Strandapósturinn - 01.06.2011, Side 108
106
Ólafur Briem segir, að öllum sögnum beri saman um, að Ey-
vindur hafi farið til Vestfjarða og setzt í bú hjá ungri ekkju, Höllu
Jónsdóttur á Hrafnfjarðareyri í Jökulfjörðum. Eyvindur Jónsson
sé talinn bóndi á Hrafnfjarðareyri árið 1760 í tiptunarhússtollabók
úr Ísafjarðarsýslu 1760–1767. Þau hafi lagzt út árið 1761 og sam-
kvæmt öllum munnmælum fyrst á Hveravöllum, en Skagfirðingar
flæmt þau þaðan og þau tekið sér bólstað á Arnarvatnsheiði.
Í skjallegum heimildum sé þeirra fyrst getið sem útilegumanna,
er Árnesingar fundu hreysi þeirra undir Arnarfellsjökli og hröktu
þau burtu þaðan haustið 1762. Hreysi þeirra er sagt hafa verið
vestan til við Arnarfell, og þess hefur verið leitað undir Arnarfells-
múlum.
Greinarhöfundi þykir staðsetningin í Arnarfellsmúlum íhug-
unarverð, en kemst ekki að neinni niðurstöðu, enda ókunnugur
á þessu svæði. Af þeim 73 sauðarhöfðum, sem fundust með þekkt-
um mörkum við hreysið (tvö voru með óþekktum mörkum), voru
70 af sauðum, sem vænta hefði mátt með vissu á Hrunamanna-
afrétti, hin þrjú úr Biskupstungum og því öll ótengd afréttum
milli Stóru-Laxár og Þjórsár. Þá hefur þurft að reka skjarra sauði
norðan Kerlingarfjalla og austur í Þjórsárver, gegnum Illahraun,
yfir Blautukvísl og Múlakvísl, í þveröfuga átt við það, sem líklegt
væri, að sauðirnir vildu renna. Ágúst Guðmundsson jarðfræðing-
ur, höfundur bókarinnar „Ofan Hreppafjalla“, sem birtist sem
Árbók Ferðafélagins árið 1996, var spurður, hvort Illahraun
mundi ekki hafa torfært með sauðfjárrekstur. Hann taldi, að yfir
það mætti komast með fé, en sagðist ekki muna aðstæður svo vel,
að hann vildi fullyrða neitt um slíkt. Þá er líklegt, að aðstæður
hafi breytzt nokkuð á þeirri hálfu þriðju öld, sem nú er liðin, síð-
an þessir atburðir gerðust.
Lesendum skal bent á að hafa hugfast árið 1762 í tengslum við
það, sem síðar verður getið.
Eyvindur og Halla eiga eftir flóttann að hafa haldið til Vest-
fjarða og farið þar huldu höfði, verið tekin við hreysi sitt á fjöllum
vorið 1763, send Halldóri Jakobssyni sýslumanni í Strandasýslu og
dæmd 30. maí sama ár í ævilanga hegningarhússvist og húðstroku
í fangelsinu. Þau þá sótt til konungs um uppgjöf á hegningu. Vor-
ið 1764 struku Eyvindur og Halla frá Halldóri sýslumanni. Var lýst
eftir þeim á alþingi sumarið 1765.