Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 11
hennar. Það varð einnig til að auka víðsýni
hans og skilning, enda átti dultrú hennar
eða mystik miklu betur við skáldlegt skap
hans, sem sjálfur hafði orðið ýmissar
dulrænnar reynslu aðnjótandi, en hið þurra
kenningarkerfi mótmælendakirknanna,
eins og það var þá.
í HEIMI EFNISHYGGJU OG
SKYNSEMI
Dómur um dauðann hvern verður alltaf
að miðast við samtíð hans, ef sá dómur
á að verða sanngjarn, einkum það
menningarlega umhverfi, sem hann hefur
lifað í. Þegar séra Friðrik hóf starf sitt um
aldamótin, hafði kirkjan víðast hvar verið í
öldudal, bæði að andríki og áhrifum, a.m.k.
meðal menntamanna. Svo hafði verið í
um það bil hálfa aðra öld, eða frá dögum
upplýsingarstefnunnar, sem að vísu hafði
boðað aukna mannúð og mannréttindi, en
trúði á mátt skynseminnar einhliða til að
leysa flestar eða allar ráðgátur lífsins. Hún
vann líka að aukinni fræðslu, sem hún taldi
einhlíta til að gera mennina vitra og réttláta,
en þjóðfélagið farsælt og fullkomið. Sú trú
hefur að vísu verið að mestu ráðandi í öllu
skólakerfi fram á þennan dag, þótt sumir
séu nú farnir að efast um gildi hennar.
Skynsemistrú upplýsingarstefnunnar
var yfirleitt sjálfbirgingslega grunnfær í
vísindalegum efnum og víða fjandsamleg
í garð kirkjunnar, en þó framan af ekki
frábitin guðstrú í einhverri mynd. Um
miðja öldina2 var hin dialektiska heimspeki
Hegels mjög ráðandi og varð að ýmsu
leyti undirstaða að kenningakerfi Karls
Marx, sem hafnaði allri guðstrú sem
hégilju. Hegel hafði haft megna fyrirlitningu
á náttúruvísindunum, en þau ruddu sér
mjög til rúms er leið á öldina, einkum eftir
að Darwin birti framþróunarkenningu sína
árið 1859. Með henni voru færð rök fyrir
því, að þróun lífsins hefði tekið óralangan
tíma, en jörðin með öllu, sem á henni er,
ekki verið sköpuð á sex sólarhringum,
eins og stendur í 1. Mósebóks. Með því
hófst til vegs og virðingar sú efnishyggja,
sem taldi engan Guð vera til, lífið orðið til af
sjálfu sér og að um ekkert framhaldslíf væri
að ræða eftir dauðann. Þessi stefna var
orðin mjög ráðandi meðal menntamanna
í Kaupmannahöfn á háskólaárum séra
Friðriks og farin að berast hingað til lands
undir nafninu Brandesarstefna, svo að
það komst jafnvel í tízku meðal greindra
alþýðumanna, sem eitthvað kunnu í
dönsku, að níða kirkjuna og telja presta
sníkjudýr á líkama þjóðfélagsins. Verulega
útbreidd varð þó efnishyggjan ekki
meðal almennings í nágrannalöndunum
fyrr en prófessor Ernst Háckel gaf árið
1897 út bók sína Die Weltrátsel eða
Heimsgátan, sem var útskýring á tilverunni
frá líffræðilegu sjónarmiði. Háckel var að
vísu lélegur vísindamaður, og dómur síðari
tíma um bók hans er sá, að hún hafi verið
einskis nýt frá vísindalegu sjónarmiði, en
höfundurinn var mjög snjall áróðursmaður
og fjandskapur í garð kirkjunnar gekk eins
og rauður þráður í gegnum bók hans, sem
seldist í hundruðum þúsunda eintaka og
fór sigurför víða um heim.
FRJÁLSLYND GUÐFRÆÐI VEX
FRAM
Á námsárum séra Friðriks höfðu kirkjunnar
menn snúizt á tvennan hátt við þessari
tangasókn heimspeki og vísinda. Til að
byrja með hlóð meiri hluti þeirra múr um
sig á þeim grunni, að hver bókstafur
Biblíunnar væri innblásinn af Guði og bæði
heimsmynd Gamla testamentisins og
sagnfræði hennar væri í hverju einstöku
atriði jafnóvéfengjanlegur sannleikur sem
trúarlærdómur hennar. Fylgjendur þessarar
stefnu, sem kölluð er fundamentalismus,
en á íslensku vanalega kennd við
bókstafstrú eða rétttrúnað, fyrirfinnst nú
á tímum varla nema í loftvarnarbyrgjum
einstakra sértrúarflokka og vestur við
Mississippi. Þótt séra Friðrik tryði á
innblástur Biblíunnar, samrýmdist svo
andlaus bókstafsskilningur ekki skáldeðli
hans.
Það sýnir best fáfræði sumra manna í
trúarefnum, sem kenna má lélegri fræðslu í
skólum eða undirfermingu, að enn heimska
þeir sig á því að hampa hinum skilyrðislausa
fundamentalisma sem kenningu kirkjunnar
nú á tímum og sjálfsögðum grundvelli fyrir
kristinni trú. Menn með stúdentshúfu að
hjálmi sjást jafnvel vaða fram á vígvöllinn,
veifandi hinu fræga rifi úr Adam sem
vopni í trúmáladeilum. Við slíka andhverfa
bókstafstrúarmenn ervarlaeyðandi orðum.
Ýmsir guðfræðingar sáu, að
endurskoðun á játningarritum, sögu og
kenningum kirkjunnar var orðin næsta
tímabær og því hófst í Þýzkalandi hin
svonefnda frjálslynda guðfræði. Það að
kenna sig við frjálslyndi segir að vísu lítið um
víðsýni eða skilning á sjónarmiðum annarra
og hefur jafnvel á síðari tímum fengið á
sig nokkurt óorð sem falskt vörumerki
og svikagylling á lélegri málmblöndu.
Fornleifafræði og þjóðhattafræði voru
næsta skammt á veg komnar fyrir
aldamótin og því varð hin „hærri krítik"
frjálslyndu guðfræðinganna fyrst og fremst
bókmenntalegs eðlis, þar sem lærðir
prófessorar unnu það upp að þýzkum hætti
með lúsiðni, sem á skorti um andríki, og
leituðu alls konar innskota og viðauka við
játningarritin eftir stíl þeirra og orðalagi, en
oft var þar um persónulegt mat eða smekk
að ræða, en ekki hlutlægan mælikvarða,
og niðurstöðurnar því jafnmargar og
ritskýrendurnir, því að svo margt er sinnið
sem skinnið. Slíkar ritskýringar komust þá
í tízku og fengu íslenskar fornbókmenntir
líka að kenna á því um tíma. Þessi aðferð
varð þó upphaf að mjög merkilegum og
mikilvægum biblíurannsóknum, erfram liðu
stundir. Meðal þeirra róttækustu þessara
aldamótaguðfræðinga var Adolf von
Harnack, hálærður kirkjusögufræðingur
og snjall rithöfundur, sem vildi strika út
yfirnáttúrulegar frásagnir guðspjallanna og
taldi flestar kennisetningar kirkjunnar hafa
aðeins skyggt á boðskap Jesú frá Nasaret
um Guð sem föður og á þann háleita
siðaboðskap, sem hann flutti.
Enn róttækari og öllu þekktari hér á landi
varð enski presturinn Reginald J. Campbell
fyrir þær kenningar, sem hann kallaði „Nýja
guðfræði". Hann hélt því fram, að Guð
væri allt í öllu, manninum, alheiminum og
hverju atómi og er það vanalega kallað
algyðistrú eða pantheismus. Hann taldi
bjarmi | apríl 2018 | 11