Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 2
2 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024
Grunnur undir kornþurrkstöð í
Eyjafirði er nú að taka á sig mynd
í landi Laugalands. Stofnað hefur
verið kornsamlagið Kornskemman
sem bændur á fimm bæjum eru
aðilar að. Gert er ráð fyrir að
afkastageta stöðvarinnar verði tvö
þúsund tonn á mánuði.
„Við höfum verið að keyra
möl nú í þrjá daga í grunn fyrir
stöðina. Ákváðum bara í raun að
taka sénsinn á því að ríkið standi
með okkur í þessu,“ segir Hermann
Ingi Gunnarsson í Klauf, sem er
einn kornbændanna sem standa
að verkefninu. „Við sendum inn
styrkumsókn fyrir hálfum mánuði um
fjárfestingastuðning fyrir verkefnið
og bíðum bara eftir svari.“
Umsóknir voru 13 um
fjárfestingastuðning
Samkvæmt upplýsingum úr
matvælaráðuneytinu bárust 13
umsóknir um fjárfestingastuðning í
kornrækt. Tilgreind heildarfjárfesting
samkvæmt umsóknum sé samtals
893 milljónir króna. Verkefnin séu
afar fjölþætt en fjárfestingin spanni
frá rúmum 4 milljónum króna upp í
rúmar 200 milljónir.
Til ráðstöfunar á þessu ári eru
144 milljónir króna. Umsóknir séu
í vinnslu og verður umsækjendum
tilkynnt um niðurstöðuna eins fljótt
og auðið er.
Heitt vatn til þurrkunar
Hermann segir að þetta sé verkefni
sem taki langan tíma í undirbúningi
og ekki hafi verið hægt að bíða með
að fara af stað ef það ætti að vera
möguleiki að þurrka korn þar næsta
haust. „Það verður notast við heitt
vatn til þurrkunarinnar sem ekki þarf
að bora eftir og svo skilum við því
aftur inn á kerfið til húshitunar þegar
búið er að nota það.
Það verða líka reist stór síló til að
hægt sé geyma kornið fyrir bændur.“
Fjárfesting upp á
200 milljónir króna
Bændurnir sem eru stofnaðilar
að samlaginu eru frá bæjunum
Klauf, Hrafnagili, Grænuhlíð,
Svertingsstöðum og Hólshúsum.
Eignarhluti er jafn á milli
bændanna, en ágætlega gekk að afla
fjármagns fyrir verkefnið sem er um
200 milljóna króna fjárfesting, að
sögn Hermanns. Kornbændur á
Suðurlandi fóru þá leið að endur-
vekja Kornræktarfélag Suðurlands
sem skref í átt að kornsamlagi fyrst,
en Hermann segir að munurinn á
þessum svæðum sé sá að eyfirskir
kornbændur búi ekki við neina
afkastagetu í þurrkun og því hafi
legið mjög á því að koma þessu
verkefni af stað.
„Bændur voru bara komnir að
þeim tímapunkti að taka þyrfti
ákvörðun um að hætta í kornrækt eða
taka þetta stóra skref og búnaðinn
þurfti að panta inn um áramótin til
að hann yrði kominn á réttum tíma.
Við erum með öfluga bændur hérna
og góða stuðningsaðila – og svo gerum
við ráð fyrir að fá þennan 40 prósenta
fjárfestinga- styrk frá stjórnvöldum
vegna fram- kvæmdarinnar. Þegar
ljóst var að stöðin yrði að veruleika
heyrði maður á bændum að það er
hugur í þeim og þeir ætla að auka
töluvert mikið sína ræktun.“
Þurrkun og geymsla
Hermann segir að rekstrarform
Kornskemmunnar verði þannig
að bændur verði þjónustaðir með
þurrkun og geymslu en kornið verði
ekki keypt af bændum, eins og
kannski tíðkist í öðrum samlögum.
„Við erum með Bústólpa hérna
á svæðinu sem er mjög öflugur
aðili og hefur keypt allt bygg.
Aðalvandamálið hefur verið
geymslan á bygginu þannig að
það verður svona lykilhlutverk hjá
stöðinni líka. Bændur þurfa auðvitað
að huga að gæðamálunum núna
meira þegar þeir fara að framleiða
meira af söluvöru en við gerum ráð
fyrir að notast verði við gæðastaðla
Bústólpa þar sem kannski 90 prósent
af bygginu fari þangað og því verði
Kornskemman sjálf ekki þannig
milliliður.“ /smh
BÚSKAPUR ER
HEYSKAPUR!
Rúlluplast og
heyverkunarvörur
Kynntu þér úrval rúlluplasts og
heyverkunarvara og leitaðu til
sölufólks okkar í síma 540 1100
eða á sala@lifland.is
Heyverkunarlisti Líflands
Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
– Bændur á fimm bæjum stofnuðu Kornskemmuna utan um byggingu og rekstur
Reffilegur dráttarvélaflotinn sem hefur keyrt möl í grunninn undanfarna daga. Myndir / Aðsendar
Grunnur kornþurrkstöðvarinnar í landi Laugalands í Eyjafirði. Hermann Ingi Gunnarsson í Klauf.
Mynd / HKr.
Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Landsáætlun um riðuveikilaust
Ísland hefur verið sett í samráðs-
gátt stjórnvalda.
Horfið er frá því markmiði að
útrýma riðusmitefninu sjálfu en
megináhersla lögð á að útrýma
veikinni með ræktun á riðuþolnum
kindum með verndandi arfgerðum
og er stefnt að riðuveikilausu Íslandi
árið 2044.
Áætlunin var unnin af starfshópi
sem skipaður var í janúar
2024. Áfram verður haldið með
aðgerðir til að hefta útbreiðslu á
smitefninu. Þær verða hins vegar
áhættumiðaðar og beint að tilteknum
áhættuflokkuðum bæjum, í stað
þess að þær beinist jafnt að öllum
bæjum í viðkomandi varnarhólfi. Í
greinargerð með áætluninni segir að
sjö ára tímaviðmið verði tekið upp
fyrir hina áhættuflokkuðu eða sýktu
bæi í stað 20 ára sem giltu áður fyrir
varnarhólfin, en fyrirmyndin sé sótt í
Evrópusambandsreglur um riðuveiki
sem varða viðskipti með fé á milli
landa. Auk þess séu sjö ár tvöfaldur
meðalmeðgöngutími riðuveikismits.
„Landsáætlunin gerir ráð fyrir
flokkun á riðubæjum, áhættubæjum
og öðrum bæjum í áhættuhólfi auk
allra bæja landsins. Sett eru tímasett
ræktunarmarkmið fyrir hvern
flokk. Öllum sauðfjáreigendum
verður gert skylt að rækta gegn
riðuveiki í samræmi við stefnur
og markmið sem sett eru í
landsáætluninni. Miðað er við að
ræktunarmarkmiðum verði náð fram
með jákvæðum hætti; stuðningi,
hvatningu og viðurkenningum.
Gert er ráð fyrir að bætur taki mið
af framgangi ræktunar miðað við
ræktunarmarkmiðin, þannig að þeir
bændur sem ekki fylgja áætluninni
geti glatað rétti til bóta að hluta eða
öllu leyti, sem er í samræmi við
þá almennu reglu að fólki beri að
takmarka tjón sitt sé þess kostur,“
segir í greinargerðinni.
Stefnt er að því að innan 20 ára
hafi riðuveiki í sauðfé á Íslandi
verið útrýmt, að þá hafi ekki greinst
riðuveiki i neinni sauðfjárhjörð í sjö
ár samfellt. Sömuleiðis er stefnt að
því að Ísland hljóti viðurkenningu
Evrópusambandsins árið 2032 um
að hverfandi líkur séu á að upp komi
riðuveiki í sauðfjárhjörð hér á landi
og að því að litlar líkur séu á að
upp komi riðuveiki í sauðfjárhjörð
á Íslandi frá og með árinu 2028.
Þessari stefnu er ætlað að ná
fram með ræktun á verndandi og
mögulega verndandi arfgerðum,
smitvörnum, vöktun og viðbrögðum
sem felast í aðgerðum til upprætingar
smitefnis þegar upp kemur riðuveiki
og nánar er lýst í áætluninni. /smh
Ábati sé
ekki tryggður
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri
Samkeppniseftirlitsins, telur að
kjötafurðastöðvum sé nú frjálst að
koma á einokun í greininni.
Þetta kemur
fram í bréfi sem
hann ritar til
bænda hér í
blaðinu í tilefni
breytinga á bú-
vörulögum sem
nýlega voru
sam- þykktar á
Alþingi.
Þar var kjöta furða stöðvum
veitt heimild til sameiningar og
samstarfs, með undanþágu frá
samkeppnislögum.
Markmið breytinganna var að
auðvelda kjötafurðastöðvum að
hagræða í rekstri sláturhúsa svo
hægt sé að draga úr kostnaði við
slátrun og vinnslu á kjötafurðum
og þar með greiða bændum hærra
afurðaverð.
Telur Páll að með breytingunum
verði kjötafurðastöðvum frjálst
að ráðast í frekari sameiningar og
eftir atvikum að koma á einokun,
án þess að þurfa að sýna fram á
eða tryggja að aðgerðirnar skili
ábata fyrir bændur. Í því felist að
bændur munu ekkert hafa val um
hvar gripum þeirra verður slátrað
eða á hvaða kjörum.
„Auk sameininga geta fyrir-
tækin haft með sér víðtækt
samráð. Lagabreytingarnar eru
þó misvísandi og óskýrar að þessu
leyti og því óvissa um hversu
víðtækar þær eru. Endanleg túlkun
mun ráðast fyrir dómstólum,“
segir Páll.
Hann telur enn fremur að breyt-
ingarnar leiði af sér að kjötafurða-
stöðvum sé veitt sjálfdæmi um
verðlagningu afurða frá bændum.
Páll segir að tilgangur samruna-
eftirlits sé að vinna gegn því að
markaðsráðandi staða verði til
eða styrkist. „Hin vegar geta
samkeppnisyfirvöld heimilað
samruna fyrirtækja með mjög háa
markaðshlutdeild ef fyrirtækin
sýna fram á að í honum felist
hagræðing sem skili sér til
viðskiptavina.
Einnig geta samkeppnisyfirvöld
heimilað slíkan samruna með
skilyrðum sem stuðla að því að við-
skiptavinir njóti ábatans sem af
honum hlýst.
Þetta var einmitt viðfangsefni
Samkeppniseftirlitsins þegar
Norðlenska, Kjarnafæði og SAH-
afurðir runnu saman. Við rannsókn
á samrunanum kallaði eftirlitið
m.a. eftir upplýsingum um ætlaða
hagræðingu og hvernig hún myndi
koma bændum og neytendum
til góða.“
– Sjá nánar á síðum 56 og 57.
Páll Gunnar
Pálsson.