Strandapósturinn - 01.06.2010, Page 43
41
yngri og aðrir eldri. Eftir að skólastarf var komið í fastar skorður
gekk lífið sinn vanagang.
Þegar dró nær jólum voru blikur á lofti, það var skollið á
verkfall. Ekki man ég lengur hvort það voru hafnarverkamenn
eða áhafnir strandferðaskipanna sem voru í þessari kaupdeilu. En
nóg var það til þess að samgöngur voru lamaðar. Árið 1952 voru
samgöngur skipa Skipaútgerðar ríkisins nær einu samgöngur
milli meginhluta landsbyggðarinnar og Reykjavíkur. Þetta þýddi
einfaldlega að ef þessi kaupdeila drægist á langinn voru nær
engar líkur til að við félagarnir, Sveinn Sigmundsson og ég,
kæmumst heim fyrir jólin, sem var reyndar æðsta takmark flestra
unglinga. Nú var illt í efni. Við höfðum alltaf reiknað með að nýta
jólafríið til heimferðar. Það var góð aðferð til að skipta vetrinum
að komast heim í foreldrahús til að halda jólin.
Jónas skólastjóri ræddi þetta ástand nokkrum sinnum við
nemendurna í kennslustundum, bæði eðli kaupdeilna og
afleiðingar þeirra. Mig minnir að hann hafi gert ráð fyrir langri
deilu og kom inn á hve illt væri í efni fyrir heimfúsa nemendur ef
ekki rættist úr. Nú var komin upp staða sem við höfðum að vonum
ekki gert ráð fyrir. Við vorum samt með augu og eyru opin fyrir
því ef einhverjir möguleikar opnuðust. Ekki var hægt að segja að
við hefðum mikla möguleika til að verða okkur úti með einhverjar
fréttir. Aðgengi að síma var ekki nema fara á afgreiðslu
Landssímans til að ná heim eða hvað annað sem hétu fréttir. Ekki
var sími á heimilinu þar sem ég hélt til. Á einstöku stöðum voru
almenningssímar sem hægt var að hringja úr. Allt slíkt var svo
framandi að tæpast var leggjandi í það nema mikið lægi við.
Þegar leið að jólafríi barst okkur með einhverjum hætti, ég
man ekki hverjum, sú frétt að til stæði að flugbátur (sjóflugvél)
færi til Djúpuvíkur við Reykjarfjörð einhvern næstu daga og
erindið væri að sækja veikan mann, og mundi þá lenda á
Reykjarfirði. Þessi frétt var okkur kærkomin. Með þessu fannst
okkur opnast möguleiki á að við kæmumst heim. Ég man ekki
lengur á hvern hátt við tryggðum okkur far. Það tókst en þó ekki
fyrr en daginn áður en vélin átti að fara og var þá langt liðið á
daginn. Það varð að hafa hraðar hendur. Jólafrí var ekki byrjað og
gátum við ekki farið nema að höfðu samráði við Jónas Jónsson
skólastjóra. Engar líkur voru á að hægt vær að hitta hann í