Strandapósturinn - 01.06.2010, Side 78
76
fengnir til að pikka upp rullurnar með einum fingri og þóttust
miklir menn, einkum eftir að sá möguleiki uppgötvaðist að hafa
stikkorðið með rauðu! Meðan þessar skriftir fóru fram var raðað
í hlutverkin. Hvernig þau hrossakaup fóru fram var nú ógjarnan
birt opinberlega.
Svo komu æfingarnar. Leikstjóri var óþekktur og leikstjórn
var nokkurn veginn engin. Á seinnastríðsárunum var stundum
talað um að fá þyrfti einhvern til að „krítisera“ á æfingunum, eins
og gert hefði verið í gamla daga. Eitt dæmi man ég um hvernig
hugtakið var útfært. Ungmennafélagið fékk Kristján Jónsson til
þess að krítisera. „Já. Já, alveg sjálfsagt, krakkar mínir,“ sagði
Kristján. Þó vil ég ekki fortaka, að hann hafi sótt um starfið sjálfur
og því verið tekið með þökkum. Nema að Kristján kom, settist
frammi í sal og hóf að krítisera, sem var fólgið í því að skellihlæja
alla æfinguna og segja ekki orð!
Söngur og undirleikur
Góðir kunnáttumenn í organleik og söngstjórn voru til á
Hólmavík a.m.k. jafnsnemma fyrstu tilburðum þar í leikstarfsemi.
Fyrstan skal nefna Tómas Brandsson, seinna Karl G. Magnússon
og loks Finn Magnússon.
Mikið og gott söngfólk hefur frá fyrstu tíð verið á Hólmavík,
þakkað veri öflugri kórastarfsemi þessara manna. Yfirleitt var þó
ekki spilað undir söng á leiksýningum.
Það held ég að hafi verið vegna erfiðrar aðstöðu og þrengsla,
fremur en að t.d. Finnur Magnússon hafi ekki verið um það vel
fær. Hann gat hins vegar hvergi fundið stað fyrir orgelið sitt,
hvorki baksviðs né annars staðar. Píanó var ekki til á staðnum á
þessum árum. Aðeins einu sinni varð ég vitni að undirspili við
leiksýningu í skólanum. Organisti að sunnan, gæti hafa heitið
Kjartan Sigurjónsson, var staddur á Hólmavík og bauð fram
aðstoð sína við undirleik í verki sem þá var að komast á fjalirnar.
Oft var náttúrlega söngur og stundum allmikill í leikritum.
Finnur kenndi leikurunum vandlega þau lög sem þeir kunnu
ekki. Hann átti talsvert af nótum og einnig Karl læknir. Stundum
varð að fá nótur að sunnan. Guðmundur Jóhannsson frá Kleifum
æfði söngvana í Skugga-Sveini 1945.