Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024Viðtal
Hrossarækt:
Frysta hrossasæði til notkunar
hérlendis og til útflutnings
Guðmundur Viðarsson og
Jóhanna Þórhallsdóttir, hrossa- og
ferðaþjónustubændur í Skálakoti,
eru að reisa einangrunar- og
sæðingastöð á jörðinni Efra-Holti
í Vestur-Eyjafjallahreppi.
Starfsemi stöðvarinnar hefst á
næsta ári en þar mun m.a. vera í boði
að frysta hrossasæði til notkunar
hérlendis og til útflutnings.
Guðmundur og Jóhanna rækta
hross kennd við Skálakot og reka
þar ferðaþjónustufyrirtæki þar
sem þau bjóða upp á gistingu og
dagshestaferðir. Vantaði þau orðið
meira land undir starfsemina og festu
kaup á jörðinni Efra-Holt sem er í
næsta nágrenni. Á jörðinni var gott
íbúðarhús og gömul fjárhús og þar
mun sæðinga- og einangrunarstöðin
vera staðsett.
„Við kaupum Efra-Holt aðallega
með það í huga að við gætum
komið þar upp góðri aðstöðu fyrir
starfsfólkið okkar. Það hefur hins
vegar lengi verið draumur hjá
mér að opna alhliða einangrunar-
og sæðingastöð til að geta boðið
upp á frystingu á hrossasæði en
það hefur ekki tíðkast hér á landi.
Hugmyndin er að geta boðið
íslenskum ræktendum upp á að
geyma djúpfryst hrossasæði úr
stóðhestum þeirra, bæði til að nota
hér heima en einnig til útflutnings.
Ein krafan til að geta flutt út
hrossasæði er sú að stóðhestarnir
þurfa að vera ákveðið lengi í
einangrun áður en tekið er úr þeim,
því er Efra-Holt kjörinn staður fyrir
stöðina en þar eru engin hross og
munu aldrei vera, nema þá bara
stóðhestarnir sem verða á stöðinni,“
segir Guðmundur.
Sæðingastöðin er enn á
byggingarstigi og stefnir Guðmundur
á að hún verði klár fyrir næsta sumar.
Byggði hann tengibyggingu á milli
fjárhúsanna tveggja sem voru á
jörðinni. Í öðru fjárhúsinu verður
stóðhestahúsið með stíum fyrir
fimm stóðhesta og í hinu verða
tvær stíur fyrir hryssur og aðstaða
til að taka sæði úr stóðhestunum. Í
tengibyggingunni er síðan aðstaða til
að vinna sæðið til að m.a. djúpfrysta
það, undirbúa fyrir útflutning og
geymsla fyrir djúpfryst sæði.
Frumkvöðlastarf í nafni Skýs
Guðmundur er ræktandi og eigandi
stóðhestsins Skýs frá Skálakoti
ásamt Jakobi Svavari Sigurðssyni.
Skýr er Sleipnisbikarhafi og
hefur notið mikilla vinsælda
sem kynbótahestur. Hann hefur
undanfarin ár verið í sæðingum en
þar kviknar áhugi Guðmundar á
frystingu á hrossasæði.
„Ef stóðhestur slær í gegn hér
á landi hefur eigandinn um tvennt
að velja; annaðhvort selja hestinn
út eða eiga hann áfram og nota
hann til ræktunar hér heima sem
takmarkast við þann fjölda hryssna
sem verið er að halda hér á landi
á ári. Með því að geta boðið upp
á útflutning á frosnu sæði opnum
við fyrir risastórum markaði, eða
heiminn allan. Við erum þó ekki bara
að hugsa um þetta upp á útflutning
heldur líka til að geta geymt fryst
sæði fyrir stóðhestaeigendur sem
hægt væri að nota seinna meir.“
Nú þegar hafa þau Jóhanna
og Guðmundur fjárfest bæði í
byggingu á húsakosti sem og í
tækjabúnað og segir Guðmundur
tekjur af stóðhestinum Ský spila
stórt hlutverk í að geta látið þennan
draum rætast.
„Við höfum verið svo heppin að
okkur hefur gengið vel fjárhagslega
með Ský og erum við Jóhanna
svolítið að eyða ágóðanum af
honum í þetta verkefni. Mér finnst
við geta gefið af okkur til íslenskrar
hrossaræktar og sé fyrir mér að
svona sé Skýr að auka framlag sitt til
hrossaræktarinnar. Þetta er ákveðið
frumkvöðlastarf í hans nafni.“
Leyfisvinnan eftir
Útflutningur á hrossasæði hefur ekki
tíðkast á Íslandi en er alþekktur víðs
vegar í heiminum. Guðmundur hefur
enn ekki sótt um leyfi en sér ekkert
því til fyrirstöðu að geta ekki flutt
hrossasæði úr landi.
„Það er í rauninni alveg absúrd ef
ég mætti ekki flytja fimm skammta
úr hesti úr landi en ég má flytja út
hestinn með ótakmarkað magn af
hrossasæði.
Ég hef fengið bréf með
staðfestingu á því að ég megi flytja
út hrossasæði en ég mun þurfa að
fá leyfi inn í Evrópubandalagið og
Bandaríkin. Það eru þessi stærstu
Íslandshestasvæði en það er ekkert
til fyrirstöðu að senda líka t.d. til
Ástralíu ef áhugi væri fyrir því.
Ég kem til með að sækja um
leyfin þegar ég get sýnt fram á
starfsemi í Efri-Holtum, ég hef
ekki viljað kallað yfir mig alla
pappírsvinnuna meðan starfsemin
er enn á byggingarstigi.“
Byrjuð að frysta sæði
Undirbúningur er þó hafinn að fullu
og í lok apríl var byrjað á að frysta
og þíða sæði í Skálakoti með það að
markmiði að fylja hryssur í sumar til
að sýna fram á að þetta virki.
„Það mun flýta fyrir mér í sölunni
næsta vor en ég veit að fyrsta
spurning sem ég mun fá er hvort sé
hægt að búa til folöld úr djúpfrystu
sæði. Það er rosalega gott að geta
svarað þeirri spurningu játandi,“
bætir Mummi við.
Hulda Finnsdóttir
hulda@bondi.is
Tullis Matson, Kate Ashmore, Skýr frá Skálakoti, Guðmundur Viðarsson, Katrin Wagner, Helga Björt Bjarnadóttir og kúturinn sem geymir djúpfryst sæði.
Myndir / hf
Framhald á næstu opnu.
Einangrunar- og sæðingastöðin í Efri-Holtum er langt á veg komin. Byggð
var tengibygging á milli tveggja gamalla fjárhúsa sem voru á jörðinni.