Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 12
12 Fréttir Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024
Jóhannes Geir Gunnarsson, bóndi
á Efri-Fitjum í Vestur-Húnavatns-
sýslu, er bjartsýnn á framtíð
sauðfjárræktarinnar og vill hvetja
ungt fólk til að fara í greinina.
Jóhannes er þrítugur og verður
unnusta hans, Stella Dröfn
Bjarnadóttir, tuttugu og sjö ára í
sumar. Búið er rekið í nánu samstarfi
við foreldra Jóhannesar, Gunnar
Þorgeirsson og Grétu Brimrúnu
Karlsdóttur, sem búa steinsnar frá
á Neðri-Fitjum.
Aðspurður um hvernig það sé að
vera ungur bóndi svarar Jóhannes:
„Það er bara draumur – bjart fram
undan og afurðaverð á uppleið,
verið að rækta riðuna í burtu og allt
að gerast.“ Á undanförnum árum
hafi riða greinst á nokkrum bæjum
í landshlutanum sem hafði í för
með sér breyttan veruleika vegna
sóttvarnatakmarkana. Gangi allt
eftir ættu þær hömlur ekki að vera
mikið lengur.
Samtals þúsund kindur
Jóhannes og Stella eiga rúmar fimm
hundruð kindur og foreldrar hans
álíka mikið fé. Flestir gripirnir
eru saman í stórum fjárhúsum á
Efri-Fitjum, á meðan rúmlega
hundrað kindur eru í Áslandi, sem
er skammt frá. Jóhannes segir
áform vera uppi um að byggja við
fjárhúsin til þess að allar ærnar geti
verið á sama stað.
Byggingin var reist upp úr 1980
og rúmar meginálma fjárhúsanna
ríflega sjö hundruð kindur. Þar eru
ærnar á grindum og er þeim gefið
á garða. Þá eru votheysgryfjur
í enda fjárhúsanna nýttar til að
hýsa það sem upp á vantar. Á
Efri-Fitjum hafa verið smíðaðar
einstaklingsstíueiningar sem passa
í krærnar á sauðburði. Þær eru
þannig útbúnar að hægt er að loka
af endanum sem er fjær garðanum
og mynda gang sem nær endilanga
króna. Eftir því sem fleiri kindur
bera er hægt að bæta við fleiri stíum
og þegar allar eru komnar upp eru
einstaklingspláss fyrir rúmlega tvö
hundruð kindur. Þá hafa allar ærnar
aðgang að brynningarstút sem tvær
deila með sér.
Þegar búið er að marka eru
kindur með nægjanlega stálpuð
lömb settar í fjölbýli á meðan
hinar sitja eftir. Þá er auðvelt að
setja næstu kindur í þær stíur sem
losna án þess að þurfa að bera gripi
yfir milligerði eða fara í miklar
tilfæringar. Áður en þetta kerfi
var útbúið þurfti að færa til allar
grindur ef til stóð að flytja kind
sem var í einstaklingsstíu í miðri
kró. Þegar blaðamann bar að garði
í byrjun maí voru um fimmtíu ær
bornar og reiknar Jóhannes með að
í lok mánaðar verði sauðburðurinn
að mestu búinn.
Afurðirnar í hæstu hæðum
Afurðirnar á búinu hafa verið góðar
undanfarin ár. Meðalfallþungi
lambanna hefur verið í kringum
tuttugu kílógrömm. Þau hafi oft
verið í öðru eða þriðja sæti yfir
afurðahæstu sauðfjárbú landsins en
Jóhannes segist ekki hafa tekist að
skáka búinu í Gýgjarhólskoti. „Enda
náðum við okkur í hrút til hans í
fyrra til að reyna að ná honum,“ segir
Jóhannes glettinn.
Lykillinn sé að hugsa vel um
féð, beita á góða afrétti og vera með
góða haustbeit fyrir lömbin sem eru
ekki tilbúin til slátrunar þegar þau
koma heim. Kynbætur séu ekki
aðalatriðið þótt þær hafi sitt að segja.
„Umhverfisáhrifin eru svo sterk í
þessu, tel ég. Þú nærð ekki árangri
eingöngu með kynbótum.“ /ál
Jóhannes Geir Gunnarsson segir lykilinn að hugsa vel um féð til að ná árangri, þótt kynbætur hafi sitt að segja.
Myndir / ál
Á Efri-Fitjum eru settar upp rúmlega tvö hundruð einstaklingsstíur á
sauðburði sem spara mikla vinnu. Hægt er að gera gang sem nær endilanga
króna og allar ærnar komast í vatn.
Efri-Fitjar eru í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu. Þar reka tvær fjölskyldur þúsund kinda sauðfjárbú.
Sauðfjárrækt:
„Bjart fram undan og
afurðaverð á uppleið“
Leyfa gas- og jarðgerð
úr matarafgöngum
Matvælastofnun hefur nýlega
tilkynnt um að Gas- og jarðgerðar-
stöð Sorpu (GAJA) hafi verið
veitt leyfi til gas- og jarðgerðar
úr matarafgöngum, sem falla til í
heimiliseldhúsum og stóreldhúsum.
Stöðin hefur einnig leyfi til að
vinna úr ósöluhæfum matvælum frá
verslunum og heildsölum. Hráefni
sem ætlað er fyrir stöðina skal vera
sérflokkað á upprunastað og sett í
söfnunarpoka áður en það fer í brúnar
flokkunartunnur.
Í byrjun síðasta árs tóku
gildi lög þar sem bann er lagt
við urðun á niðurbrjótanlegum
úrgangi, lífúrgangi. Leyfisveiting
Matvælastofnunar kemur í kjölfar
tíðinda af góðum árangri í sérsöfnun
og flokkun á matarleifum á síðasta ári
á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu
Matvælastofnunar segir að GAJA
muni nú gegna lykilhlutverki
í endurnýtingu næringarefna í
matarleifum og stuðla þannig að
hringrás þeirra.
Minnir Matvælastofnun á að
endurvinnslan á næringarefnunum
hefjist í eldhúsunum og mikilvægt
sé að hráefnin séu flokkuð
samviskusamlega og þess gætt
að óleyfileg efni fari ekki með
matarleifum í söfnunarpokana.
Í umfjöllun Sorpu um árangurinn á
síðasta ári kemur fram að mælingar í
GAJA sýni að hreinleiki í matarleifum
árið 2023 hafi verið 98 prósent, sem
sé gríðarlega góður árangur og til
marks um að íbúar standi vel að
flokkun matarleifa. /smh
Gas- og jarðgerðarstöðin GAJA.
Mynd / Sorpa
Framkvæmdir við nýtt gönguleiða-
kerfi á Geysissvæðinu í Haukadal
í Bláskógabyggð hófust nýlega.
Leiðakerfinu er ætlað að bæta
aðgengi á svæðinu og ekki síður
til að hlífa náttúrunni við ágangi
og raski ferðamanna sem fara um
svæðið. Verklok fyrsta áfanga
göngustígahringleiðar eru áætluð
í haust en heildaruppbyggingu
svæðisins á að vera lokið árið 2025.
Loka þarf hluta hverasvæðisins
á meðan framkvæmdir standa yfir
en lokanirnar verða þá vel merktar
innan svæðisins. Allt rask sem til
kemur vegna framkvæmda verður
lagfært. Framkvæmdir á svæðinu
eru í höndum Wiium verktaka
en umsjónaraðili verkefnisins
fyrir hönd Umhverfisstofnunar er
Framkvæmdasýslan.
Geysissvæðið var friðlýst
árið 2020 og er einn fjölsóttasti
ferðamannastaður landsins. / mhh
Göngustígar hjá Geysi
Guðmundur Ingi Guðbrandsson
friðlýsti Geysissvæðið árið 2020.
Mynd / mhh
Bændablaðið kemur næst út 30. maí