Rökkur : nýr flokkur - 01.06.1980, Blaðsíða 22
20
leið sína að þeim og vörubílum var ekið að skipshlið, lestar voru
opnaðar, og brátt fóru skipsbómur að sveiflast til og frá, og svo
fóru vörukassar og pokahlaðar að síga niður á palla bílanna. Og
hávaði barst að eyrum, en hæst lét í kolakrananum, sem gnæfði
yfir hið mikla athafnasvæði bæjarins. Ekki raskaði þetta ró þinni,
vinur, og hafi mér verið eitthvað órótt í byrjun, er ég teymdi þig
mýldan, þar sem mest var um að vera, var sá beygur horfinn,
tengslin okkar í milli voru þegar farin að verða notaleg, og ég
naut þess líka, að renna augum yfir allt, sem þarna var að sjá,
finna seiðmagn athafnalífsins, sem ég ávallt hafði notið, frá fyrstu
tíð, og ef til vill voru áhrifin enn sterkari nú en nokkru sinni fyrr,
blandin djúpri tilhlökkun, vegna þess að ég var á leið til kyrrlát-
ara lífs.
Og við héldum okkar strik, hvað sem hugsunum okkar leið,
alla leið að flóabátnum. Ekkert hafði raskað þinni höfðingulegu ró
og margur verkamaðurinn hafði litið sem snöggvast upp frá vinnu
sinni, og horfði á eftir okkur — eftir þér vildi ég sagt hafa, hinum
hvíta, þreklega og fráneyga fáki, sem leiddur var að skipshlið.
Og ekki raskaði það ró þinni, er ég leiddi þig að grindakassanum,
sem þú áttir að vera í á bátnum, en nokkurrar furðu gætti í svip
þínum er þú leizt ýmist til þessarar hliðarinnar eða hinnar, þegar
kassinn var dreginn upp og þar næst látinn síga niður á þilfarið
framanvert. Það var næstum eins og þér fyndist þetta allt vera
eins og vera átti, og sumir skipverjar og farþegar, gengu til þín,
og þrír eða fjórir struku hrygg þinn og stæltan makka, og höfðu
á orði hve fallegur þú værir og sterklegur. Og maður nokkur hafði
raunar falað þig af mér á bryggjunni. En þú varst ekki falur.
Einn skipverja breiddi segldúk yfir búrið, þér til hlífðar gegn
sædrifi, ef hvasst yrði fyrir mynni Hvalfjarðar og fyrir Skagann.
Og svo var blásið í skipsflautuna, festar leystar, siglt út um hafn-
armynnið út á Engeyjarsund og stefnt á Skipaskaga.
Já, það var vor um alla jörð þá, og angan frá grasi og nýút-
sprungnum brumknöppum birkikjarrsins barst að vitum þínum
með blænum, þar sem þú stóðst bundinn á palli mjólkurbílsins, á
leið vestur hreppana úr nesinu, vestur á bóginn í nýju heimkynnin.