Strandapósturinn - 01.06.2011, Blaðsíða 103
101
inkona og sjö ung börn voru þurrkuð út úr lífi hans, bújörðin
með allri áhöfn afmáð eins og loftsýn og Breiðafjörður, augna-
yndið og matarkistan, ekki framar hluti af lífi hans.
Þegar hér var komið sögu var Sigríður komin inn að Hvammi í
Dölum til móður sinnar, Ragnhildar, fyrrum húsfreyju á Fróðá,
sem var orðin ekkja og gift aftur séra Gísla Guðbrandssyni sem
þar var prestur frá 1584–1620. Þegar sýslumaður frétti að guðs-
maðurinn væri svo forhertur að skjóta skjólshúsi yfir sakakonu,
sendi hann honum orðsendingu þar sem honum var fyrirboðið
með öllu að hafa hana á bænum. Henni var þá komið fyrir á næsta
bæ, Leysingjastöðum, og lét móðir hennar færa henni mat. Það-
an hvarf hún um kvöldtíma og var hennar ekki leitað því auðsætt
þótti að Jón Oddsson hefði komið og haft hana á brott með sér.
Ekki er ólíklegt að Ragnhildur í Hvammi hafi vitað hvað til stóð
og útbúið þau með nesti svo lítið bar á. Varla hefur hún verið
áhyggjulaus um þessar mundir, þar sem báðar konurnar í lífi Jóns
Oddssonar voru dætur hennar. Sigríður, sem aftur var barnshaf-
andi, átti nú fárra kosta völ svo móðirin hefur ekki látið sinn hlut
eftir liggja ef verða mætti henni að liði.
Þau lögðu nú land undir fót og áfangastaðurinn var Fell í
Kollafirði, æskustöðvar Jóns. Seinfarin og lýjandi ganga má það
hafa verið ófrískri konu á sauðskinnsskóm, vestur yfir Svínadal og
Saurbæ, inn með Gilsfirði, fram Brekkudal og loks norður Steina-
dalsheiði. Allra veðra von gat verið á þessari leið, því þetta mun
hafa verið síðla hausts. En norður komust þau og hefði Jón vafa-
laust kosið að sýna Sigríði æskuslóðirnar undir öðrum kringum-
stæðum og leiða hana í veglegri húsakynni en klettaskúta í fjalls-
hlíð. Að vísu veit ég ekki, hversu húsakynni manna á þessum
tímum hafa borið mikið af hellum, en ætla má að Jón hafi vanist
því skársta sem gerðist. Á Felli hafa þau átt vinum að mæta því þar
bjó Guðmundur hálfbróðir Jóns og ef til vill líka Sigríður systir
hans, en ekki var talið ráðlegt að þau settust þar að og bjuggu þau
um sig í litlum helli uppi í hlíðinni. Er hellir þessi í litlu árgili hjá
Svartfossi og er hellismunninn bak við fossinn. Mat hafa þau vafa-
laust fengið heiman frá bænum, en þrátt fyrir það hlýtur vistin að
hafa verið æði nöturleg þar. Þarna munu þau hafa dvalist þar til
snjóa fór að leysa um vorið og götur að greiðast til ferðalaga. Jón
mun þegar er hann fór að heiman hafa verið ákveðinn í að reyna