Strandapósturinn - 01.06.1987, Side 56
um æsingi, og því ákaflegar sem hestana ber hraðara yfir. Að
gangandi vegfarendum geltir hann miklu hægar, næstum því
með dumbu hljóði sem hann sækir langt niður í kok. Yfirleitt eru
hundar töluvert spenntir á taugum þegar þeir gelta að bílum, svo
spenntir að geltið nálgast að vera ýlfur.
Nú er til dæmis hundur heima, mesta skýrleikskepna. Hann
geltir alls ekki að vörubílum eða dráttarvélum sem um veginn
fara. Hinsvegar geltir hann eins og vitlaus skepna að benzínknúð-
um fólksbílum og því meir sem þeir eru fínni og viðhafnarmeiri.
Þegar hundurinn heima sér bíl beygja út af þjóðveginum og
keyra heim á hlaðið geltir hann rólega, með dumbu soghljóði og
því líkast að hann sé með virðingarhreim í andardrættinum. Svo
þagnar hann alveg þegar bíllinn stoppar og bíður meðan farþeg-
arnir eru að stíga út. En meðan þeir ganga heim að húsinu rekur
hann upp bofs með nokkru millibili, en rekur svo upp nokkur
snörp bofs um leið og gestirnir kveðja dyra.
Það er mjög auðvelt fyrir mig að vita þegar pósturinn kemur,
hundurinn segir mér mjög greinilega frá því. Hann geltir að
póstbílnum eins og öðrum bílum. Pósturinn setur blöð og bréf í
póstkassa við túngirðinguna rétt hjá hliðinu. En meðan pósturinn
er að losa sig við blöð og bréf stendur hundurinn hjá, horfir á og
rekur upp bofs með nokkru millibili, með raddblæ sem mjög
auðvelt er að þekkja. Þegar pósturinn hefur lokið verki sínu og
ekur af stað tekur seppi til starfa síns af fullum krafti og fylgir
bílnum spottakorn á leið.
Hann Lubbi, hundurinn heima, segir mér fleira en af ferðum
vegfarenda, akandi eða ríðandi. Hann segir mér sitt af hverju um
athafnir heimafólksins og störf. Þegar hann geltir í sérstakri tón-
tegund, sem ég hef lært að þekkja, þegar hann geltir fremur lágt
en ber ört á, eiginlega töluvert óðamála, veit ég að einhver er að
nálgast einhverja dráttarvélina. Þegar hann brýnir röddina enn
meir veit ég að einhver er að stíga upp á vélina. Þegar maðurinn
byrjar að ræsa vélina herðir Lubbi á geltinu um allan helming og
kemst auðheyrilega í mikinn hugaræsing. Svo verður hlé á gelt-
inu. Lubbi bíður spenntur eftir því að næsta atriði leiksins hefjist.
Þegar ekið er af stað tekur Lubbi á öllu því sem hann á til og fylgir
54