Strandapósturinn - 01.06.2010, Page 97
95
var meðal áhorfenda, sá þarna í fyrsta sinn verðandi mannsefni
sitt í gervi kolsvarts púka í atriðinu sem Jón vildi ekki sleppa!
Nú gat Jón Ottósson snúið sér og nefnd sinni að ýmsum
minniháttar tækniatriðum eins og húsnæðishliðinni og slíku. Og
það vafðist ekki lengi fyrir honum að finna brúklegt leikhús.
Kaupfélagið hafði rétt lokið við að breyta Riis-sláturhúsinu í
vinnusal fyrir nýbyggt hraðfrystihús. Þetta var eini salurinn sem til
greina kom sem leikhús. Hann fékkst fúslega léður. Gallinn var
hins vegar sá að einungis grunnflöturinn hentaði stærðarinnar
vegna, hann hefði meira að segja dugað fyrir tvær sýningar
samtímis. En þar var engin sena að sjálfsögðu. Fengnir voru
nokkrir tugir af tómum síldartunnum frá því fyrir stríð, plankar
lagðir ofan á og klætt yfir með borðum. Gömlu skólaleiktjöldin
voru sótt, en þau reyndust 3 fetum of há fyrir þennan sal þar sem
frekar lágt var undir loft. Þá var sagað neðan af grindunum, en
afgangurinn af tjöldunum ekki skorinn af, heldur vafinn upp og
festur aftan á grindurnar. Þetta átti svo að setja í samt lag síðar.
Engin sæti voru í salnum. Stólar og skólabekkir voru fluttir
þangað. Svona var einu af öðru kippt í liðinn. Hann Jón Ottósson
var ekki í miklum vandræðum með það. Eitt var þó óviðráðanlegt.
Upphitun var engin í salnum. Hiti var ekki talinn nauðsynlegur í
frystihúsi! Þetta var á þorranum 1945 og tíð afskaplega köld.
Grimmdarfrost var alla þrjá sýningardagana og var búið að vera
lengi. En það var engu hægt að fresta eða bíða vors og hlýrri tíðar.
Vertíðin var að byrja og kaupfélagið vildi fá sitt frystihús í gang.
Það mun þó ekki hafa verið þvertekið fyrir að salta aflann fyrstu
dagana ef einhverjum dytti í hug að fara að róa áður en sýningum
lyki. Það er í minnum haft að leikhúsgestir frá Broddadalsá og
Broddanesi urðu að hefja förina á því að ganga yfir ísilagðan
Kollafjörð, bílvegur var þá ekki kominn kringum fjörðinn. Engar
kvartanir um kulda heyrðust frá fólki í salnum. Þó var hrollur í
sumum. Dóttir þess sem lék Gvend smala óttaðist mjög að Skugga-
Sveinn dræpi pabba sinn. Hún harkaði af sér, en frændi hennar
einn átti að hafa yfirgefið salinn, hlaupið heim og skriðið upp í
rúm, upp fyrir mömmu sína.
Skugga-Sveinn var eina leikrit Dagrenningar, að ég best veit, og
sömuleiðis voru leiksýningarnar (þrjár) þær einu sem nokkru
sinni fóru fram í þessu húsi. Annað dæmi er þó til um mannfagnað