Bændablaðið - 23.09.2021, Blaðsíða 38
Bændablaðið | Fimmtudagur 23. september 202138
Narfasel er nýtt garðyrkjubýli undir Hafnarfjalli:
Fundu jarðnæði sem var ekki í boði í Sviss
Á bænum Narfaseli, undir
Hafnarfjalli í Borgarfirði, hafa
svissnesku hjónin Laurent og
Lola Balmer sest að og stunda
þar grænmetisræktun úti og inni í
gróðurhúsi. Þau fluttust til Íslands
snemma á síðasta ári og hafa
reist sér íbúðarhúsnæði, geymslu
og lítið kornsíló á landinu – auk
veglegs 450 fermetra gróðurhúss.
Þau hófu ræktun strax á fyrsta ári
á Íslandi, brutu fjórðung úr hektara
lands til metnaðarfullrar útiræktun-
ar en ræktuðu sérstök tómatayrki,
ýmsar tegundir af salati, kúrbít,
kryddjurtir, spírur og fleira undir
gróðurhúsaplasti.
Meira jarðnæði í Sviss ekki í boði
Fyrir áttu þau fimm ára farsæl garð-
yrkjuár að baki í Sviss, en áttu þar
ekki kost á því jarðnæði sem þau
sóttust eftir. Þau fóru því að svip-
ast um eftir hentugum aðstæðum
í öðrum löndum til að setjast að
og komust að þeirri niðurstöðu
að Ísland myndi passa þeim full-
komlega. „Ég er menntaður í hefð-
bundinni búfræði og sjálfmennt-
aður í garðyrkju, ég er einnig með
tæknifræðimenntun, sem hefur
komið að góðum notum hér við
húsbyggingar,“ segir Laurent. „Til
að fjárhagsáætlun okkar gangi upp
þurfum við að gera eins mikið sjálf
og við mögulega getum – og ég hef
til dæmis að langmestu leyti sjálfur
teiknað, hannað og reist þennan
húsakost okkar.
Við vorum með farsælt garð-
yrkjufyrirtæki í Sviss sem við
seldum og svo fengum við hagstætt
lán frá einkaaðila í Sviss,“ segir
Laurent þegar hann er spurður um
hvernig þau hafi fjármagnað þetta
ævintýri á Íslandi.
„Fyrsta árið einbeitum við okkur
að þeim tegundum sem við höfum
náð góðum árangri með í Sviss – og
við erum komin með fimm svín sem
við ætlum að nota til kjötframleiðslu.
Við fengum þau í mars og vorum
fyrst í stað með þau inni í gróðurhús-
inu en hleyptum þeim svo út þegar
veður leyfði en við erum með gott
landrými fyrir slíkan búskap, því
landið er alls um 28 hektarar.“
Áskorun garðyrkjubænda
undir Hafnarfjalli
Laurent játar að búferlaflutningarnir
séu heilmikil áskorun fyrir fjöl-
skylduna og sömuleiðis hafi hann
heyrt miklar sögur um að „veðrið
undir Hafnarfjalli“ geti verið þol-
raun fyrir garðyrkjubændur. „Við
vitum nú að gróðurhúsið okkar
þolir í það minnsta hviður upp á
32 metra á sekúndu, en það er við
því að búast að plastið gefi sig ef
hér koma mjög miklar hviður. Þá
verður að öllum líkindum bara tjón
á plasti, því við smíðina á sjálfri
grindinni á gróðurhúsinu var gert
ráð fyrir að hún þyldi mikinn vind.
Við leggjum upp úr því að vera
ekki með varnarefni í okkar rækt-
un, hvorki skordýra- eða illgres-
iseitur. Það kostar auðvitað meiri
handavinnu en við teljum að það sé
vel þess virði. Við erum með smá
hita hér í gróðurhúsinu, en við vilj-
um til dæmis í tómataræktuninni
að vöxturinn á aldinunum sé ekki
of hraður. Við sækjumst eftir meiri
bragðgæðum en almennt er í boði,
sem við fáum með vali á tilteknum
yrkjum. Við ræktum líka beint í
jarðveginum sem ég tel að skipti
máli varðandi bragðið.“
Laurent segir að þau hafi feng-
ið mjög góðar móttökur á Íslandi,
bæði frá nágrönnunum – sem
hafa lagt hönd á plóginn – og svo
streyma viðskiptavinirnir til þeirra
um hverja helgi, en þau reka litla
sveitaverslun við íbúðarhúsið
sitt. „Við erum mjög ánægð með
viðtökurnar sem vörurnar okkar
hafa fengið. Við sendum líka til
sveitunga okkar einu sinni í viku;
í Borgarnes á Hvanneyri og á
Akranes.“
Byrjuðu á spíruræktun
Eitt af fyrstu verkunum hér var að
byrja ræktun á skjólbeltum. Við
settum niður um 4.500 trjáplöntur á
síðasta ári. Við hófum svo í febrúar
ræktun á spírum – til dæmis ertu-
og radísuspírur – og svo bættust
tegundir við jafnt og þétt fram á
sumar. Það eru veitingastaðir hér
í nágrenni okkar sem kaupa mest
af spírunum,“ segir Laurent sem
vonast til að geta ræktað innandyra
eitthvað fram á vetur. „Svo verðum
við auðvitað með talsvert grænmeti
úr útiræktuninni í geymslum sem
við seljum yfir allt árið, eins og
hvítkál, rauðkál, gulrætur og kar-
töflur,“ bætir hann við.
„Helsta verkefnið fyrir næsta
ræktunarár er að tvöfalda útisvæð-
ið og við munum leggja sérstaka
áherslu á framboð grænmetis sem
er árstíðabundið.
Þá er líka stefnan að vinna úr
uppskerunni okkar og framleiða
vörur eins og súrkál og fleira í þeim
dúr í litlu framleiðslueldhúsi sem
við erum að koma okkur upp,“ segir
Laurent að lokum um verkefnin
næstu vikur og mánuði. /smh
LÍF&STARF
Útiræktunin í Narfaseli er stunduð á fjórðungi úr hektara lands, en stefnan er að tvöfalda það fyrir næsta ár. Hafnarfjall í baksýn. Myndir / smh
Frá sveitaversluninni í Narfaseli.
Mynd / Narfasel
Laurent og Lola Balmer eru svissneskir garðyrkjubændur sem settust að undir Hafnarfjalli á síðasta ári. Hector,
yngsti sonur þeirra, er hér með þeim á mynd.