Strandapósturinn - 01.06.1987, Page 116
reistir a.m.k. tveir fiskhjallar með gömlu sniði, fjórir stólpar af
grjóti en rekatré lögð á milli og reft yfir með sprekum og torfi.
Árni hafði og reist hús undir þurrfiskinn. Ég man eftir balli þar
og var þá farið í vefaraleik og sungið: „Vef í vamminn“ o.s.frv.
Ég hef grun um að einn hafi þá nótt krækt sér í konuefni.
Á þessum árum urðu menn að sækja beitusíldina út á
Drangsnes en þar var þá nokkuð gott íshús úr torfi. Stundum var
farið þangað á bát, en oft var síldin með sínum klaka borin í
pokum inn í Bæli og voru menn óglaðir eftir slíkar ferðir. Þá
voru kolaeldavélar í húsunum en ekki notuðu menn þó almennt
kol þar fyrstu árin, heldur tóku upp mó uppi á fjalli og þurrkuðu
eftir að hafa grindað hann á staðnum. Mest af þessu var reitt
heim á hestum en margur mópokinn var þó borinn á bakinu.
Uppi undir Bæjarfellinu var staður sem nefndur var Gunnustaða-
gróf, að mig minnir. Þar hafði verið tekinn surtarbrandur á
stríðsárunum fyrri og lagður þangað vegur. Fóru menn stundum
þangað með haka og skóflu til að fá sér í poka. Eitt sinn fóru
þangað feðgar tveir og tóku rösklega til starfa en líklega meir af
kappi en forsjá, því aurskriða rann á föðurinn og sat hann fastur
upp að mitti og gat sig hvergi hreyft. Var þá sonurinn sendur
heim eftir hjálp en hann fékk svo mikið hláturskast að það var
ekki fyrr en seint og síðarmeir að hann gat beðið um hjálp til að
grafa karl föður sinn upp.
Ekki voru feðgar þessir úr Hamarsbæli en þó góðir Selstrend-
ingar.
Það var oft fjörugt mannlíf í Bælinu, ekki bara þegar verið var
að meta fiskinn og senda á markað. Mesta fjörið var þegar vel
veiddist og dagar og nætur runnu saman í eitt við kríugarg,
mótorskelli og masið í fólkinu bæði úti og inni. Slíkt verður
ógleymanlegt hverjum sem tekur þátt í því.
Enginn safnaði þar auði á þessum árum. Fiskverð var lágt svo
og kaupgjald. Fyrir kg af hausuðum og slægðum þorski fengust
10 aurar en helmingi lægra fyrir ýsu. Kaupið var 55 aurar á
tímann. Þá var stofnað verkalýðsfélag í hreppnum og tók þrjú ár
að fá það gert að samningsaðila.
Áður en ég lýk þessu spjalli mínu um Hamarsbælið langar mig
114
J