Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 43

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 43
er oft ekki einfalt, einkum ef við gerum okkur ekki grein fyrir eigin tilfinningum og tilfinningaflækjum og hvaða áhrif þær hafa. Hluti þess að vera andlega heilbrigður er að vera tiifinningalega heilbrigður. Höfundur heldur því skýrt fram að ekki sé unnt fyrir kristið fólk að ná andlegum þroska ef það er vanþroskað tilfinningalega. Sem dæmi nefnir hann að hæfileikaríkur og áhrifamikill prédikari geti verið harður og tilfinningasnauður maki og foreldri heima fyrir. Fólk getur verið í lykilstöðu, jafnvel forstöðu, en verið óöruggt, sífellt í vörn og geti ekki tekið ábendingum annarra. Unnt er að læra heilu kafla Ritningarinnar utanbókar en vera sér ómeðvitandi um eigin gremju og ótta. Dæmi eru um fólk sem biður tímunum saman en er engu að síður afar gagnrýnið á aðra og afsakar það með „anda greiningar". Fólk getur beðíð um frelsun undan djöfullegu valdi meðan vandinn er að það forðast átök eða er fast í óheilbrigðum venjum sem eiga sér rætur í uppvextinum. Við erum líkamlegar, andlegar, vitsmunalegar, félagslegar og tilfinninga- legar verur. Tilfinningar eru tungumál sálarinnar og hróp hjartans. Ef við vanrækjum að hlusta eftir tilfinningum okkar erum við ósönn gagnvart okkur sjálfum og missum af dýrmætu tækifæri til að þekkja Guð betur. Þess vegna þurfum við að skoða hvernig við erum á yfirborðinu, í samskiptum við aðra, og svo hvað bærist innra með okkur og hefur bein og óbein áhrif á það hvernig við hugsum, tölum og breytum. Að líta inn á við og skoða hjartað er krefjandi, óþægilegt, þjáningarfullt og krefst vinnu, hugrekkis, tíma og einveru og einlægs trausts á náð Guðs. Þannig vöxum við í Kristi. Fjórði kafli bókarinnar er með spurningalista eða e.k. próf til þess að átta sig á því hversu tilfinningalega heilbrigður maður er. Þar með er inngangshluta bókarinnar lokið og komið að því sem mikilvægt er að skoða og læra: Sjö grundvallarreglur tilfinningalega heilbrigðrar kirkju eða samfélags. FYRSTA REGLA: LÍTUM UNDIR YFIRBORÐIÐ Þegar vandi steðjar að leitum við skýringar en stundum síst þar sem hana er að finna, þ.e. undir yfirborðinu. Ekki er nóg að skoða þann hluta íssins sem stendur upp úr hafinu og skoða ekki það sem er undir yfirborðinu. Að jafnaði er miklu auðveldara að halda sínu striki og sinna verkefnum daglegs lífs en að skoða sjálfan hið innra, þ.e. tilfinningalífið. Það krefst heiðarleika sem jafnvel veldur þjáningum. En það er jafnframt leiðin þvf „sannleikurinn mun gera ykkur frjáls” (Jóh. 8:32). Stundum þarf Guð að leyfa þjáningu að verða á vegi okkar svo að við stöldrum við, skoðum líf okkar og lítum inn á við. Þjáningin vekur upp löngun til breytinga. Stundum þarf krafan að koma utan frá, frá maka, börnum eða vinnuveitanda. Fyrsta stig er að vera sér meðvitandi um sjálfan sig. Jesús er heilbrigt dæmi, hann grét, reiddist, undraðist, þráði að vera með lærisveinunum og hafði mikla samúð með þeim sem illa voru staddir. Hann var hreinn, beinn og heiðarlegur. Ein leið til að átta sig á tilfinningum sínum er að skoða líkamlega líðan okkar. Sveittir lófar, magaverkir, höfuðverkur, gnístran tanna, fóta eða fingrasláttur og fleira getur verið merki um streitu og vanlíðan. bjarmi | apríl 2018 | 43

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.