Bændablaðið - 23.09.2021, Side 63
Bændablaðið | Fimmtudagur 23. september 2021 63
LESENDARÝNI
Bændur skipta sköpum fyrir framtíð okkar sem þjóðar
„Bóndi er bústólpi“ heyrði ég
sagt sem barn og það leikur
enginn vafi á sannleiksgildi
þessara orða því að íslenskur
landbúnaður er ein af megin-
stoðum samfélagsins.
Á síðasta ári kom upp veira í
heiminum sem setti hann allt að því
á hliðina og við erum ekki enn búin
að bíta úr nálinni með afleiðingar
kórónuveirunnar. Einn dag breytt-
ist allt, öllum að óvörum. Þannig
er það með áföll og slys, þau gera
almennt ekki boð á undan sér.
Ef eitthvað þessu líkt gerðist í
matvælaframleiðslu heimsins, gæti
það skipt sköpum fyrir afkomu
okkar sem þjóðar að við værum
sjálfbær í matvælaframleiðslu
og gætum séð okkur öllum fyrir
nægum mat.
Við þurfum að vona það besta
en vera viðbúin því versta og þess
vegna getum við ekki tjaldað til
einnar nætur í þessum efnum. Við
verðum að horfa til framtíðar og
vera viðbúin áföllum.
Hagsmunir neytenda
og bænda fara saman
Þó bændur séu sjálfstæðir atvinnu-
rekendur, má segja að þeir séu í
vinnu hjá okkur öllum, ríkinu, við
að framleiða fæðu fyrir þjóðina. Að
sönnu er hægt að kaupa margt frá
útlöndum, en viljum við sem þjóð
vera upp á það komin? Eðli málsins
samkvæmt geta bændur á Íslandi
ekki keppt við stór verksmiðjubú
hjá milljónaþjóðum og þar verðum
við sem samfélagið sem nýtur góðs
af, að koma inn og verja afkomu
þeirra.
Flokkur fólksins styður bændur
en vill á sama tíma að búvörukerf-
ið verði endurskoðað frá grunni
þannig að afurðaverð skili sér til
þeirra sjálfra mun betur en nú er.
Það er vinna sem bændur þurfa að
koma að í samvinnu við ríkið.
Það hlýtur að vera allra hagur að
framleiðsluverð með sanngjarnri
álagningu bænda skili sér til neyt-
enda, án þess að milliliðir maki
krókinn um of. Fækkun milliliða
er augljós leið til að lækka verð til
neytenda.
Við eigum að stefna að útflutn-
ingi lífrænna og umhverfisvænna
ávaxta og grænmetis og markaðs-
setja undir merkjum hreinleika. Til
þess að svo geti orðið þarf orku-
verð til bænda að lækka verulega.
Orkuverð til bænda ætti aldrei vera
hærra en orkuverð til stóriðjunnar.
Bændur vinna fyrir okkur öll
Við hjá Flokki fólksins styðjum
fjölbreytt framboð á landbúnað-
arvörum til hagsbóta fyrir bændur
og neytendur. Sóknarfæri í land-
búnaði eru mörg og við styðjum
við nýsköpun framsækinna og hug-
myndaríkra bænda. Á hinn bóginn
er það staðreynd að við búum í
fámennu og harðbýlu landi þannig
að landbúnaður mun alltaf þarfn-
ast stuðnings, eins og er raunin í
flestum löndum í kringum okkur.
Við eigum að líta á styrki til
bænda á sama hátt og við lítum
á laun annarra stétta sem hlúa að
framtíðinni, eins og t.d. kennara,
hjúkrunarfræðinga og listamanna.
Bændur eru lífæð samfélagsins,
þeir sjá okkur fyrir fæðu og í fram-
tíðinni getur það skipt sköpum fyrir
afkomu okkar sem þjóðar. Sýnum
þeim og störfum þeirra virðingu
og stuðning.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
formaður Hagsmunasamtaka
heimilanna og oddviti Flokks
fólksins í Suðurkjördæmi
Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Miðflokkurinn og landbúnaðurinn
Fyrir u.þ.b. þremur mánuðum
tók ég ákvörðun um að bjóða
krafta mína til setu á Alþingi.
Ég hef lengi brunnið fyrir mál-
efnum landbúnaðarins og starfað
fyrir bændur allan minn starfs-
feril. Á síðasta ári réðst ég til
starfa hjá Mjólkursamsölunni
og tókst á hendur ásamt fleirum
að rannsaka eftirlit með innflutn-
ingi á svokölluðum jurtaostum.
Leikurinn barst fljótt víðar og í
stuttu máli hefur komið í ljós að
ekki bara tollaeftirliti var veru-
lega áfátt.
Svo annað dæmi sé nefnt þá
er nú orðið ljóst að bændur hér á
landi þurfa að lúta mun strangari
samkeppnisreglum en bændur á
meginlandi Evrópu. Þessi aðstöðu-
munur veldur íslenskum bændum
miklum búsifjum og er ljóst að
stjórnarflokkarnir hafa hér brugðist
elsta atvinnuvegi landsins.
Ég hef síðan átt samtöl við
marga þingmenn auk fleiri í þjóð-
félaginu. Þar á meðal bauð ég
nokkrum þingmönnum að koma
á minn fund og fá yfirferð um
brotakennt eftirlit með innflutn-
ingi á jurtaostum í von um að þeir
myndu ganga til liðs við bændur
og okkur sem vinnum fyrir þá. Sá
stjórnmálaflokkur sem gaf sig fyrst
fram, óskaði eftir sérstakri umræðu
um málið og lagði fram skýrslu-
beiðni til Ríkisendurskoðunar var
Miðflokkurinn. Sami flokkur lagði
fram ítarlega þingsályktun um land-
búnað og reyndi að fá Alþingi til að
samþykkja að ekki yrðu boðnir út
tollkvótar fyrir kjöt á yfirstandandi
ári. Þess í stað hafa tollkvótar fyrir
búvörur verið auknir með nýjum
samningi við Bretland. Það er í
raun ótrúlegt að hlýða nú á þá sem
gerðu allt til að kæfa málflutning
Miðflokksins í vetur, segjast nú ætla
að segja þessum samningum upp
eða endurskoða þá.
Þegar leið á veturinn kom traust-
ur bændahöfðingi af Suðurlandi
að máli við mig og hreyfði þeirri
hugmynd að ég færi í framboð
fyrir Miðflokkinn í stærsta land-
búnaðarhéraði landsins sem ég var
þá nýflutt í. Mér þótti hugmyndin
þá fremur „brött“ fyrir mig þar
sem ég á ekki ættir að rekja í
kjördæmið. Á saman tíma hóf ég
afskipti af öðru máli þar sem aug-
ljóst „stjórnsýsluslys“ hafði orðið
við að skimanir fyrir tilteknum
krabbameinum hjá konum fluttust
frá Krabbameinsfélagi Íslands til
opinberra stofnana. Í báðum þessum
málaflokkum reyndi fyrst og fremst
á að halda sig við málefnin og knýja
á um að stjórnvöld fylgdu sínum
eigin leikreglum eins og stjórn-
sýslulögum og upplýsingalögum.
Eftir nokkra umhugsun fann
ég að brennandi löngun til að láta
meira til mín taka náði yfirhöndinni.
Niðurstaðan varð svo að sækjast
eftir 2. sæti á lista Miðflokksins í
Suðurkjördæmi sem síðar varð svo
raunin.
Ég vil nota tækifærið og þakka
öllum sem ég hef hitt og hafa tekið
á móti mér ásamt öðrum frambjóð-
endum fyrir viðtökurnar undanfarið.
Þetta ferðalag hefur verið einkar
lærdómsríkt og ánægjulegt. Ég hef
leitast við að hafa málefnin í fyrir-
rúmi og fylgja því eftir að farið væri
að settum leikreglum, milliríkja-
samningar virtir og rétt staðið að
upplýsingagjöf til almennings. Ég
óska því nú eftir stuðningi kjósenda
við mig til að fylgja þessum málum
og fleirum, sem varða landbúnað og
hag almennings, í stærsta ræðupúlti
landsins.
Erna Bjarnadóttir,
skipar 2. sæti á lista Miðflokksins
í Suðurkjördæmi
Erna Bjarnadóttir.
Jöfnum búsetuskilyrði og réttum hlut sjávarbyggða
Jöfn búsetuskilyrði í landinu er
grundvallarréttur allra lands-
manna. Val á búsetu á lands-
byggðinni á ekki að vera val um
skerta þjónustu, skert búsetuskil-
yrði og lífsgæði.
Jöfn búsetuskilyrði
í takt við nútímann
Fjölbreytt atvinnulíf er styrkasta
stoð allrar byggðar. Það ásamt
nauðsynlegum innviðum á borð
við nútímasamgöngur og öflugt
fjarskiptasamband, ásamt góðri heil-
brigðisþjónustu og menntun, sem
stenst samanburð við SV-hornið, er
réttmæt krafa íbúa landsbyggðar-
innar.
Fiskeldi hefur hjálpað byggð
við sjávarsíðuna, eldið verður
hér til frambúðar og er það vel.
Verðmætasköpun er mikil í grein-
inni, svo að nemur milljörðum í
útflutningsverðmæti. Ekki er gott
að hafa öll eggin í einni körfu og
mikilvægt að máttarstólpar lítilla
samfélaga á landsbyggðinni séu
margir og atvinnufrelsi sem mest.
Öflugar strandveiðar með frjáls-
um handfæraveiðum eru ein slík
stoð og eiga sér langa sögu líkt og
hefðbundinn landbúnaður. Byggð í
blóma er grundvöllur öflugrar ferða-
þjónustu.
Veiðiréttur sjávarbyggðanna
Í hafinu undan ströndum Íslands eru
ein gjöfulustu fiskimið í heimi. Sjálf
gullkista Íslendinga. Þessa auðlind
hafa forfeður okkar nýtt frá því land
byggðist. Mikilvægt er að svo verði
án óþarfa takmarkana kvótakerf-
isins á atvinnufrelsi. Kvótakerfið
var sett til verndar fiskistofnum og
handfæraveiðar á krók ógna ekki
fiskistofnum.
Íbúar sjávarbyggðanna eiga
nýtingarrétt til fiskimiðanna undan
ströndum byggðanna, eins og t.d. á
Vestfjörðum. Þar hefur byggð frá
landnámi byggst á fiskveiðum og
landbúnaði, aðallega sauðfjárrækt.
Þannig er það í dag og mun verða
í framtíðinni. Takmarkanir stjórn-
valda á veiðum undan ströndum
sjávarbyggðanna eru skerðing á
búseturétti íbúa þeirra. Þetta er saga
íbúa um allt norðvestanvert landið
og um allt land.
Árangur kvótakerfisins er enginn
– aðgerð gegn sjávarbyggðum
Sagt er að leiðin til Heljar sé vörðuð
góðum áformum. Þannig var það
fyrir sjávarbyggðirnar með kvóta-
kerfinu sem komið var á til bráða-
birgða árið 1984. Aflamark í þorski
var þá lækkað í 220.000 tonn til
að byggja upp þorskstofninn, sem
eru sömu veiðiheimildir og í dag.
Árangurinn er enginn!
Örfáir útgerðarmenn náðu með
tímanum til sín æ meira aflamarki og
skeyttu litlu um búsetu og afkomu-
öryggi fólksins í sjávarþorpunum.
Sér í lagi á þetta við um Vestfirði
sem hafa orðið hart úti vegna kvóta-
kerfisins, þrátt fyrir að auðugustu
fiskimið heims liggi þar fyrir utan.
Þegar Vestfirðir voru sérstakt
kjördæmi komu héðan stjórn-
málamenn sem stóðu í ístaðinu,
en eftir að Vestfirðir urðu hluti af
stærra kjördæmi virðist hafa orðið
breyting á. Heiðarleg undantekning
á þessu var Frjálslyndi flokkurinn
en ég var í framboði fyrir flokk-
inn í alþingiskosningunum árið
2003. Síðan þá, eða 18 árum síðar,
hefur ekkert breyst. Kvótakerfið er
óbreytt og sjávarbyggðunum hefur
enn hnignað og íbúum fækkað.
Slíkt hefur orðið hlutskipti lands-
byggðarinnar.
Til hvers var barist?
Krafa sjávarbyggðanna um aukið
aðgengi þeirra að fiskimiðunum er
sterk, sögulega sterk. Frá verum til
vélbáta, vertíðarbátum til togara.
Tímaritið Ægir tók viðtal árið
2002 við stríðshetju okkar úr síðustu
tveimur þorskastríðum, Guðmund
Kjærnested, undir fyrirsögninni „Til
hvers var barist?“.
Guðmundi rann spillingin til rifja
og sagði m.a.: „Ég segi fyrir mig, að
ég hefði ekki staðið í þessari bar-
áttu öll þessi ár ef ég hefði getað
ímyndað mér að staðan yrði svona
nokkrum árum síðar“ og vísaði til
þess að hann væri síður en svo sáttur
við núgildandi fiskveiðistjórnunar-
kerfi. Guðmundur benti á að með
samþjöppun aflaheimilda hefðu
minni sjávarbyggðir orðið meira
og minna kvótalaus.
Þorskastríðin voru háð með fram-
tíðarhagsmuni íslensku þjóðarinnar
í huga. Í mörg hundruð ár voru úti
fyrir fjörðum erlendar skútur og síðar
mörg hundruð erlendra togara, sem
veiddu margfalt á við okkur. Fyrr á
öldum voru Íslendingar fátæk þjóð en
íslenskir sjómenn, vermenn Íslands,
sóttu hart á misstórum bátum til að
færa björg í bú og hættu ósjaldan lífi
sínu. Þetta voru forfeður okkar og ég
ber verðskuldaða virðingu fyrir þeim.
Við ættum öll að gera það.
Mikilvægt er að réttur íbúa sjáv-
arbyggðanna til að nýta sjávarauð-
lindina sé endurreistur og varinn.
Það heldur landinu öllu í byggð og
er þjóðhagslega hagkvæmt.
Eflum strandveiðar með
frjálsum handfæraveiðum
Flokkur fólksins vill láta þjóðina
og íbúa sjávarbyggðanna njóta
auðlinda sinna! Við viljum nýja
nýtingarstefnu fiskimiðanna þar
sem auðlindir okkar eru sameign
þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra
útvalinna.
Við munum beita okkur fyrir
því að íbúar sjávarbyggða njóti
aukins réttar til að nýta sjávarauð-
lindina með jákvæðum áhrifum á
sjávarplássin víðs vegar um land.
Við ætlum að stórefla strandveiðar
og gera handfæraveiðar frjálsar.
Veiðar á krók ógna ekki fiskistofn-
um við Ísland og á því að gefa
frjálsar. Kvótakerfið var sett á til
verndar fiskistofnun og á einung-
is að ná til þeirra veiða sem geta
stofnað fiskistofnum í hættu svo
gætt sé meðalhófs.
Mikilvægt er að íslenskar
fjölskyldur geti lifað af fiskveið-
um. Öflugri smábátaútgerð getur
hleypt nýju lífi í sjávarbyggðirnar
og styrkt stoðir atvinnulífs í þeim
og orðið forsenda fjölbreyttara
atvinnulífs.
Flokkur fólksins krefst þess að
þjóðin fái fullt verð fyrir sameigin-
legan aðgang að auðlindum hennar
til hagsbóta fyrir land og þjóð.
Flokkur fólksins styður lög-
festingu ákvæðis um þjóðareign
á auðlindum í stjórnarskrá, m.a.
til að tryggja að sjávarauðlindin
sé sameign þjóðarinnar en ekki í
einkaeign fárra útvalinna.
Eyjólfur Ármannsson
Höfundur skipar 1. sæti
á F-lista Flokks fólksins
í NV-kjördæmi.
Eyjólfur Ármannsson.