Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 9

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 9
önn. Hann hafði furðulegt þrek, bæði til sálar og líkama, komst af með mjög lítinn svefn langtímum saman, hundsaði flestar heilbrigðisreglur, og komst á tíræðisaldur. Sú eina vanheilsa, sem hann hafði af að segja, voru höfuðverkjaköst eða migrene fram eftir aldri, sem sennilega hafa stafað af ofþreytu og reykingum, sem hann gætti aldrei hófs með. Hann var glöggt vitni þess, hvernig vilji manns, lífsviðhorf og geðsmunir geta verið öflugt tæki til viðhalds líkamlegri heilsu. f bók sinni The Varieties of Religious Experience ræðir læknirinn og heimspekingurinn William James um mismuninn á þeim sem eitt-sinn-fæddu og tvisvar-fæddu. Þeir fyrrnefndu hafa öðlast í vöggugjöf sálarlega hestaheilsu og líf þeirra er eins og einnar hæðar hús á jafnsléttu, en hinna eins og tvílyft hús með ýsum leyniklefum. í brjósti þeirra þerjast sálir tvær, eins og Goethe lætur Faust segja, en trúin verður stundum það afl, sem læknar andstæðurnar í sálarlífi þeirra og veitir því samræmi og jafnvægi. Séra Friðrik var í hópi þeirra tvisvar-fæddu, en varðveitti fjölbreytni eðlis síns, hugkvæmni, ævintýraþrá og nýjungagirni, sem gerði honum fært að ganga að hverju nýju viðfangsefni með áhuga æskumanns og steypa sér út í starf á nýjum vettvangi, hvort sem var hér heima, í Danmörku eða Ameríku. Honum veittist því létt að aðhæfa sig nýju umhverfi og kom það einnig fram í samskiptum við aðra menn, einkum og sér í lagi börn og unglinga. Hann átti í ríkum mæli þann hæfileika, sem kallaður er á fræðimáli empathy og er m.a. nauðsynlegur skáldsagnahöfundum og leikurum, en það er að setja sig í annarra spor - lifa sig inn í sálarlíf þeirra - og þar með skilja það, jafnvel þótt manni sé það ekki að skapi. Sá hæfileiki jók á mannþekkingu hans, víðsýni og umburðarlyndi. - Við starf hans í KFUM í Kaupmannahöfn á háskólaárum hans var honum, útlendingnum, fengið það verkefni að stjórna deild fyrir vandræðadrengina úr öreigahverfum borgarinnar, og hann kunni jafngóð tök á þeim og latínuskólapiltunum í Álaborg, en um aldamótin síðustu var miklu meiri munur á öreigadreng úr „slum“-hverfi og latínuskólapilti úr embættismannafjölskyldu heldur en nú. MAÐURÆSKUNNAR Æskan á sér að jafnaði ævintýraheima og draumalönd, en flestir missum við af þeim landsýn, þegar fullorðinsárin færast yfir. Friðrik Friðriksson var að eðlisfari gæddur skáldlegu ímyndunarafli, sem óx og þroskaðist þegar hann sem barn sat einn yfir fé eða vakti yfir velli í skini norðlenzkra nótta, í samveru við gróandi náttúru og hetjusögur fornaldar. Hann unni fegurð náttúrunnar fram á elliár og þegar hann dvaldi hjá mér á sumrum, var ég vanur að taka hann með mér í læknisferðir út í sveit, einkum ef leiðin lá á æskuslóðir hans í héraði mínu.1 Þessi ást hans til náttúrunnar birtist m.a. í því, að hann þýddi Bók náttúrunnar eftir Topelíus, indæla bók fyrir unglinga, sem náði miklum vinsældum. En varanlegastan árangur bar þessi hneigð hans í stofnun sumarbúða í Kaldárseli og Vatnaskógi, og með því gerðist hann brautryðjandi þeirrar hollu hreyfingar hér á landi, svo að ekki sé sagt Evrópu. Séra Friðrik varð aldrei landflótta úr ævintýraheimi æskunnar og gat því verið henni bæði fylgdarmaður og sjálfsagður leiðsögumaður um þau undralönd. ímyndunarafl hans var svo frjótt, að hann gat samið spennandi skáldsögur upp úr sér jafnóðum og hann flutti þær, en drengirnir í KFUM biðu óþolinmóðir eftir framhaldi þeirra á næsta fundi. Það getur verið erfitt að halda eftirtekt og áhuga stórs drengjahóps vakandi, en honum brást aldrei sú bogalist. Jafnvel óknyttastrákar urðu sem vax í höndum hans, og þótt hann væri að eðlisfari bæði tilfinninganæmur og geðríkur, þá hafði hann slíka stjórn á skapi

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.