Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Page 22
22 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021
Undanþága er þó til staðar sem heimilar átta vitjanir fyrir mæður
sem fæða barn sitt heima. Heimilaður fjöldi vitjana fyrir mæður sem
fæða barn sitt á fæðingardeildum spítala eða heilbrigðisstofnunum
eru fimm til sjö vitjanir (Sjúkratryggingar Íslands og ljósmæður,
2009, 2018).
Markmið þessarar rannsóknar var að lýsa fjölda heimavitjana,
bráðavitjana og vitjana brjóstagjafaráðgjafa meðal kvenna í sæng-
urlegu á árunum 2012-2019. Einnig var markmiðið að meta áhrif
heilsufarsflokkunar móður og barns á áhættuna á að móðir og/eða
barn þyrfti á bráðavitjun eða vitjun brjóstagjafaráðgjafa að halda.
Tilgangur rannsóknar var að varpa ljósi á þjónustu ljósmæðra í
sængurlegu og þá þróun sem hefur átt sér stað í heimaþjónustu hér
á landi undanfarin ár. Einnig að byggja grunn fyrir ýtarlegri rann-
sóknir og skapa þekkingu sem gæti stutt við áframhaldandi þróun á
þjónustu og gæðaeftirlit.
AÐFERÐIR
Rannsóknin var framskyggn ferilrannsókn sem byggði á skrán-
ingum frá ljósmæðrum og brjóstagjafaráðgjöfum um mæður og
nýbura í heimaþjónustu á árunum 2012-2019. Gögnin fengust frá
Sjúkratryggingum Íslands (SÍ) en ljósmæður og brjóstagjafaráð-
gjafar á verktakasamningum við SÍ sáu um skráningar. Gagna-
grunnurinn inniheldur upplýsingar um allar vitjanir ljósmæðra og
brjóstagjafaráðgjafa til kvenna í sængurlegu á Íslandi á tímabilinu.
Heildarfjöldi mæðra í rannsókninni var 28.009.
Úr þessum gögnum fengust upplýsingar um aldur móður
(samfelld breyta), heilsufarsflokkun (A, B, C), bæri (frumbyrja/fjöl-
byrja), heilbrigðisumdæmi (höfuðborgarsvæðið, Austurland, Norð-
urland, Suðurland, Suðurnes, Vestfirðir og Vesturland), fæðingu
með keisaraskurði (já/nei), brjóstaráðgjöf (já/nei), bráðavitjun (já/
nei) og fjöldi vitjana (samfelld breyta). Fyrir þessa rannsókn var
aldur móður settur í flokka; 14-19 ára, 20-29 ára, 30-39 ára, 40-49
ára og 50 ára og eldri.
Heilsufarsflokkun móður og barns er breyta sem skilgreinir heilsu
móður og barns (tafla 1). Ef móðir og barn eru heilsuhraust og án
áhættuþátta eru þau skilgreind í heilsufarsflokki A, séu lítilsháttar
heilsufarsfrávik til staðar verður skilgreiningin á heilsufari flokkur B
og mæður og nýburar með alvarlegri heilsufarsfrávik eru skilgreind
sem flokkur C. Horft er til lífsmarka móður, blæðingar í og eftir
fæðingu, fæðingaráverka, þvagláta, daglegra athafna, blóðþrýstings
eða meðgöngueitrunar, sykursýki, fjölburafæðingar, keisara-
fæðingar, sérstakrar lyfjagjafar, sýkinga, geðraskana eða félagslegra
aðstæðna þegar heilsa móður er metin. Heilsa barns er einnig metin
í sama kerfi (A/B/C). Horft er til 5 mínútna APGAR/lífsmarka,
meðgöngulengdar, þyngdar, næringar, útskilnaðar, blóðsykurstjórn-
unar, sýkinga, Rhesus varna, gulu, fósturæðar eða annarra alvarlegra
vandamála (tafla 1). Móðir og barn fá sameiginlegt mat þar sem það
gildi sem lýsir verra heilsufari annaðhvort hjá móður eða barni er
notað til að lýsa sameiginlegu heilsufarsástandi þeirra, tiltekið gildi
skilgreinir heilsufarsflokkun móður og barns. Sem dæmi, ef móðir
fær heilsufarsflokkun A en barn heilsufarsflokkun B þá er þeirra
sameiginlega heilsufarsflokkun B. Á gögnunum eru tveir vankantar
sem vert er að nefna hér. Heilsufarsflokkur mæðra sem áttu börn
sín með keisaraskurði eða í heimahúsi var ekki skráður. Einnig var
einungis skráð hvort kona var frumbyrja eða fjölbyrja ef hún var í
A flokki.
TÖLFRÆÐIGREINING
Flokkabreytum var lýst sem fjölda og hlutfalli af heild (%) og
samfellri breytu var lýst með meðaltali. Marktækni var reiknuð með
kí-kvaðrat fyrir flokkabreytur og t-prófi fyrir samfelldar breytur og
var skilgreind með p<0,05. Bakgrunnsbreytum mæðra var einnig
lýst sem fjölda og hlutfalli af heild (%) eftir heilsufarsflokkun
móður og barns og eftir ári á tímabilinu 2012-2019. Meðaltöl fjölda
vitjana í hverjum heilsufarsflokki var lýst eftir ári og heilsufars-
flokkun. Notast var við fjölþátta lógistíska aðhvarfsgreiningu til
að reikna áhættuna á bráðavitjunum og vitjun brjóstagjafaráðgjafa
eftir heilsufarsflokkun og niðurstöðum lýst með gagnlíkindahlutfalli
(GL) og leiðréttu gagnlíkindahlutfalli (LGL). Notast var við 95%
öryggisbil (ÖB). Módelið var leiðrétt fyrir aldri móður (flokka-
breytu), keisarafæðingu og heilbrigðisumdæmi. Notast var við
tölfræðiforritið R og RStudio útgáfu 1.1.463 við úrvinnslu gagna.
Rannsóknin var samþykkt af Vísindasiðanefnd þann 7. júlí 2020
(VSN-20-131).
NIÐURSTÖÐUR
Í heildina voru 28.009 mæður sem nýttu sér heimaþjónustu ljós-
mæðra á árunum 2012-2019. Fjöldi mæðra í heimaþjónustu sveifl-
aðist frá 3.360 upp í 3.833 á milli ára (tafla 2). Marktækur munur
reyndist á aldursdreifingu mæðra milli ára (p<0,001). Mæðrum á
aldrinum 14-19 ára fækkaði hlutfallslega um helming á tímabilinu,
hlutfallið breyttist úr 2,8% niður í 1,1%. Aðrir aldurshópar voru
svipaðir á milli ára (tafla 3). Mæður sem fæddu með keisaraskurði
voru 2.362 (8,4%). Marktækur munur milli ára mældist á tíðni
mæðra í heimaþjónustu sem fæddu með keisaraskurði (tafla 2).
Heildarfjöldi A flokkaðra mæðra/nýbura var 12.270 (43,8%), B
flokkaðar mæður/nýburar voru 9.400 (33,6%), C flokkaðar 2.826
(10,1%) og mæður/nýburar með óskráðan heilsufarsflokk voru
3.513 (12,5%; tafla 2). Við upphaf rannsóknartímans voru 1.939
(55,8%) mæður og nýburar flokkuð í heilsufarsflokk A en við lok
rannsóknartímans voru 1.222 (31,9%) mæður og nýburar A flokkuð.
Tafla 1. Flokkunarkerfi fyrir heilsufarsskráningu hjá móður og barni (Hildur
Sigurðardóttir, 2014a).
Tafla 2. Bakgrunnur og heilsufarsflokkun kvenna sem fengu heimaþjónustu í
sængurlegu á Íslandi á tímabilinu 2012-2019 (N=28.009).