Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 5
verð að lifa,“ sagði maðurinn í því skyni
að útskýra gjörðir sínar. Vinurinn spurði á
móti: „Verður þú það?“ Víða um heim þurfa
kristnir menn að taka ákvörðun sem hefur
alvarlegar afleiðingar, að afneita Jesú eða
missa allt, jafnvel lífið. Þeir sem standast
slíka raun fá þann vitnisburð að „eigi var
þeim lífið svo kært að þeim ægði dauði"
(Opinberunarbók Jóhannesar f 2. kafli, 11.
vers).
HVAÐ EIGUM VIÐ AÐ GERA?
„Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna," segir
Pétur og bætir við „til þess að þeir sem
nú hallmæla ykkur sem illgjörðamönnum
sjái góðverk ykkar og vegsami Guð þegar
hann kemur." Það er grunntónninn í tilveru
kristins manns að Guð verði dýrlegur.
Jesús kenndi okkur að biðja: Helgist þitt
nafn. Ekki af því að Guð sé ekki nógu
heilagur heldur til að æ fleiri sjái dýrð hans
og heilagleika og veiti honum þá lotningu
sem ber. Við sem fylgjum Jesú eigum að
hegða okkur þannig að fólk vegsami Guð.
„Verið Drottins vegna hlýðin allri
mannlegri skipan," heldur Pétur áfram.
Drottins vegna! Það er hann sem sendir
yfirvöldin til að refsa illgjörðarmönnum
og hrósa þeim er breyta vel. Með
því móti þöggum við líka niður í
vanþekkingu heimskra manna. Þær
raddir heyrast að heimurinn væri betur
kominn án kristindómsins og jafnvel
trúarbragða yfirleitt. Sjaldnar er þó önnur
hugmyndafræði afskrifuð á jafnróttækan
hátt og enn hef ég ekki heyrt að heimurinn
væri best kominn hugsjónalaus. En þess
háttar fullyrðingum verður ekki best svarað
með orðum heldur verkum. Sennilega
sjást áhrif kristindómsins óvíða betur
en þar sem heiðnar þjóðir hafa tekið við
fagnaðareindinu um Jesú. Ættflokkaerjur
leggjast af, kjör kvenna batna og ýmsir
slæmir siðir hverfa. Hér á landi hafa
einkum Hjálpræðisherinn og Samhjálp
verið sýnileg en margir vinna í kyrrþey og
orð Péturs eiga erindi til allra sem játa Jesú
sem drottin.
„Þið eruð frjálsir menn“, segir Pétur,
vitandi að sumir og jafnvel margir af
lesendum hans voru þjónar eða þrælar!
En það er frelsið í Jesú Kristi sem hann
vísar til. Kannski hafa sumir hugsað sem
svo að fyrst skapari heimsins gæfi þeim
frelsi gæti enginn mannlegur máttur sett
þeim skorður. Þeir gætu því hagað sér
eins og þá lysti. En Pétur andmælir slíkum
hugmyndum eindregið. „Notið frelsið til að
þjóna Guði en ekki til að hylja vonsku."
Síðan setur Pétur fram fern fyrirmæli.
Ég hef ekki fundið því stoð í skýringarritum
en mér sýnist engu að síður að þrjú fyrstu
atriðin séu forsenda þess að hægt sé að
uppfylla hið fjórða.
- Virðið alla menn. Allir menn eru
skapaðir í Guðs mynd og þess vegna
er mannslífið heilagt. Þetta á líka við
um fólk á stríðshrjáðum svæðum,
flóttamenn, þá sem búa við skertan
þroska, örvasa gamalmenni og fóstur
í móðurkviði.
- Elskið samfélag þeirra sem trúa. Það
er mikilvægt að draga sig ekki út
úr mannlegu samfélagi en það má
ekki leiða til þess að við vanrækjum
samfélag trúaðra. Samkvæmt Pétri
eigum við að elska það. í hugann
kemur mynd af pilti sem þráir stúlkuna
sína, vill ekki missa af neinni stund með
henni og hlakkar til hverra samfunda.
Þannig á afstaða okkar til samfélags
trúaðra að vera.
- Óttist Guð. Við nútímamenn eigum
erfitt með að skilja hvers vegna við
ættum að óttast Guð. Er Guð ekki
góður? Vill hann okkur nokkuð illt?
Kannski geta viðbrögð Péturs sjálfs
hjálpað okkur f þessu efni. Þegar
hann hafði fengið mokafla samkvæmt
fyrirmælum Jesú og honum varð Ijóst
að hér var um að ræða kraftaverk, „féll
hann á kné frammi fyrir Jesú og sagði:
„Far þú frá mér, Drottinn, því að ég er
syndugur maður““ (Lúkasarguðspjall 5.
kafli, 8. vers). Hann vildi vera hjá Jesú
en í nálægð hans fann hann sárt til
syndar sinnar. Guð er heilagur, við erum
syndug. Þess vegna kemur syndugur
maður fram fyrir Guð í guðsótta.
- Heiðrið keisarann. Við eigum að virða
yfirvöld og fylgja fyrirmælum þeirra að
því tilskildu að þau leyfi okkur að virða
alla menn, elska samfélag þeirra sem
trúa og óttast Guð.
bjarmi | apríl 2018 | 5