Strandapósturinn - 01.06.2010, Page 108
106
miklu meira og alltaf kemur í ljós nýtt og nýtt nes í hvert sinn
er við komum fyrir hvert eitt þeirra. Loksins sjáum við bæinn og
það leggur mikinn reyk upp úr strompinum. Við göngum heim
túnið og erum boðnir í bæinn hjá Jóni og Elísabetu. Hún er
okkur Drangakrökkunum alltaf góð. Ég veit að hún þekkti ömmu
mína sálugu á Seljanesi. Með þeim var víst vinskapur. Mér finnst
Elísabet stór og tala hátt, en mér finnst gott að koma til hennar.
Jón er þrekinn og sterklegur og talar með sérstakri röddu. Í
eldhúshorninu situr heimspekingur, Guðmundur Steindórsson.
Hann rær fram í gráðið og tautar: – Súr, súr, hákal, hákal. –
Honum er sagt að ég sé sonur Kristins á Dröngum. Þá leysist
andlitið á honum upp í breiðu brosi og hann segir: – Ef hann er
á sjó í dag fær hann ekki gott. –
Eftir kaffi og spjall leggjum við í hann út að Eyri. Það er ekki
langur né erfiður vegur. Við vöðum Ósinn og innan stundar
erum við komnir á hlaðið hjá hreppstjóranum. Guðjón afabróðir
minn heilsar okkur á sinn hressilega hátt og kallar mig Jón.
Hann kallar okkur alla bræðurna Jón. Ég leiðrétti hann heldur
feimnislega og hann kallar mig Svein. Einar fer með honum inn
í stofu og þeir ræða einhver póstmál og ég bíð frammi í eldhúsi.
Þegar þeir hafa rætt saman koma þeir fram og Guðjón segir mér
að fara upp að hitta mömmu sína, hana Guðrúnu. Hana hef ég
hitt áður og fer því upp snarbrattan stigann og til hægri þar sem
gamla konan býr. Hún er lágvaxin með fallegt andlit og það er
friður í augunum á henni og þegar ég heilsa henni með kossi
finn ég hvað húðin á andliti hennar er mjúk. Hún dregur fram
rúsínur og kandís og gefur mér. Hún spyr um pabba og mömmu
og búskapinn. Ég svara eftir bestu getu þar sem ég sit á kistli
á móti rúminu hennar. Svo fer ég aftur niður með góðgæti í
vasanum. Hreppstjórinn setur á mig yfirheyrslu í eldhúsinu, spyr
um rekann og búskapinn. Hann er alltaf svo áhugasamur um að
menn bjargi sér. Svo fer hann að gantast. Hann gerir það á sinn
sérstaka hátt. Það titrar á honum nebbinn, en hann hlær ekki.
Nú skiljast leiðir okkar Einars, hann ætlar út Geitahlíð en ég
fer yfir Háls. Krakkarnir á Eyri eru farnir í skólann. Ég missi
einhverja daga. Þegar hreppstjórinn kveður mig kallar hann mig
aftur Jón. Ég leiðrétti hann ekki. Ég kveð Einar með virktum við
túngarðinn og hann heldur af stað. Ég finn fyrir saknaðarkennd