Strandapósturinn - 01.06.2010, Síða 104
102
nú sjáum við ekkert, stoppum stutt og klöngrumst svo af stað
í sleipu fjörugrjótinu. Karlinn er fótviss, stekkur á steinkollana
og ég geri slíkt hið sama. Við erum báðir vanir í fjörum, hann
á sínum sterku víðförlu fótum og ég á spóaleggjum mínum.
Við höldum áfram, fram hjá Merarbryggju og út með. Þegar
við komum út að Nautagirðingu er farið að birta allnokkuð. Á
þessum tíma byrjar dagsbirtan eins og örlítill bjarmi í suðaustri.
Við sjáum hann læðast í gegnum Skörðin.
Við köstum mæðinni uppi í Kálfskarði, því við ætlum að leggja
í hilluna og götuna skáhalt niður skriðurnar að austanverðu. Það
stendur þannig á sjó að við komumst ekki fyrir Forvaðann. Við
erum hvergi bangnir, Einar veit allt um ferðalög og þekkir allar
aðstæður. Ég treysti honum fullkomlega, enda reynist okkur
niðurgangan í stórgrýtta fjöruna tiltölulega auðveld og áfram
paufumst við inn með sjónum inn að Vogsbotni og þar með er
leiðin greið inn að Drangavíkurá.
Yfir ána verðum við að vaða. Einar gengur upp með henni að
jarðföstum ávölum steini. Þar ætlar hann yfir ána. Það er lítið í
henni, en hún er ekki á heldum ís. Við setjumst niður í snjóinn og
klæðum okkur úr skóm og sokkum. Við erum heitir af göngunni
og þegar ég stend upp finnst mér snjórinn óguðlega kaldur. En
þegar í ána er komið tekur ekki betra við, það er grunnstingull
í henni, krapið í botninum umlykur fæturna og veldur skerandi
sársauka. En það varir ekki lengi, sársaukinn hverfur og maður
staulast yfir ána á dofnum fótum, finnur ekki fyrir steinum sem
stingast á milli tánna á manni. Þegar á bakkann hinum megin er
komið hefur maður enga fætur, bara tilfinningalausa útlimi og
við flýtum okkur við að klæða okkur aftur í þurra sokkana. Fyrst í
stað gerist ekkert, en svo kemur tilfinningin á ný og um fæturna
fer yndisleg vellíðan og svo ofsahiti. Áður en við stöndum upp
fær Einar sér í nefið, dregur langa rönd á handarbakið og hann
skiptir henni vandlega á milli beggja nasa. Hann dustar síðan af
bláu nefinu og dæsir. Svo stendur hann upp og heldur af stað,
því Einar vill ekki láta slá að sér, hann sveipar að sér treflinum
og rennir úlpunni upp í kverk. Loðhúfan er á sínum stað, brett
niður fyrir eyrun.
Í Drangavík standa bæjarhúsin enn að mestu ólöskuð, burstirnar
eru tvær og viðbyggingar til austurs og vesturs. Brunnhúsið þar