Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 23

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 23
m.a. í kirkjugriðum, að innan kirkjunnar var bannað að beita vopnavaldi eða draga fólk út með valdi. Þetta skipti sköpum fyrir samfélög sem höfðu ekki sterkt eða virkt ríkisvald og hnefarétturinn mótaði oft daglegt líf fólks og jafnvel stríðsrekstur. Við inngang kirkju er því á tíðum að finna altari helgað Mikael erkiengli. Um hann er ritað í Opinberunarbókinni að hann hafi í umboði Krists fellt Satan og hlekkjað (Op 12.7-9). Mikael eru tileinkaðar margar kirkjur og á Mikael erkiengill sér einatt fastan stað í kirkjunni nærri innganginum eða við hann. Þarerjafnvel aðfinnaaltari tileinkað honum. Hann verndar menn þannig frá ógnum myrkursins og hins illa, þannig er að finna mjög merkilega útleggingu á þessari arfleið í Hallgrímskirkju þar sem Jesús Kristur stendur við innganginn á þeim stað sem Mikael erkiengill er vanalega. Það er sem þessi staðsetning styttunnar vilji undirstrika að Kristur sé sá sem sigrar jafnt myrkur heimsins og það myrkur sem finna má í hjörtum manna. Þegar fólk gekk í kirkjuna lá leiðin frá myrkri til Ijóss. Við austurenda kirkjunnar í kórrýminu er altarið þar sem komið er fyrir helstu táknum kristninnar um upprisuna og það eilífa líf sem trúaðir eiga í Kristi. f sálmi Lúthers Vor Guð er borg á bjargi traust (284) er vitnað vel til þessa veruleika. Fjöldi turnanna hefur sína merkingu, ein er sú að tveir turnar vísi til himinsins eða Guðs ríkisins þ.e.a.s. þeir vísa til þess veruleika sem maðurinn tilheyrir endanlega og hvernig hann á að móta daglegt líf. Fjórir turnar aftur á móti eru alla jafnan tengdir við guðspjallamennina - þeir á framhlið standa fyrir Matteus og Jóhannes sem báðir voru lærisveinar Krists, þeir á austurenda á Lúkas og Markús sem voru lærisveinar postula. Margir turnar eru ferstrendir. Ástæða þess liggur meðal annars í því að frá fornu fari hefur ferningurinn, við hlið hringsins, talist fullkomið og/eða heilagt form. Það er ekki að ófyrirsynju að aldingarðinum í Eden er lýst sem ferningi. Þaradís er táknmynd ræktaðs lands og menningar mitt í óreiðu tilverunnar. Ferningurinn var ímynd fyrir kosmos í andstæðu við kaos eða reglu í andstöðu við óreglu. Átthyrningurinn er settur saman úr tveimur ferningum og vísar til sama veruleika, en innan kristninnar fær hann aðra og djúpa trúarlega merkingu. í Ritningunni segir frá því að forðum voru þau átta sem fóru í örkina hans Nóa, talan átta táknar þar heild mannkyns (1Mós 7.13; 1 Pét 3.20-21), sæluboðin í Fjallræðunni eru átta (Matt 5.3-10) og upprisa Jesú er upphaf nýrrar sköpunar og er því upprisudagurinn oft nefndur áttundi dagurinn og Jesús var með lærisveinum sínum í átta daga (Jóh 20.26). Vegna þessa merkir áttundi dagurinn hjálpræðið og eilífðina. Síðari áhersluna finnum við líka í táknheimi stærðfræðinnar um það sem Skálholtsdómkirkja er óendanlegt. Það er því ofur eðlilegt að skírnarfontar séu einatt átthyrndir. Turnar sem eru átthyrndir vísa því ekki bara upp í himininn heldur inni í eilífðina. Ef kirkja hefur fleiri turna en einn er alla jafnan verið að vitna til kirkjunnar sem hinnar nýju Jerúsalem sem hefur - í lýsingum Opinberunarbókarinnar - tólf hlið ogjafnmargaturna(Op21.9-22.5). Turninn er vitnisburður um að innan kirkjunnar, m.a. í hverri bænastund, guðsþjónustu eða öðrum athöfnum, mætist himinn og jörð, þar sem kirkjan er ríki Guðs á jörðu fyrir mátt orðs og sakramentis. Það er líka mögulegt að sjá í turninum skírskotun til safnaðarins um að halda vöku sinni. Það er sem turninn segi: „Réttið úr yður, hjálpræði ykkar er í nánd.“ Þess vegna geyma þeir jafnan kirkjuklukkur - sem jarteikn fagnaðarerindisins - og efst á turninum er kross sem vísar til inntaks þess. Honum er komið fyrir á kúlu en hún getur táknað fullkomleikann og það sem fagnaðarerindið stendur fyrir, eða heiminn sem fagnaðarerindið á að hljóma í. Á honum er ósjaldan komið fyrir veðurhana sem snýr sér ailtaf upp í vindinn. Hann kallar söfnuðinn til að halda vöku sinni og vísar til þeirrar víðsýni sem slíkt krefst. Hann snýr alltaf upp í vindinn til að boða að við menn eigum að greina og takast á með fagnaðarerindinu við þá kenningarvinda sem í hverri samtíð skella á kirkjunni (1 Rét. 4.11). Hann er auk þess tákn fyrir upprisuna og umfram allt áminning til safnaðarins um að halda vöku sinni og staðfestu. Frásagan um afneitun Péturs og gal hanans vitnar um það (Matt 26.69- 75). Á þetta allt minnir t.d. veðurhaninn á Dómkirkjunni í Reykjavík. Vissulega geta turnar verið byggðir til að auka hróður og ala á hégómagirnd þeirra sem þá reisa. Dæmi um slíkan turn er í Ritningunni - Babelsturninn (1 Mós 11). Þess vegna er í kirkjuturnum komið fyrir klukkum og á þaki hans krossi. Það var ekki að óþörfu að hreyfingar á miðöldum drógu mjög úr stærð kirkjuturna. Turninn á að vísa til tengingarinnar milli himins og jarðar í Kristi. Kristur er staðurinn þar sem himinn og jörð mætast. Turninn vísar okkur á hvernig Guð í orði sínu tengir veruleika himinsins við veruleika okkar daglega lífs. í hversdagsleikanum mætir Guð okkur með ríki sitt og lýkur þar upp fyrir manninum blessunum lífsins. Að það er kross á kirkjuturnum er tákn um að við eigum að kannast við þann veruleika sem við erum hluti af, svo við greinum að tilvistin öll er endanlega borin uppi af náð og fyrirgefningu Guðs, en ekki af verkum okkar og hégóma. Turninn vitnar þannig um Guð og vill styrkja trúna í trausti sínu til Guðs. Það er eins og hann vilji stöðugt boða: Réttið úr yður, hjálpræði yðar er í nánd. bjarmi | apríl 2018 | 23

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.