Strandapósturinn - 01.06.2010, Blaðsíða 89
87
Hólmavík, 1. mars 1937.
Skemmtinefndin.
Þessi eina auglýsing segir heilmikla sögu um leikhúslíf staðarins
á þessum tíma.
Mér er sagt að auglýsingin (einmitt þetta blað) hafi gengið
rétta boðleið um Tungusveitina dagana fyrir sýningu, hafi síðan
varðveist þar einhverja áratugi. Nafn Rósu frá Klúku var mér nefnt
í sambandi við þessa furðufrétt. Ætli það hafi verið hún sem hélt
þessu merkisplaggi til haga og kom því aftur til föðurhúsanna?
Kannski fór hún á sýninguna og gæti varpað einhverju ljósi á þetta
dularfulla leyndarmál æsku minnar kynslóðar?
Hvort dýrt eða ódýrt var að fara í leikhúsið, geta menn metið
eftir því að einmitt þessa dagana gengu nýir kaupsamningar
verkalýðsfélagsins í gildi. Tímakaup kvenna var þá kr. 0,75. Konur
þurftu því að vinna 2 tíma fyrir betra sæti í leikhúsinu. Það þarf
þó að hafa í huga, að á þessum stað (Hólmavík) höfðu konur
enga vinnu á þessum tíma og urðu því að fjármagna leikhúsferðir
á annan hátt, en karlar þurftu aðeins 1½ tíma, því að þeir höfðu
30% hærra kaup! Og stundum fengu þeir vinnu. Dansleikur var
undantekningarlaust haldinn eftir hverja leiksýningu og
kaffiveitingar seldar. Lengst af voru þær bornar fram á
skólasenunni en undir það síðasta þótti það ekki við hæfi og voru
þá hafðar í heimahúsum. Þetta voru fastir liðir og auglýsingin er
því dæmigerð fyrir allar aðrar um þetta efni.
Eftirstríðsumbrot o.fl.
Félagsheimilið svokallaða (bragginn) var að komast í gagnið
og taka við gamla skólahúsinu. Varð þá dálítill fjörkippur í
leikhúsmálunum. Ævintýrið var með fyrstu sýningum í húsinu.
Svo vill til að ég lék sjálfur í stykkinu og fór næsta haust suður til
náms. Þess vegna veit ég ártalið. Að öðru leyti er leikstarfsemi
kvenfélagsins ótímasett í smærri atriðum. Ég hef hins vegar
einhverja tilfinningu fyrir því hvort einstakt stykki var fært upp
fyrir stríð eða eftir 1947: Ævintýri á gönguför, (3 sýningar)
Skrifta-Hans, Kristján Jónsson
Assessor Svale, Friðjón Sigurðsson