Morgunblaðið - 27.01.2022, Blaðsíða 33
33
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. JANÚAR 2022
Handbolti Nokkrir harðir stuðningsmenn strákanna okkar á EM komu á Ölver í Glæsibæ í gær að horfa á stórsigur gegn Svartfellingum. Um það bil 10 í hverju hólfi, að sögn.
Árni Sæberg
Það er tilefni til
bjartsýni. Það er farið
að hilla undir lok
heimsfaraldursins eins
og við höfum þekkt
hann undanfarin tvö ár
með tilheyrandi áhrif-
um á daglegt líf okkar.
Þessi tími er fordæma-
laus. Það sem stendur
þó upp úr er óneitan-
lega það hversu vel ís-
lensku samfélagi hefur gengið að
takast á við þær fjölmörgu áskor-
anir sem fylgt hafa faraldrinum.
Strax í upphafi faraldurs ákvað rík-
isstjórnin að beita ríkisfjármálunum
af krafti til þess að tryggja öfluga
viðspyrnu samfélagsins eins og
þurfa þykir hverju sinni – með svo-
kallaðri efnahagslegri loftbrú.
Loftbrúin er stór, en þannig nemur
heildarumfang efnahagsráðstafana
árin 2020 og 2021 um 215 millj-
örðum króna. Undanfarna daga
hafa stjórnvöld kynnt sínar nýjustu
og vonandi síðustu aðgerðir í þess-
um anda, sem er ætlað að styðja við
samfélagið í kjölfar áhrifa ómíkron-
afbrigðisins.
Staðan á Íslandi og
á heimsvísu
Aðgerðirnar hafa
skipt miklu máli. Efna-
hagsbatinn á Íslandi
hefur verið sterkur og
gerir Seðlabankinn ráð
fyrir 5,1% hagvexti á
árinu. Störfum hefur
fjölgað hratt og at-
vinnuleysi er að verða
svipað og það var fyrir
heimsfaraldurinn. Hins
vegar hefur vöxtur
kortaveltu dregist hratt saman í
upphafi árs sökum fjölgunar smita í
samfélaginu. Velta bæði íslenskra
og erlendra korta dróst skyndilega
saman fyrstu 10 daga mánaðarins.
Heildarkortavelta er nú 4% minni
en 2019. Landsmenn hafa dregið sig
til hlés vegna bylgju ómíkron-
afbrigðisins. Því er mikilvægt að
framlengja efnahagsaðgerðir og
beina þeim sérstaklega í átt að þeim
geirum sem hafa orðið verst úti í
farsóttinni. Það sama má segja um
hagvaxtarhorfur á heimsvísu en
þær hafa versnað á fyrsta ársfjórð-
ungi og gerir Alþjóðagjaldeyrissjóð-
urinn ráð fyrir 4,9% hagvexti árið
2022. Það eru einkum þrír þættir
sem skýra versnandi horfur: vænt-
anlegar vaxtahækkanir í Bandaríkj-
unum og minnkandi einkaneysla,
þrálát verðbólga og viðkvæm staða
fasteignamarkaðarins í Kína.
Viðspyrnu- og
lokunarstyrkir framlengdir
Meðal þeirra aðgerða sem stjórn-
völd kynntu í vikunni voru fram-
lengingar almennra viðspyrnu-
styrkja til handa fyrirtækjum um
fjóra mánuði – en áætlað umfang
þeirra nemi um tveimur milljörðum
króna. Nú þegar hafa 10 milljarðar
króna verið greiddir út til um 1.800
rekstraraðila en um 400 umsóknir á
eftir að afgreiða. Aukinheldur sam-
þykkti ríkisstjórnin framlengingu
lokunarstyrkja til þeirra sem hafa
tímabundið þurft að loka starfsemi
sinni vegna sóttvarnaráðstafana og
orðið af verulegum tekjum vegna
þess. Umfang aðgerðanna er mikið
en um leið mikilvægt til þess að
standa áfram með íslensku atvinnu-
lífi á lokaspretti faraldursins. Styrk-
irnir gera rekstraraðila betur í
stakk búna til þess að taka þátt af
fullum krafti að nýju þegar sam-
félag án takmarkana tekur við og
hjól hagkerfisins fara að snúast
hraðar.
Veitingastaðir varðir
Rekstur margra veitingastaða
hefur þyngst verulega vegna tekju-
samdráttar í kjölfar sóttvarna-
ráðstafana umfram flestar atvinnu-
greinar, meðal annars vegna styttri
afgreiðslutíma. Veitingastaðir eru
mikilvægir samfélaginu sem við bú-
um í og eru nauðsynlegir til að sinna
þeim fjölda ferðamanna sem heim-
sækja Ísland. Því kynntu þau sér-
staka styrki fyrir veitingastaði til
þess að tryggja viðspyrnu þeirra að
sóttvarnaráðstöfunum liðnum. Gert
er ráð fyrir að einstakir rekstrar-
aðilar geti fengið að hámarki 10-12
milljóna styrk á fjögurra mánaða
tímabili til að mæta rekstrarkostn-
aði.
Staðið með menningunni
Stjórnvöld einsettu sér að standa
með listum og menningu í gegnum
heimsfaraldurinn en hann hefur
haft afar mikil og neikvæð áhrif á
verðmætasköpun í menningargeir-
anum, sérstaklega þeim greinum
hans sem byggja tekjuöflun sína að
mestu á viðburðahaldi. Þannig voru
greiðslur til rétthafa í tónlist vegna
tónleikahalds á árinu 2021 til að
mynda 87% lægri en samsvarandi
tekjur árið 2019. Þá hafa sjálfstæð
leikhús og leikhópar farið verulega
illa út úr faraldrinum vegna þeirra
sóttvarnaaðgerða og lokana. Það
var því ánægjulegt að kynna í vik-
unni 450 m.kr. viðspyrnuaðgerðir
fyrir tónlist og sviðlistir. Miða þær
að því að tryggja viðspyrnu í við-
burðahaldi, efla frumsköpun og
framleiðslu listamanna ásamt því að
styðja við sókn á erlenda markaði.
Við eigum listafólkinu okkar margt
að þakka, meðal annars að stytta
okkur stundirnar á tímum heims-
faraldurs með hæfileikum sínum.
Það verður ánægjulegt að geta sótt
viðburði þeirra að nýju með vinum
og vandamönnum.
Flestir munu kveðja þær tak-
markanir sem fylgt hafa veirunni
með litlum söknuði og undirbúa sig
að sama skapi undir betri tíð. Það
styttist því í að hin fleygu orð Stuð-
manna „bráðum kemur ekki betri
tíð, því betri getur tíðin ekki orðið“
verði orð að sönnu á sama tíma og
samfélagið allt mun lifna við af
meiri krafti en við höfum áður
kynnst.
Eftir Lilju Dögg
Alfreðsdóttur »Efnahagsbatinn á
Íslandi hefur verið
sterkur og gerir Seðla-
bankinn ráð fyrir 5,1%
hagvexti á árinu.
Lilja Alfreðsdóttir
Höfundur er ferðamála-, viðskipta- og
menningarmálaráðherra og varafor-
maður Framsóknar.
Bráðum kemur betri tíð!
Fyrir hálfum mán-
uði var undirritað
Aðalskipulag Reykja-
víkur 2040. Það er
skilgreint sem upp-
færð og endurbætt út-
gáfa þess Aðal-
skipulags sem
staðfest var fyrir
rúmum sjö árum. Í
inngangi þess segir
m.a.: „Ný meginmark-
mið, stakar breytingar og aðrar
viðbætur sem sett eru fram í Aðal-
skipulagi 2040, miða þannig allar
að því að herða á framfylgd þeirr-
ar stefnu sem mörkuð var í fyrra
aðalskipulagi.“ Enn fremur segir:
„Með tillögunum er sýnt fram á að
þau landsvæði sem við höfum tekið
frá undir íbúðabyggð, atvinnu-
svæði og samgöngumannvirki í að-
alskipulagi undanfarna áratugi,
geta dugað okkur til ársins 2040 og
sennilega mun lengur.“
Grá en ekki græn framtíð
Stefnan er því skýr: Borgin á að
vera borg og ekkert annað. Hún á
að vera að öllu leyti manngerð, þar
sem ekkert má minna á ósnortna
náttúru. Hún á að
verða steinsteypugrá
fyrir járnum, með
íbúðahverfum með-
fram helstu sam-
gönguæðum, enn
þrengri byggð, enn
hærri byggingum,
mjög skertum gróðri í
einstaka blómapott-
um, færri sólar-
stundum, lengri
skuggum og sífellt
skertari opnum svæð-
um. Auk þess er
viðbúið að gengið verði með enn
meiri hörku á útivistarrými, opin
svæði og ýmsar náttúruperlur inn-
an núverandi byggðasvæða, svo
sem Laugardalinn, Elliðaárdalinn
og ósnortar fjörur, með landfyll-
ingum.
Þetta er athyglisverð þráhyggja
þegar haft er í huga að þéttingar-
áformin hafa yfirleitt farið illa af
stað og lofa ekki góðu. Skipulags-
yfirvöld standa nú í stappi og ill-
deilum við borgarbúa í flestum
þeim grónu hverfum þar sem
byggðaþétting er á döfinni á allra
næstu misserum. Sú tíð er því
senn á enda að borgarstjóri geti
prédikað sleitulaust um sína góðu
baráttu fyrir lýðheilsu og lífs-
gæðum borgarbúa. Hann er þvert
á móti á góðri leið með að verða
helsti andstæðingur lýðheilsu og
lífgæða Reykvíkinga með þeirri of-
þéttingarstefnu sem nú hefur enn
verið hert á.
Illa þokkuð þétting
Nýlega voru skipulagsyfirvöld
gerð afturreka með áform um
fjölda blokka meðfram Bústaða-
vegi og skorti þar ekkert á málefn-
anlega og faglega gagnrýni íbú-
anna. Íbúar við Háaleitis- og
Miklubraut eru einnig andvígir
þéttingaráformum sem kveða á um
a.m.k. 27 blokkir á þeim slóðum,
þótt skipulagsyfirvöld þráist þar
enn við, í trássi við meirihluta íbú-
anna, samkvæmt skoðanakönnun.
Á fundi með íbúum Bústaða- og
Fossvogshverfis lét borgarstjóri
hafa eftir sér þá fáheyrðu athuga-
semd að blokkirnar meðfram Bú-
staðavegi yrðu fyrirtaks-mön fyrir
hávaða- og loftmengun. Hætt er
við að lítið fari fyrir lýðheilsu og
lífsgæðum þeirra sem búa eiga í
slíkum mengunarvörnum.
Bannað að opna glugga
Samþykkt hefur verið 4.000
manna byggð í framhaldi af
Skerjafirði, án þess að Skerfirð-
ingar fengju nokkuð um það að
segja. Nýja byggðin verður inni á
núverandi flugvallarsvæði þar sem
jarðvegur er afar olíumengaður.
Enn er allt í óvissu um hvort, eða
þá hvernig, hægt verði að hreinsa
þann jarðveg eins og lög gera ráð
fyrir. Þessi byggð mun liggja svo
nærri flugbraut að Heilbrigðiseft-
irlit Reykjavíkur telur að íbúðir
næst flugbraut nái ekki lágmarks-
skilyrðum hljóðvistar og verði því
að vera án opnanlegra glugga. Því
skilyrði verði þá að þinglýsa á þær
fasteignir. Hér er enn verið að
stuðla að ofþéttingu byggðar í and-
stöðu við lýðheilsu og lífsgæði.
Gagnrýni fræðimanna
Ýmsir fræðimenn á sviði bygg-
ingarlistar, skipulagsfræða, verk-
fræði og fleiri fræðigreina sem
koma að skipulagi umhverfismót-
unar hafa skilað inn athugasemd-
um, ábendingum og gagnrýni á
þetta aðalskipulag. Þar er yfir-
leitt teflt fram mikilvægi lýð-
heilsu og lífsgæða, gegn þeirri of-
þéttingu sem hér ögrar þeim
gildum. Yfirvöld eru m.a. ein-
dregið hvött til að endurskoða
þéttingaráformin. Bent er á að
hverfi með of miklum þéttleika
einkennist oft, samkvæmt erlend-
um rannsóknum, af meiri félags-
legri einangrun, loftmengun og
hávaða. Gagnrýnd er sú megin-
stefna að skipuleggja íbúðabyggð
þétt við helstu umferðaræðar sem
vafalaust muni raska mjög svefn-
friði íbúanna. Gagnrýnd er leyfi-
leg mikil hækkun íbúðahúsa sem
dregur mjög úr sólarljósi inn í
íbúðir og nærumhverfi þeirra og
gagnrýnd er aðför að gróðri og
opnum útivistarsvæðum, svo eitt-
hvað sé nefnt.
Í stað þess að læra af mistök-
um sínum og hlusta á góðra
manna ráð, herða borgaryfirvöld
tökin. Það er háttur þeirra sem
engu hafa gleymt – og ekkert
lært.
Eftir Mörtu
Guðjónsdóttur » Stefnan er því skýr:
Borgin á að vera
borg og ekkert annað.
Hún á að vera að öllu
leyti manngerð, þar sem
ekkert má minna á
ósnortna náttúru.
Marta Guðjónsdóttir
Höfundur er borgarfulltrúi
Sjálfstæðisflokksins.
Lýðheilsa og lífsgæði eða ofurþétting