti á almennum tónleikum ásamt hetjun- um okkar í Karlakór Rangæinga. Þar verður frumflutt nýtt lag við kvæði Matthíasar, „Á Gammabrekku“, en nafn tónskáldsins er leyndarmál fram að flutningi. Örstutt erindi verða flutt og afar gómsætur miðaldamatur verður í boði, svo eitthvað sé nefnt. Dagskráin er enn þá í smíðum svo enn gæti eitthvað óvænt bæst við,“ segir Friðrik og glottir við tönn. Mikill manngerður hellir kom í ljós við uppgröft 2018 - Fornleifauppgröftur í Odda, það er merkilegur uppgröftur. Hvað er að frétta af honum og framhaldi hans? „Það var á öðrum degi í upphafi uppgraftrar 2018 sem mikill mann- gerður hellir kom í ljós. Hann hefur nú verið aldursgreindur til fyrri hluta 10. aldar og er þar með elsta uppistandandi mannvirki á Íslandi sem vitað er um með vissu. Það hefur því væntanlega verið Þorgeir Ásgrímsson, fyrsti ábúandi í Odda, sem hefur látið grafa hellinn út, sjálf- sagt vegna þess hagræðis að grafa í sandsteinshólana bæði skepnuhús og matbúr í stað þess að byggja útihús. Rannsóknir hafa haldið áfram, að vísu aðeins í stuttan tíma á síðasta ári, en hefjast aftur af fullum krafti í vor. Í fyrra var grafið frá stórum forskála sem hefur verið reistur fyrir framan hellinn, svo voru tekin jarðvegssýni til að rannsaka mannvist ofl. Samhliða uppgreftri verðum við áfram með Fornleifaskóla unga fólksins, en það er samstarfsverkefni Oddafélagsins og grunnskólanna í Rangárþingi, þar sem nemendur í 7. bekk koma í Fornleifaskólann í Odda, læra sitt af hverju um forn- leifarannsóknir og uppgröft og fá svo verkefni til að vinna úr, skrifa skýrslu o.s.frv. Þetta er mikilvægt til þess að tengja nýja kynslóð við sögu héraðsins með mjög beinum hætti og um leið kynna þau fyrir þessari spennandi starfsgrein sem fornleifafræðin er.“ - Þú ert rithöfundur. Hefur þú einhvern tíma til að skrifa þegar þú ert orðinn allt í öllu í Odda sem ver- kefnisstjóri? „Ég hef nú svo sem ekki verið á beinu brautinni sem rithöfundur í gegnum tíðina og mjög oft þurft að vera í öðrum verkefnum í lengri eða skemmri tíma. En verkefni Oddafélagsins eru annars eðlis því þau eru mér engu minni hjartans mál en mín eigin verk. Það má orða það svo að ég sé með nokkur verk á hægri suðu, skulum við segja. Sum eru ritverk og önnur kvikmynda- verk. Það er viðbúið að ég verði á kafi í störfum fyrir Oddafélagið megnið af þessu ári, enda tók ég þetta að mér af hugsjón og ástríðu. Svo getur verið að um hægist að hausti í bili. Enda voru ritverk yfir- leitt skrifuð á veturna á miðöldum hér á landi og það er ágætt að halda í þá hefð.“ Gott og vinsamlegt samfélag – Hvernig líkar þér og þinni fjöl- skyldu að búa í Rangárþingi? „Það er ákaflega þægilegt að búa hér að öllu leyti. Samfélagið er gott og vinsamlegt og náttúrufeg- urðin auðvitað engu lík. Það eru nú komin fjórtán ár síðan ég flutti hingað austur og hóf búskap með Kristínu Þórðardóttur, konu minni, í Lynghaga, en svo fluttum við inn á Hvolsvöll með eldri drenginn okkar og hér fæddist sá yngri. Það eru mikil forréttindi að búa hér með ung börn, þar sem stutt er í allt og hvers kyns þjónusta innan seilingar,“ segir Friðrik að endingu. /MHH Hér er Kristborg Þórsdóttir, fornleifafræðingur hjá Fornleifastofnun Íslands, að rannsaka manngerða hellinn sem fannst 2018 í Odda. Friðrik segir að Oddi sé einfaldlega vagga íslenskrar menningar en Sæmund- ur Sigfússon var fyrsti Norðurlandabúinn sem vitað er til að stundaði nám í Frakklandi, og þegar hann kemur heim, um 1078, er hann einn lærðasti maður landsins, ekki aðeins í klassískum menntum, kirkjustjórn og kirkjulögum, heldur ekki síður í þjóðlegum fornum fræðum sem hann hafði numið sem barn og unglingur. Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur og Þór Jakobsson, heiðursfélagi Oddafélagsins og fyrrverandi formaður þess, með gestum á Oddastefnu 2018.

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.