Morgunblaðið - 29.07.2021, Blaðsíða 51
MENNING 51
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 29. JÚLÍ 2021
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
SÝND MEÐ ÍSLENSKU
OG ENSKU TALI
Hljómsveitin Dr. Gunni og söngv-
arinn Eiríkur Hauksson hafa tekið
höndum saman og gefið út nýtt lag
sem ber titilinn „Engin mistök“.
Það verður hluti af tólf laga plötu,
Nei, ókei, sem kemur út í haust.
Auk Gunnars Lárusar Hjálm-
arssonar, Dr. Gunna, skipa Guð-
mundur Birgir Halldórsson, Grímur
Atlason og Kristján Freyr Hall-
dórsson sveitina.
„Þessi hljómsveit, sem heitir því
frumlega nafni Dr. Gunni, hefur
verið til síðan árið 2002. Árið 2003
gáfum við út plötuna Stóri hvellur
og höfum komið saman af og til síð-
an. Svo ákváðum við núna um ára-
mótin að gera það svolítið reglulega,
hittast einu sinni í viku og fórum
fljótlega að stefna að því að gera
tólf laga plötu,“ segir Dr. Gunni um
tilurð plötunnar.
„Svo urðu einhver lög til og þar á
meðal „Engin mistök“. Það er í
svona gallabuxna/þungarokksstíl
svo okkur fannst ekki við hæfi að ég
syngi það og fórum að hugsa hver
annar gæti gert það. Nafn Eiríks
Haukssonar kom fljótlega upp og þá
var haft uppi á honum.“
Söngvarinn býr í Noregi en Dr.
Gunni segir að þegar hann hafi ver-
ið búinn að heyra prufuupptöku af
laginu og verið orðinn spenntur fyr-
ir verkefninu hafi hann sagst vera á
leiðinni til landsins í júlíbyrjun.
Hljómsveitin fór í stúdíóið í byrjun
júní og gerði allt tilbúið fyrir Eirík
sem söng svo lagið þegar hann losn-
aði úr sóttkví.
„Textinn fjallar um ónafn-
greindan einstakling sem er alltaf
að fara út á djammið og alltaf með
þær væntingar að þetta verði alveg
stórkostlegt kvöld. Til að svo megi
verða er hann ákveðinn í að gera
engin mistök. Þetta er bara smá
stuðlag með svona út-á-lífið-
stuðtexta. Það eru flestir gíraðir og
peppaðir þegar djammið er að byrja
en svo breytist það oft þegar á líður
og ég tala nú ekki um daginn eftir,“
segir Dr. Gunni.
Verið er að leggja lokahönd á
plötuna Nei, ókei og gert ráð fyrir
að hún komi út í nóvember. „Vínil-
platan er orðin svo vinsæl svo mað-
ur þarf að fara í biðröð til að fá
þetta pressað. Það útskýrir af
hverju þetta kemur svona seint. En
við setjum eflaust nýtt lag í spilun
þegar nær dregur.“
Nýtt stuðlag Dr.
Gunna og Eiríks
Tónlistarmenn Gunnar Lárus, Dr. Gunni, og Eiríkur í góðum gír.
- Af væntanlegri plötu, Nei, ókei
Þ
að er sem sífellt berist nýjar
fréttir um ofbeldi, misbeit-
ingu og hvers kyns níðings-
verk sem börn og ung-
menni hafa orðið fyrir af hendi
fullorðinna árum og áratugum saman
í hinum ýmsu
stofnunum, jafnt
hér á landi sem
erlendis. Saga
ungra svartra
stráka í einni
slíkri stofnun,
„betrunarskóla“
sem raunverulega
var starfræktur í
111 ár í Flórída,
er efniviður
bandaríska höf-
undarins Colsons Whiteheads í þess-
ari umtöluðu, meistaralega sögðu og
áhrifaríku sögu, Nickel-strákunum.
Fyrir hana fékk höfundurinn hin
virtu Pulitzer-verðlaun í fyrra og var
það í annað sinn sem hann hreppti
verðlaunin.
Sagan hefst þegar Nickel-
skólanum hefur verið lokað og á
skólalóðinni finnast fjöldagrafir með
líkamsleifum fyrrverandi nemenda.
Aðrir fyrrverandi nemendur, sem lif-
að höfðu vistina af og komist misvel
áfram í lífinu með ör á sálinni eftir
dvölina, halda úti fréttasíðu um rann-
sóknir á starfseminni í skólanum.
Einn þeirra sem fylgjast með er fyrr-
verandi Nickel-strákur í New York
sem gengur undir nafninu Elwood
Curtis. Þegar hann sá fréttirnar um
að leyndi grafreiturinn á lóð skólans
hefði fundist vissi hann að hann yrði
að snúa aftur. Og við kynnumst
átakanlegri sögu hans.
Elwood Curtis er greindur og efni-
legur piltur sem vex úr grasi í Flórída
á sjöunda áratug liðinnar aldar. For-
eldrar hans eru horfnir á braut og
hafa látið fátækri ömmu uppeldið eft-
ir. Unglingurinn Elwood heillast af
ræðum dr. Martins Luthers Kings,
tekur þátt í réttindabaráttu svartra
og er fróðleiksfús og vinnusamur;
þrátt fyrir harðneskjulegt umhverfi
þar sem fátækur svartur strákur þarf
að fara varlega opnast honum leið til
mennta. En fyrir óheppni örlaganna,
og grimmd sem virðist innbyggð í
samfélagið, er hann þess í stað send-
ur í Nickel-skólann, stofnun fyrir
ungmenni sem eru talin þurfa á betr-
unarvist að halda. Og sú stofnun
reynist vera sannkallað helvíti, stýrt
af sadískum hrottum.
Í Nickel eignast Elwood vini, þar á
meðal hinn lífsreynda og útsjónar-
sama Turner. Elwood elur með sér
drauma um betra líf utan veggja
stofnunarinnar og þeir Turner vilja
láta reyna á það, þótt hvíta sam-
félagið sjái bara í þeim „enn einn
svartan strák til vandræða“.
Eins og fyrr segir byggir White-
head Nickel-strákana listavel. Les-
andinn samsamar sig hinum saklausa
og hreinlynda Elwood, sem skilur
ekki mannvonskuna og grimmdina
sem hann og skólafélagar hans eru
beittir. Sagan er ekki löng og dregur
lesandann áfram með sívaxandi
þunga. Og undir lokin kemur óvænt
vending, sem er frábærlega vel mót-
uð hjá höfundi.
Þetta er hrífandi og mikilvæg saga
sem hreyfir við lesandanum og kallar
fram tár hjá mörgum. Vonandi gerir
hún lesendur líka bálreiða yfir því
hvernig við mennirnir getum með
andstyggilegum og óverjandi hætti
níðst á og kvalið börn sem okkur er
treyst fyrir.
Enn einn svartur
strákur til vandræða
Sannsöguleg Nickel-strákarnir eftir Colson Whitehead er meistaralega
sögð og áhrifarík saga, um hörmulega meðferð á ungum svörtum mönnum.
Skáldsaga
Nickel-strákarnir bbbbb
Eftir Colson Whitehead.
Árni Óskarsson þýddi
Bjartur, 2021. Kilja, 222 bls.
EINAR FALUR
INGÓLFSSON
BÆKUR