Strandapósturinn - 01.06.2010, Qupperneq 86
84
Sigurgeir Magnússon skrifar fróðlega grein um sýninguna í
Strandapóstinn, 27. árg., bls. 125–26. Hér birtist leikendaskrá
hans:
Hlutverkaskipan mun ég rifja upp, en þurfti þó í smiðju til
þeirra sem betur mundu.
Skugga-Svein lék Sigurjón Sigurðsson kaupfélagsstjóri Hólmavík,
Ketil skræk lék Guðmundur Magnússon Hólmavík, Sýslumanninn lék
Ingimundur Magnússon frá Ósi. Stúdentana léku Ásgeir Jónsson frá
Tröllatungu og Filippus Gunnlaugsson Ósi. Sigurð í Dal lék Magnús
Magnússon Hólmavík, Grasa-Guddu lék Hjálmar Halldórsson
Hólmavík, Gvend smala lék Elínborg Magnúsdóttir frá Skeljavík, Ástu í
Dal lék Jakobína Thorarensen kaupkona Hólmavík, Harald lék Þorkell
Hjaltason frá Vatnshorni, Ögmund lék Guðmundur Jónsson Hólmavík,
Jón sterka lék Bergsveinn Bergsveinsson Hólmavík. Margréti lék trúlegast
kennslukona, sem var ekki frá Hólmavík.
Félagið réðst í fleiri stórvirki, kannski bæði Frænku Charleys og
Ævintýri á gönguför. Alla þekkingu skortir mig til að fara lengra út
í þá sálma. Félag þetta starfaði af miklum krafti í sveitinni, sem var
rík af hæfileikafólki, og hafði forystuna á ýmsum sviðum í
hreppsfélaginu á þessum tíma. Hólmvíkingar voru þá t.d. í
miklum minnihluta í hreppsnefndinni.
Þegar leið á þriðja áratug 20. aldarinnar og síðar, eftir að fjölga
tók í þorpinu, fóru Hólmvíkingar að láta meira og meira til sín
taka. Verða nú talin í tímaröð þau félög sem á eftir komu og
viðfangsefni þeirra í leiklistinni, eftir því sem vitneskja leyfir:
Kvenfélagið Glæður
Það var stofnað 15. nóv. 1926.
Ungmennafélagið Geislinn í Staðarsveitinni var þá og næstu
4–5 árin við toppinn, en mun hafa hætt allri leikstarfsemi um eða
upp úr 1930. Strax í byrjun tók kvenfélagið forystuna á ýmsum
sviðum. Alltaf hefur verið ljóst að það var öllum öðrum félögum
fremra að dugnaði við leiksýningar. Þetta langaði mig að kanna
nánar og þá voru félagskonur svo vænar að hleypa mér í helstu
bækur sínar, þar á meðal þær elstu. Tilgangurinn var að kanna
hver hlutur þess hefði verið í leikstarfsemi Hólmvíkinga frá byrjun