Strandapósturinn - 01.06.2011, Blaðsíða 54
52
ráðsson sagnaþul, þar sem hann ritar eftirfarandi um samskipti
Eyvindar og Hallvarðs Hallssonar í Skjaldabjarnarvík:
„Eyvindur Jónsson, Fjalla-Eyvindur kallaður, útileguþjófur,
hugði á það eitt sinn að stela peningum Hallvarðar, því orð lék á
að mjög safnaði hann þeim. Eyvindur kom á fund Hallvarðar og
bað viðurtöku. Lét Hallvarður það uppi því góður var hann við-
tekna á slíkum mönnum. Vann Eyvindur vel um hríð með Hall-
varði en aldrei fékk hann að því komizt hvar peningar hans voru.
Tók Eyvindur þá að hyggja á brott. Var sem Hallvarði kæmi það ei
á óvart og leyfði honum þegar á brott að verða. En áður hann færi
gekk hann að sögunarstólpa sínum, kippti honum upp og tók
undan honum peningakistil sinn og bað Eyvind að sjá, kallaði
hann lítilmenni og ei kynni hann að stela, þó útileguþjófur hefði
hann gjörzt, og ei mundi honum auðið á sig að leika.“
Verður nú vikið lítillega að sögu Hallvarðs Hallssonar í Skjalda-
bjarnarvík.
Hallvarðs þáttur Hallssonar
Einn kunnasti bóndi sem búið hafði í Skjaldabjarnarvík áður er
án efa Hallvarður Hallsson 1723–1799. Hallvarður var sonur hins
fjölkunnuga Halls á Horni. Hann var sagður mikið hraustmenni
og stórvaxinn í meira lagi – og skáld gott. Leiði hans er í túninu í
Skjaldarvík.
Er sagt að hann hafi lagt svo fyrir að þar skyldi hann hvíla.
Sögusagnir voru um það, að þrátt fyrir ósk hans í þessu efni hafi
prestur mælt svo fyrir, að lík hans skyldi flutt að Árnesi til greftr-
unar og hafi þá verið gerð tilraun til að flytja hann til greftrunar
að Árneskirkju – en þá gekk á mikið óveður og ófær sjór – en eina
færa leiðin með slíkan flutning er á sjó. Sagt var og að tvær aðrar
tilraunir hafi verið gerðar síðar til að greftra hann í Árneskirkju-
garði, en það fór á sama veg svo hann hvílir enn í túninu í Skjalda-
bjarnarvík.
Hallvarður mun hafa verið karlmenni mikið – um margt
óvenjulegur maður, stór í sniðum og jafnvel „tröllslegur í sjón
eins og blágrýtisdrangur hafi verið lífi gæddur“. Eitt sinn var Hall-
varður sendur til Ólafs amtmanns í Sviðsholti – þótti hann þá
einkennilega búinn – í sauðsvartri belghempu með birkirenglu í
hendi og „slapahatt á höfði og hetta ofan á bundin undir kverk.“