Ljósmæðrablaðið

Volume

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Page 38

Ljósmæðrablaðið - 01.12.2021, Page 38
38 LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - DESEMBER 2021 ÞJÓNUSTA LJÓSMÆÐRA VIÐ BARNSHAFANDI KONUR OG VERÐANDI MÆÐUR MEÐ VÍMUEFNAVANDA Rætt við Valgerði Lísu Sigurðardóttur og Elísabetu Ósk Vigfúsdóttur V I Ð TA L Ritnefnd Ljósmæðrablaðsins ákvað að í þessu blaði yrði áfram fjallað um þjónustu ljósmæðra við ólíka skjólstæðingahópa í barneignarþjónustunni. Undirritaðar höfðu samband við Valgerði Lísu Sigurðardóttur, sérfræðiljósmóður á Meðgönguvernd, fóstur- greiningu og bráðaþjónustu kvennadeilda á Landspítala, til þess að fá upplýsingar um viðkvæma hópa í barneignarþjónustunni og þjónustu við þá. Einnig var rætt við ljósmóðurina Elísabetu Ósk Vigfúsdóttur, sem hefur sinnt einum af þessum hópum sérstaklega þ.e. þeim sem glíma við vímuefnavanda og/eða erfiðar félagslegar aðstæður. Erfiðar félagslegar aðstæður fylgja gjarnan vímuefna- vanda svo sem fjárhags- og búsetuvandi sem og lítið stuðningsnet. Ekki er síst mikilvægt að fá upplýsingar frá þessum ljósmæðrum um það sem betur mætti fara í þjónustu við konur sem minna mega sín og fjölskyldur þeirra. SKIPULAG ÞJÓNUSTU OG MEÐGÖNGUVERND Barnshafandi konum með fíknivanda er í flestum tilvikum vísað í meðgönguvernd á Landspítala og hefur fjöldi þeirra síðastliðin ár verið um 40-50 konur á ári, samkvæmt Valgerði Lísu. Sérhæfðar ljós- mæður bjóða konunni viðtal, gera heilsufarsmat, meta þörf hennar fyrir þjónustu í barneignarferlinu, veita fræðslu og ráðgjöf og hvetja hana til að þiggja meðferð vegna síns fíknivanda. Á meðgöngunni er þétt utanumhald og stuðningur og koma aðrir fagaðilar þar einnig að, svo sem félagsráðgjafar og fagaðilar með sérhæfingu í fíknimeð- ferð. Bæði SÁÁ og fíknigeðdeild Landspítala veita barnshafandi konum forgang í meðferð. Ef um innlögn er að ræða er oftast boðið upp á eftirfylgd á göngudeild í kjölfarið. Í sumum tilvikum er ekki þörf á innlögn og er meðferð þá veitt á göngudeild. Flestum konum tekst að hætta vímuefnanotkun fljótlega með þessum úrræðum. En félagslegar aðstæður geta verið mjög misjafnar og er það tilfinning ljósmæðra á deildinni að fjölgað hafi í hópi þeirra sem býr við mjög erfiðar félagslegar aðstæður en erfitt er þó að segja til um breytingar á milli ára vegna þess hve fáir einstaklingar þetta eru. Þarfir kvennanna eru mismunandi, sumar hafa aðgang að stuðn- ingsneti í kringum sig á meðan aðrar hafa meiri þörf fyrir samfé- lagslegan stuðning. Veruleg þörf er á hentugu úrræði fyrir þann hóp kvenna - eitthvert skjólshús fyrir þær meðan þær eru að ná tökum á tilverunni í bataferlinu og með lítið barn. Stundum hafa konur farið eftir fæðingu í íbúð á vegum Barnaverndar Reykjavíkur en önnur sveitarfélög hafa leitað til stuðningsfjölskyldna fyrir mæður og börn eftir fæðingu. Í samanburði við nágrannalönd okkar þurfum við á Íslandi að bæta okkur í að skapa þessum fjölskyldum barnvænar aðstæður til dæmis húsnæði og stuðning í þessu nýja hlutverki. Sem dæmi um þjónustu sem hefur reynst vel í Danmörku er Familiamb- ulatoriet (Family center) sem er starfrækt þar á nokkrum stöðum. Það er einmitt kerfi sem veitir samhæfða og heildræna þjónustu fyrir viðkvæma hópa alveg frá því þungun uppgötvast og jafnvel þar til börnin fara í skóla. Þetta virðist hafa gefið góða raun hvað varðar útkomu hjá börnunum. Hér á landi vantar einnig kerfisbundið eftirlit og mat t.d. barnasálfræðinga eða barnageðlækna á börnum sem voru útsett fyrir vímuefnum á meðgöngu, eins og gert er víða á Norður- löndunum. Stofnanir og kerfi þurfa að vinna betur saman til að stuðla að heildrænni og helst samfelldri þjónustu fyrir þennan hóp skjól- stæðinga. Viðkvæmar fjölskyldur þurfa að hafa gott aðgengi að þjónustu og stuðningi í nærumhverfi og helst undir sama þaki. Eins og staðan er í dag þarf fólk að fara á milli staða og samstarf þyrfti að efla til dæmis milli meðgönguverndar, ung- og smábarnaverndar heilsugæslu og félagsþjónustu. Sérhæfð meðgönguvernd fyrir allra verst stadda hópinn þyrfti jafnvel að vera meira í nærþjónustu frekar en að þær þurfi allar að koma á Landspítala vikulega. Sá hópur þyrfti líka einna helst á samfelldri þjónustu að halda í barneignarferlinu og jafnvel áfram fyrstu árin eftir fæðingu á meðan foreldrar eru að finna sinn takt í lífinu og tilverunni með barninu. Lengi býr að fyrstu gerð - fyrstu 1000 dagarnir (meðgangan og fyrstu tvö æviárin) í lífi barns skipta sköpum varðandi heilsu og velferð til framtíðar. URÐARBRUNNUR: VIÐTAL VIÐ ELÍSABETU ÓSK Ljósmæður í meðgönguvernd á Landspítala þekkja þennan hóp vel og þarfir þeirra og eru með sérhæfða þekkingu. Ein þeirra tók af skarið og ákvað að gera það sem í hennar valdi stæði til þess að bæta þjónustu við þessar konur. Síðastliðið vor stofnaði Elísabet Ósk Urðarbrunn, heimili sem styður viðkvæmar fjölskyldur í tengslum við barneignarferlið. Okkur langaði til þess að fá að forvitnast örlítið um tilurð Urðarbrunns, starfsemi heimilisins og markmið og lögðum við því nokkrar spurningar fyrir Elísabetu. Segðu okkur fyrst aðeins frá sjálfri þér. Hvenær útskrifaðist þú sem ljósmóðir og hvar hefur þú starfað undanfarin ár? Ég bý í Hafnarfirði og er gift manninum mínum honum Jens. Saman eigum við fjögur börn og tvo hunda. Ég reyni að sinna heilsunni minni vel og er líkamsrækt mér mikilvæg og er spinn- ing mitt kjarnasport. Ég fer reglulega í ferðalög með fjölskyldu og vinum og elska að fara í göngutúra og fjallgöngur og það geri ég helst ein með hundunum mínum en stundum fá einhverjir heppnir að fljóta með. Ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur í Danmörku árið 2008 og síðan úr ljósmóðurfræði hér á Íslandi 2013. Ég kláraði svo nám í Hugrænni atferlismeðferð árið 2016 og næsta vor útskrifast ég úr tveggja ára diplómanámi á meistarastigi í Fjölskyldumeð- ferð en ég er að klára þriðju önnina af fjórum. Ég starfa sem ljósmóðir á Meðgönguvernd, fósturgreiningu og bráðaþjónustu á Landspítalanum og sérhæfi mig í meðgöngu- eftirliti kvenna sem eiga við geð- og eða fíknivandamál að stríða. Ég hef verið að sinna þessum skjólstæðingahópi síðan 2015. Við komum ekki í veg fyrir að konur í einhverskonar vanda, þá

x

Ljósmæðrablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Ljósmæðrablaðið
https://timarit.is/publication/862

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.