Strandapósturinn - 01.06.2011, Blaðsíða 47
45
hvað framtíðin ber í skauti sér. Þó að allt liti friðsamlega út þá
gæti það breyst, og gott að vera við öllu búinn.
Samdráttur Helga stýrimanns og Helgu á Melum
Þórir bóndi á Melum átti dóttur er Helga hét, var hún „fríð
kona sjónum og skörungur mikill.“ (HÞH, bls. 1.) „Og er þeir
(Austmenn) höfðu verið þar um hríð þá bar oft saman fundi
þeirra stýrimanns og bóndadóttur og reittist á um tal og kossa og
kneikingar með alvöru og blíðu og fylgdi framkvæmd byrgisskap-
ar.“ (HÞH, bls. 2.) Af þessum orðum má ráða að bóndadóttir og
stýrimaður hafi fljótlega orðið ástfangin, sem fór ekki leynt. Koss-
ar þeirra, þétt og innileg faðmlög tala sínu máli, sem þróaðist í
hið nánasta ástarsamband. Þeir sem stjórnuðu skipum til forna
voru kallaðir stýrimenn, ekki skipstjórar. Það hafa varla aðrir orð-
ið stýrimenn en kjarkmiklir menn með áberandi myndugleika.
Ég hygg að Sleitu-Helgi hafi verið þrekvaxinn og myndarlegur
maður og haft persónutöfra sem heillað hafi Helgu og ástarhug-
ur kviknað fljótlega í brjóstum beggja.
Landslag á Melum
Ég ætla að vitna í brot af lýsingu Ingunnar Jónsdóttir á Kornsá
um landslag á Melum í bókinni „Gömul kynni“ (bls. 35). Ingunn
fæddist að Melum 1855 og ólst þar upp. „Fyrir utan túnið á Mel-
um eru víðáttumiklir melar, snarbrattir á allar hliðar, nema þeirri,
er að hálsinum veit. Yfir að sjá eru þeir gróðurlitlir, en þó eru í
þeim dalir og dokkir, grasi og lyngi vaxnar. Þar er Húsadalur og
Stekkjardalur. Þar er Kvíadokka, Arnarstapadokka og Jónsdokka.
Það er djúp dæld ofan í melinn grasi vaxin neðan til, en lyngi að
ofan. Sé maður niðri í henni, sést maður ekki, nema komið sé
alveg fram á barminn.“ Sennilega hefur verið meiri gróður þarna
á 10. öld. En nafnið Melar bendir til að gróðurlitlir melar hafi
verið þar þegar á landnámsöld. Þessar lautir hafa í aldanna rás
vafalaust verið vinsælir stefnumótastaðir elskenda, sérstaklega
Jónsdokk. Ég sé í anda bóndadóttur og stýrimann leiðast hönd í
hönd, oft í Jónsdokk á Melum til að eiga þar í næði ástarfundi.