Strandapósturinn - 01.06.1987, Page 132
Æ, ósköp var nú heiðin grá og óyndisleg. Þessvegna urðum við
afar fegin, þegar Vaðalfjöllin birtust framundan og fór að halla
suðuraf. Hlýlegur var Þorskafjörðurinn, þó að brattar væru
brekkurnar ofan í hann og gott að hressa sig á kaffinu í Bjarkar-
lundi eftir hristinginn á heiðarvegunum.
Að því búnu skruppum við ofan að Reykhólum, hefðum viljað
vera þar lengur, en dagurinn var dottinn eins og sagt er og við
þurftum að koma okkur fyrir í Bæ. Mörgum þótti Barmahlíð ekki
eins fríð og af er látið, en aftur voru allir sammála um fegurðina í
Bæ. Þetta kvöld skartaði Breiðafjörður öllu sínu, spegilsléttum
sjónum, fagurlitum kvöldhimni og Snæfellsnesinu með perluna
sína, jökulinn yst í aftanroðanum.
Við fengum tvö roskin og ráðsett íbúðarhús sem svefnstað og
svo indælan kvöldmat, eins og Kristrún sagði:
Kvöldmatinn áBæ við borðum
bœði svið og hangiket.
Eg get ekki lýst með orðum
hversu mikið þar ég ét.
Við fengum líka að horfa á skemmtiþátt í sjónvarpinu inni í
íbúðarhúsi fjölskyldunnar á bænum.
Það var glatt og ánægjulegt fólk, sem lagðist til svefns um
kvöldið. Einhver hafði séð músargrey skjótast undir vegg og or-
sakaði það mikið felmtur og kátínu. Sesselja kvað:
Gott er okkar gistihús
gaman var aðfá það
og þó að sæist mús og mús
ég minnist ekki á það.
Við vöknuðum um morguninn eftir endurnærandi svefn og
tókum saman föggur okkar. Og eftir að hafa borðað þarna ágætan
inorgunverð og fengið kaffi á brúsana okkar, kvöddum við fólkið
og ætlum að gista þarna aftur, þegar við förum á Vestflrði.
Geiradalur — Saurbær — Skarðsströnd.
130