Sjómannablaðið Víkingur

Árgangur

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2012, Blaðsíða 50

Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2012, Blaðsíða 50
50 – Sjómannablaðið Víkingur Næstkomandi haust kemur út hjá Bókaútgáfunni Hólum bók eftir Vilhjálm Hjálmarsson – Villa á Brekku – fyrrum alþingismann og ráðherra. Bókin mun heita Glettingar og gaman- mál og inniheldur gamansögur af höfundi og samferðafólki hans. Athugum hvað Villi á Brekku hefur að segja: Að vera á sveitinni var ekki gott. Að vera í sveit hefur aftur á móti löngum þótt hollt fyrir börn. Þau lærðu svo margt gagnlegt og gott í sveitinni, sagði fólkið. Siggi var ekki gamall þegar hann var sumartíma hjá ömmu og afa á Brekku. Hann kom snemma sumars. Það var ekki farið að láta út kýrnar. En það stóð til að slátra tarfinum, eins og hálfs árs snudda. Við vorum báðir úti í fjósi, afi að mjólka, Siggi að hugsa málið – og spyr: „Afi, hvað er lóa bola?“ Ég skildi en vék mér undan að svara hreint út. Litlu seinna fór ég að heiman og var í burtu nokkra daga. Svo erum við aftur staddir úti í fjósi og enginn tarf- ur á bolabás. – Þá segir Siggi: „Afi, það er búið að lóga bola, drepa hann, skjóta hann með byssu.“ * Frímann afi var fjarskalega barngóður, fús að ræða við afabörnin og segja þeim sögur og ævintýri. Þess naut nafni hans litli enda bjó nú afi hjá foreldrum hans. Meðan Frímann yngri er enn lítill hnokki fer hann með foreldrum sínum austur að Brekku að heilsa upp á föðurfólkið. Þar gefur að líta minnis- varða, fjögurra metra háan blágrýtis- drang og brjóstmynd á af öldruðum manni með alskegg, gjörðri af meistara höndum (Einar Jónsson). Sem nú Frímann litli kemur að varð- anum ásamt mömmu sinni segir hún sem svo að þarna sjái hann nú langa- langa-langafa á Brekku. – Barninu verður undarlega við, rennir augum upp eftir dranginum og segir undrandi: „Nei! – Varð hann að steini?“ * Bræðurnir tveir á Núpsstað urðu háaldr- aðir báðir. Annar þeirra var eitt sinn spurður að því hverju hann þakkaði langlífi sitt. Sá aldraði gerði langa sögu stutta: „Ef maður deyr ekki áður – þá verður maður gamall.“ * Frændkona mín, Magnea Jónsdóttir, lengi kölluð Magga á Melstað (í Nes- kaupstað) þar sem hún dvaldi hjá frænd- fólki sínu síðari hluta ævinnar. Ég hitti hana nokkrum sinnum. Fór vel á með okkur og hún kallaði mig „ættlegg“ sinn. Magga var vel mælt og kryddaði tal sitt með sérstæðum orðatiltækjum sem hún, oftar en ekki held ég, smíðaði sér sjálf – og sum á stundinni. Möggu þótti gott kaffi eins og fleirum og kunni líka að hella uppá könnuna ef svo bar undir. Og sagði þá gjarnan: „Nú skulum við fá okkur einn laglega lagaðan!“ Ef einhver skildi eftir opnar dyr þar sem venja var að halla hurð að stöfum átti hún til að segja: „Hvernig er það með þig, ertu ekki hurðarfær?“ Um þá sem Möggu þóttu vera miklir á lofti og góðir með sig úr hófi sagði hún gjarnan: „Þeir eru ekki heilagir þó þeir hampi sér!“ Um klaufahátt í orði eða verki og annað sem einnig flokkast víst undir „mannleg mistök“ sagði Magga ósköp blátt áfram: „Vitið er ekki meira en Guð gaf.“ * Það átti að vígja nýtt skólahús í Vík í Mýrdal kl. 14.00, á laugardegi auð- vitað. Við Ágúst bílstjóri tókum daginn snemma. Ég hafði krotað niður kvöldið áður það sem ég ætlaði að segja. Við vorum komnir austur um hádegi og settumst inn á Víkurskála að fá okkur hressingu. En brátt er ég kvaddur í síma. Í símanum er Jón Einarsson skólastjóri. Hann kvaðst hafa heyrt að ég væri kominn í plássið. Segist vera að vinna í nýja húsinu og spyr hvort ég hafi ekki gaman af að líta inn. Jú, ég játa því. Svo þurfi ég nú að fara heim með honum og snyrta mig fyrir vígsluna. Jón svaraði og heldur seint að nógur tími væri að tala um það – hún væri áformuð eftir hálfan mánuð! Mér brá hroðalega og þótti þetta flan mitt hið versta mál. Á leiðinni fram í matsal kom ég þó auga á ljósan punkt í stöðunni – verri hefði hún getað orðið! Margrét kona mín hafði neitað að koma með. Það var skárra! Ég spurði Ágúst hvort hann hefði nokkurn tíma farið með forvera mína, Gylfa Þ. og Magnús Torfa, fyrir boðaðan tíma. Hann hugsaði sig um og svaraði: „Ekki svona langt.“ * Siggi átti heima á Breiðdalsvík. Pabbi hans fór oft suður fyrir á og Siggi fékk að fara með. Það var hylur við brúna. Pabbi var með veiðistöng. Hann stoppar á brúnni, kastar og er fyrr en varir kom- inn með stærðar silung upp á brú. Siggi var heldur ekki iðjulaus og farinn að klifra utan á handriðinu þegar pabbi hans leit um öxl. Skelfingu lostinn gat hann laumast að syni sínum og kippt honum inn yfir handriðið. Og segir nú – með meiru: „Hvað hefðir þú gert, Siggi minn, ef þú hefðir dottið í ána?“ Siggi leit brosandi á föður sinn: „Ég hefði bitið á öngulinn, pabbi.“ * Séra Ágúst Sigurðsson í Vallanesi þjónaði Þingmúla og hafði boðað messu í Skriðdal. Aðeins einn maður kom til kirkju, Magnús Hrólfsson á Hallbjarnar- stöðum. Það verður líklega messufall hjá okk- ur, Magnús minn, sagði prestur. Nú, sagði Magnús, alltaf háraði ég á garðann þó fátt kæmi í hús. Prestur lét sér þetta að kenningu verða og prédikaði lengi yfir Magnúsi. Eftir messu spurði hann áheyranda sinn hvernig honum hefði líkað ræðan. Magnús gaf lítið út á það. En sagði svo: „Aldrei hefði ég nú borið fyrir eina rollu allt heyið úr hlöðunni!“ * Við Þorsteinn Sveinsson erum gamlir kunningjar. Fyrir nokkrum áratugum mættumst við á Mjóafjarðarheiði og tók- um tal saman. Þorsteinn var á splunkunýjum bíl, ljómandi fallegum. Ég áttaði mig ekki almennilega á litnum og hafði orð á því við Þorstein. „Það er varla von að þú kannist við litinn,“ sagði Þorsteinn. „Bíllinn er nefni- lega vínrauður.“

x

Sjómannablaðið Víkingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannablaðið Víkingur
https://timarit.is/publication/335

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.