Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Blaðsíða 9
Draumsýn
Mig dreymdi þig í nótt gamli vinur. Það var eins og forðum
daga, þegar ég gekk frá húsinu mínu í Þverholtum, að hliðinu norð-
anmegin og svo í áttina til þín, þar sem þú kroppaðir grængresið í
holtsjaðrinum, þar sem var stekkur endur fyrir löngu. Þetta var
alveg eins og forðum daga, þegar ég steig þessi seinustu spor dags-
ins að vor- og sumarlagi, á hverju kvöldi, að loknum störfum, til
þín í haganum, áður en ég fór í háttinn.
Og þú hættir að kroppa, eins og þá, og komst á móti mér. En
þetta var í draumi, og ég kom ekki með brauðsneið handa þér,
eins og forðum, og ég var ekki glaður eins og þá, því að ég kom
eins og iðrandi syndari, haldinn sektartilfinningu, sem reyndist
svo erfitt að losna við, þótt ég að örlaganna vilja hefði orðið að
slíta samvistum við þig, en einhvern veginn hefi ég ekki verið
samur maður síðan. Það var ekki sársaukalaust, er leiðir hlutu
að skilja. Það svíður enn í þessi gömlu sár, og liklega gróa þau
aldrei til fulls, — en þú komst á móti mér, og barst höfuðið hátt,
eins og ævinlega, með reistan makka, fráneygur, sjóli holta og
haga. Og við horfðumst í augu, eins og forðum, og ég fann dögg-
vota snoppuna við vangann. Ég las það í augum þínum, að þér
skildist, að ég var hryggur og iðrandi, en þú varst glaður og það
yljaði mér inn að hjartarótum. Og svo brá allt í einu fyrir þessu
eldingarkvika leiftri í augunum, sem alltaf gæddi mig orku og
þrótti sem fyrrum. Og mér skildist, að þú vildir, að ég bæri höfuðið
hátt, eins og þú. Við minntumst — og svo fórum við hvor sína leið
þú upp að stekknum, og ég til bæjar, gripinn sömu fagnaðarkennd-
inni og æ fyrrum, af tilhugsuninni um morgunstundina, er ég
stigi fyrstu spor dagsins út í hagann, til þín.
Það var kyrrð yfir bæ og túni og haga. Dásamleg eru þau, góð-
viðriskvöldin í ágúst, er húma fer. En aldrei verða húmblæjur
þeirra svo dökkar, að ekki megi greina hvítan hest í haganum.