Strandapósturinn - 01.06.1987, Page 60
hliðstætt þeirri kórónu sem ég hafði séð á mynd í Lögréttu af Piusi
páfa tíunda.
Kátur skrækti og ég flýtti mér að taka kórónuna af höfði hans.
Svo gaut hann bláa auganu sínu upp á mig líkt og hann vildi segja:
„Hvers vegna gerðirðu þetta? A slíku átti ég enga von af þér“. Og
mér sýndist, eða mér fannst, að tár blikaði í þessu himinbláa auga.
Og mig minnir að ég færi einnig að brynna músum. Svo bað ég
hann fyrirgefningar og klappaði honum og kjassaði sem bezt ég
kunni. Og ég minnist þess ekki að nokkru sinni hafi hlaupið
snurða á vináttu okkar meðan báðir lifðu.
Eg sagði áðan að tár hefði komið fram í bláa augað á Káti. Hann
var nefnilega þannig skapaður, að annað augað í honum var blátt
en hitt mórautt.
Næsti hundur á eftir Káti var Vaskur. Hann var gulur, með
sperrt eyru, töluvert stór og líklega dágóður fjárhundur. Hann
varð ekki gamall, dó úr hundapest sem var töluvert algeng á
þessum árum. Eg man lítið eftir honum. Þó hef ég sennilega leikið
mér við hann, því hann var góður og vinalegur.
Einn eiginleika hafði Vaskur í ríkara mæli en aðrir hundar sem
ég hefí kynnzt. Hann gat sungið. Það var siður meðan húslestrar
voru um hönd hafðir að láta hundana fram áður en byrjað var.
Það þótti ekki hlýða að hundar hlýddu guðsorði. Sama gilti einnig
um guðsþjónustur í kirkjum. Hundar sem laumast höfðu inn í
guðshús með húsbændum sínum voru vægðarlaust teknir frá
þeim, þar sem þeir höfðu hreiðrað um sig við fætur þeirra. Það
var raunar eitt af aðalstörfum meðhjálparans að fjarlægja slíka
óvelkomna kirkjugesti.
Ég velti því oft fyrir mér sem krakki, hvers vegna hundar
mættu ekki hlýða guðsorði eins og kettir. Við þeim var aldrei
amast þótt þeir lægju makindalega uppí einhverju rúminu meðan
húslestur var fluttur.
En víkjum nú aftur að Vaski.
Það henti stöku sinnum að það gleymdist að kalla á hann undan
rúminu og reka fram áður en byrjað var að syngja. Bæri svo við
kom hann ævinlega framundan rúminu um leið og söngurinn
hófst, settist á rassinn frammi fyrir söngfólkinu og hóf upp raust
58