Ljósmæðrablaðið

Árgangur

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 6

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Blaðsíða 6
6 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021 Það er með mikilli ánægju sem ég sit hér í lok árs að skrifa pistil formanns. Þessir níu mánuðir frá því að ég tók við embætti hafa verið ansi viðburðaríkir og skemmtilegir með mörgum ólíkum verkefnum. Það er margt sem ég hef lært, en ennþá meira sem á ég eftir ólært. Sérstaklega ljúft hefur það verið að mynda aftur tengsl við ljósmæður og kynnast nýjum ljósmæðrum sem ég hef ekki áður hitt. Ég var satt að segja búin að gleyma því eða ekki búin að átta mig fyllilega á því áður hvað ljósmæður eru öflug stétt. Þær konur sem velja sér þennan starfsvettvang eru sterkar, vel menntaðar konur og algjörir töffarar. Á þetta verð ég minnt á hverjum degi. En það er margt sem gera þarf til að bæta starfsaðstæður ljósmæðra. Bind ég miklar vonir við nýjan heil- brigðisráðherra, sem hefur það orðspor að koma hlutum í verk. Síðastliðið sumar var erfitt, með auknum verkefnum á öllum vígstöðvum og ónógum mannskap. En það stendur vonandi til bóta og eins og er bendir ekkert bendir til þess að næsta sumar verði eins þungt. Við verðum að minnsta kosti að hafa þá trú. Þrátt fyrir mikið álag stóðu ljósmæður þetta af sér eins og oft áður, enda sterkar konur. En þessi auknu verkefni hjá fámennri stétt virðast ekki koma í veg fyrir að ljósmæður láti til sín taka á öðrum sviðum eða taka að sér önnur mikilvæg verkefni. Þann 5. maí síðastliðinn á Alþjóðadegi ljósmæðra þegar breyta þurfti áætlunum varðandi hátíðarhöld og halda ráðstefnu í Zoom- -fundi kom það berlega í ljós hvað ljósmæður höfðu verið afkasta- miklar á tímum heimsfaraldursins. Ljósmæður höfðu aldeilis ekki setið auðum höndum, utan sinna hefðbundnu starfa þar sem þær hafa gefið út bækur, alls konar fræðsluefni, stofnað fyrirtæki til að sinna barnshafandi konum í neyslu o.fl., o.fl. Dagskráin þetta kvöld var fljót að fyllast og hefði verið hægt að hafa mun lengri, því af nægu var að taka. Eins var mjög gaman að heyra frá ljós- mæðrum sem starfa erlendis sem lýstu sínum starfsaðstæðum á Covid tímum. Margt mjög ólíkt því sem var að gerast á Íslandi. Í haust höfum við haldið tvo Zoom-fræðslufundi þar sem gangsetningar voru umræðuefni fyrra kvöldið og áföll í starfi það seinna. Þessi fræðsla var í boði ljósmæðra sem hafa aflað sér aukinnar þekkingar á viðkomandi sviðum, með rannsóknum, meistaraverkefnum og gerð verklagsleiðbeininga. Það var eins með þessi fræðslukvöld, dagskráin hefði getað verið mun lengri. Eins var virkilega ánægjulegt hversu margar ljósmæður mættu á fundina af öllu landinu. Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands stefnir því á það að halda áfram með Zoom-fundi annan hvern mánuð í vetur og er stefnt á næsta fund í lok janúar. Þetta er góð leið fyrir okkur ljósmæður til að sameinast eina kvöldstund hvar sem við erum staddar. Stjórn Ljósmæðrafélags Íslands hefur nú gert samning við Áfalla- og sálfræðimið- stöðina fyrir hönd okkar félagsmanna sem verða fyrir áföllum í starfi. Samningurinn felur í sér að ljósmæður fái forgang í viðtöl og tíma sem fyrst. Nokkrir sálfræðingar við stöðina munu sérhæfa sig í störfum ljós- mæðra og starfsumhverfi okkar. Áfalla- og sálfræðimiðstöðin hefur starfsstöð í Kópa- vogi og notar einnig samskiptaforritið Kara Connect og getur því veitt ljósmæðrum um allt land þessa sérhæfðu þjónustu. Við hlökkum til samstarfsins, en nánari kynning á þjónustunni er að finna í þessu blaði. Kjaramál koma til með að taka meira pláss í mínum störfum næstu mánuði. Það á eftir að gera stofnanasamninga við átta heilbrigðisstofnanir utan Landspítala, þar sem ljósmæður starfa. Stofnanasamningur- inn við Landspítala var yfirfarinn í desember 2020. Gerð var smávægileg breyting á starfsþróunarkerfinu nú í sumar til að koma til móts við og meta betur þær breytingar sem orðið hafa á námi ljósmæðra sem nú er meistaranám til starfsréttinda. Undirbúningur fyrir samninga árið 2023 er þegar hafinn og er markmiðið að sá samningur taki við af núverandi samningi, sem vonandi gengur eftir. Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að stefnt sé að því að stuðla að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga. Á næsta ári verður skoðað hverju verkefnið Betri vinnutími hefur skilað ljósmæðrum. Til stendur m.a. að senda út skoð- anakannanir til félagsmanna fljótlega eftir áramót, sem ég vil hvetja ykkur til að svara. Þó margt gott hafi áunnist við þessar breytingar, þá er einnig margt sem má laga. Því er gott að heyra frá ykkur hvað helst má bæta. En ég fer full tilhlökkunar og bjartsýni inn í næsta ár þar sem mörg spennandi verkefni bíða úrlausna til að bæta hag ljósmæðra alls staðar á landinu og hlakka ég til áframhaldandi samstarfs við ykkur. Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður. Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands Á VA R P F O R M A N N S L J Ó S M Æ Ð R A F É L A G S I N S FORMANNSPISTILL

x

Ljósmæðrablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.