Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 14

Bjarmi - 01.04.2018, Blaðsíða 14
Kvíði GUÐBJÖRG HRÖNN TYRFINGSDÓTTIR KVÍÐI ER FYRIRBÆRI SEM ÉG ÞEKKI AFAR VEL. Suma daga kvíði ég öllu. Kvíði því að fara á fætur, kvíði því að hitta fólk, kvíði því að fara í búðina. Stundum vakna ég eldsnemma á morgnana, of þreytt til að fara á fætur en ligg bara í rúminu og kvíði því að allt mögulegt fari úrskeiðis. Smáhlutir geta orðið svo yfirþyrmandi stórir - ég sé eftir að hafa ekki lesið meira í gær í skólabókunum, því nú á ég meira eftir í dag, ég er hrædd um að gleyma að borða hakkið í ísskápnum sem er komið á síðasta snúning, áður en það skemmist, ég er hrædd um að gleyma að borga reikninga, hrædd um að klúðra prófunum í skólanum o.s.frv. Það er ekki bara svona áminningarkvíði, sem minnir þig á það sem þú átt eftir að gera. Mér líður stundum hreinlega eins og allt muni fara úrskeiðis og að það verði algjört stórslys þegar ég klúðra þessu öllu. Eina vopnið sem ég hafði gegn kvíðanum áður var að minna mig á að að öllum líkindum færi þetta vel og allt myndi bjargast einhvern veginn. Jafnvel þó að það sé líklegt, er það bara ekki nógu haldbær huggun. FRÁ KVÍÐA TIL TRAUSTS Einn hrikalega erfiðan morgun hugsaði ég alveg í hina áttina. Ég þurfti að ímynda mér að allt færi úrskeiðis. Að allt sem ég óttaðist yrði að veruleika, að ég klúðraði prófunum, missti þakið yfir höfuðið, ætti enga peninga, engan mat og enga vini. Þá gat ég loksins séð skýrar það sem ég átti eftir þá, það eina sem ég gat ekki misst með því að klúðra öllu. Og það er Jesús og það sem hann gerði á krossinum fyrir mig. Það var ekki byggt á neinni frammistöðu frá mér, og verður ekki tekið frá mér vegna skorts á frammistöðu. Þegar ég átti í huganum ekkert eftir nema Jesú, gat ég ekkert gert nema treysta honum. Og ég fann að ég gat treyst honum. Hann er raunverulega það eina sem aldrei bregst. Og fyrst þá hafðí ég engu að kvíða lengur. Ef mig vantar eitthvað eða ég lendi í vandræðum hef ég æði mörg úrræði. Það er t.d. ansi löng leið fyrir mig á götuna, nema ég neiti að taka við nokkurri hjálp. En yfirleitt lendum við ekki í svo vondum málum að við þurfum mikið að treysta á aðra eða leita hjálpar. Ég hef aldrei upplifað það í lífinu að vera svo vonlaus og hjálparlaus að ég eigi bara Guð að leita til. Það finnast alltaf önnur úrræði, ef við hugsum veraldlega. Því get ég ekki sagt að ég setji allt mitt traust á hann í daglega lífinu, því ég er vön því að flest gangi nokkuð smurt fyrir sig án þess að ég hugsi svo mikið um það. Ég get auðveldlega gleymt því að Guð er sá sem gefur gæfu og gengi og hefur líka allt vald til að taka það burt á einu andartaki. 14 | bjarmi [ apríl 2018

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.