Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 21
21FréttaskýringBændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024
Barrskógar endurvarpa
hvað minnstu
Ingibjörg Svala Jónsdóttir, prófessor
í vistfræði við Háskóla Íslands, segist
telja rétt að staldra við þegar farið
sé út í umfangsmiklar breytingar á
landnýtingu, með það að markmiði
að vinna gegn hlýnun jarðar, og huga
að öllu þeim þáttum sem sú breyting
kunni að hafa áhrif á svo við „skjótum
okkur ekki í fótinn“. „Þar með talið
er einmitt minnkandi endurvarp, en
barrskógar eru sú yfirborðsgerð lands
sem hefur einna minnst endurvarp.
Þennan þátt þarf því að vega inn
og hin nýja vísindagrein í Science
(Weber o.fl., 2024) bendir skýrt
á að við ákveðnar aðstæður geti
hlýnun vegna minnkandi endurvarps
unnið upp hugsanlegan ávinning af
bindingu gróðurhúsalofttegunda úr
andrúmslofti í skóga. Um þetta snýst
málið,“ segir Ingibjörg.
Grunnforsendan
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor
í grasafræði við Háskóla Íslands og
Ólafur S. Andrésson, lífefnafræðingur
og prófessor emeritus við Háskóla
Íslands, útskýra að næstum öll orka
sem berist inn í lífkerfi jarðar sé
bundin af grænum plöntum á landi
og af ljóstillífandi þörungum í sjó
og vötnum.
„Plöntur nota orku sólarljóss
til að mynda orkurík kolvetni úr
einföldu hráefni, bara vatni og
koltvísýringi. Ljóstillífun grænna
frumna fjarlægir koltvísýring úr
andrúmsloftinu en skilar súrefni í
staðinn og þessi starfsemi plantna
hefur á sl. 450 milljónum ára byggt
upp súrefnisríkt andrúmsloft og
núverandi lífsskilyrði á jörðinni.
Orkan berst síðan frá plöntum um
alla fæðukeðjuna, til grasbíta og
rándýra og til sveppa og annarra
niðurbrotslífvera.
Vefir plantna eru að mestu
úr sellulósa (beðmi) og tréni,
kolvetnum sem flestir hópar örvera
geta ekki brotið niður. Þá geta vefir
trjákenndra plantna orðið mjög
gamlir. Við sumar aðstæður getur
því liðið mjög langur tími frá því
plöntur binda koltvísýring í vefjum
sínum þangað til hann losnar aftur
út í andrúmsloftið við rotnun,
bruna eða meltingu dýra. Þetta er í
stuttu máli grunnforsendan að baki
þeirri hugmynd að nota langlífar
trjákenndar tegundir til að fjarlægja
koltvísýring úr andrúmslofti og
draga þannig úr hlýnun jarðar af
mannavöldum,“ segja Þóra Ellen
og Ólafur.
Ljóst eða dökkt
Um það hvort skógrækt sé ekki
eins þénug til kolefnisbindingar
hérlendis og almennt hefur verið
talið segja Aðalsteinn, Arnór, Bjarni,
Brynhildur og Pétur að betur þyrfti
að kvarða þau líkön sem stuðst sé við
í rannsókninni sem birtist í Nature
Communications svo að þau gætu
endurspeglað raunveruleikann á
hverjum stað. Til þess þurfi mældar
stærðir. Hérlendis liggi áætlaðar tölur
fyrir um mögulega kolefnisbindingu
í skógum mismunandi trjátegunda
á mestöllu láglendi Íslands sem
byggi á raungögnum. Þær séu
mun áreiðanlegri grundvöllur að
mati á mögulegri kolefnisbindingu
ræktaðra, íslenskra skóga en tölur
í líkani Walker o.fl. (2022) sem
byggi á mælingum annars staðar á
norðurslóðum.
„Ef gróðursett tré vaxa hægt
verður kolefnisbinding ræktaðs
skógar lítil. Þetta getur t.d. gerst í
þurrkaeyðimörkum eða gresjum
sunnan Sahara, í Mið-Asíu eða
vestanverðri Norður-Ameríku vegna
langvarandi þurrka. En segjum sem
svo að forsendan sem höfundar gefa
sér sé rétt og að staðbundin hitagleypni
(vegna lægra endurskins) leggi sinn
skerf til hnattrænnar aukningar hita
í andrúmsloftinu: Endurskin ræðst
þá af því hve mikil inngeislun sólar
er á sama stað og hvort yfirborð
lands er ljóst eða dökkt. Yfirborð
fyrrnefndra þurrkaeyðimerkursvæða
er að jafnaði ljósleitt (gulir sandar eða
ljósar gresjur). Þar yrði ávinningurinn
lítill með nýskógrækt vegna meiri
ljósgleypni í hægvöxnum, dökkleitum
skógi,“ segja þau.
Náttúruskógar með góðri
aldursdreifingu
Varðandi hvort íslensk skógrækt sé
eins heppileg til kolefnisbindingar
og talið hefur verið, segir Ingibjörg
hins vegar að svarið velti á því hvers
konar skógrækt sé um að ræða. Hún
bendir í því sambandi á umfjöllun
sína í grein, „Skógrækt er ekki alltaf
sjálfsögð sem loftslagsaðgerð“, sem
birtist í Heimildinni í október í fyrra.
„Skógrækt getur haft margvísleg
markmið og ef sett eru skýr markmið
og hugað að því að mæta þeim
stöðlum sem settir hafa verið upp
fyrir náttúrumiðaðar lausnir (Seddon
o.fl., 2021, IUCN, 2020) má búast
við talsverðum ávinningi til lengri
tíma, sérstaklega ef skógræktin
miðar að endurheimt náttúruskóga
með góðri aldursdreifingu trjáa og
líffræðilegrar fjölbreytni.
Ef vísað er til þeirrar skógræktar
sem nú viðgengst hér á landi í nafni
loftslagsaðgerða þar sem plantað
er samtímis framandi tegundum í
stór svæði, oft og tíðum vel gróið
mólendi sem geymir umtalsvert
magn kolefnis, er svarið afdráttarlaust
nei,“ segir Ingibjörg og bætir við að
vaxandi fjöldi rannsókna styðji að
vænlegasta leiðin til að auka bindingu
vistkerfa til lengri tíma sé endurheimt
náttúrulegra vistkerfa, þar með talið
skóga (Lewis o.fl., 2019, EEA, 2022).
Meiri áhrif á norðlægum slóðum
Innt nánar eftir útskýringu á því hvað
átt er við með að endurskin geti dregið
úr áhrifum af kolefnisbindingu skóga
á vissum svæðum en ekki öðrum,
svarar Ingibjörg að sé spurningin um
hvort áhrif skógræktar á endurvarp
hafi mismunandi áhrif eftir svæðum
þá sé svarið já. „Rannsóknir sýna
að áhrif skógræktar á endurvarp
eru meiri á norðlægum slóðum en í
hitabeltinu (Betts, 2000, Weber o.fl.,
2024). Þetta skýrist m.a. af tvennu,
annars vegar dregur skógrækt enn
meira úr endurvarpi vegna snjóþekju
á norðlægum slóðum, hins vegar er
minni losun á rokgjörnum efnum
og örsmáum kvoðuögnum (e.
aerosols) frá gróðrinum þar vegna
lægra hitastigs. Í hitabeltinu dreifa
þessi rokgjörnu efni og kvoðuagnir
inngeislun og vega þar með að hluta
upp minnkandi endurvarp yfirborðs
skógarins,“ segir hún.
Gæti mest norðanlands og austan
„Þegar sól skín á yfirborð jarðar
gerist tvennt: Hluti geislunarinnar
endurkastast út í geiminn en jörðin
gleypir hluta sólarorkunnar og hún
breytist í varma,“ segja þau Þóra
Ellen og Ólafur og halda áfram:
„Þessi varmi dreifist á endanum um
lofthjúpinn og veldur loftslagshlýnun.
Það fer eftir því hversu dökkt
yfirborðið er hvað það dregur mikinn
hluta sólargeisla í sig og hversu
stórum hluta er endurvarpað.
Þannig er endurskinshlutfall
góðs spegils 1,0 (100%) en alsvarts
yfirborðs 0,0 (0%). Enska orðið
albedo vísar til þess hlutfalls
sólargeislunar sem er endurkastað
frá jörðu og hefur verið þýtt sem
endurskinshæfni. Hátt gildi segir að
miklu sé endurkastað en lágt að mikið
sé tekið upp.
Endurskinshlutfall barrskóga
er oft um 0,1 en graslendis oft
um 0,3. Þannig veldur breyting á
graslendi í barrskóga 20% aukningu
á ísogi sólargeisla og þar með
varmaaukningu í lofthjúpnum.
Með því að meta mynstur
sólargeislunar og endurskins er hægt
að áætla þá aukningu eða minnkun
á varma sem nær til lofthjúpsins,“
segja þau. Barrskógar séu dökkir
yfirlitum, mun dekkri en laufskógar,
og að auki haldi barrtrén nálum
sínum yfir veturinn meðan lauftrén
verði lauflaus.
„Snjór hefur hátt endurskins-
hlutfall (gjarnan um 0,8) og þar sem
snjór stendur fram eftir vori getur
orðið umtalsverð aukning á ísogi
sólarljóss við að planta barrskógi á
svæðið. Ísogað sólarljós breytist að
mestu leyti í varmaorku sem fer til
hlýnunar lofthjúpsins.“ Þóra Ellen
og Ólafur segja þessi áhrif líkleg
til að vera mest norðanlands og
austan en minni á Suðurlandi, og
geti vegið upp kælingarávinning af
kolefnisbindingu.
Þau benda á umfjöllun Ólafs
á vefnum náttúruvinir.is um tvær
greinar sem birtust í Nature og
Science, sem fjalli báðar um
hvernig endurskinsáhrif kunni að
vega upp að hluta eða gera að engu
jákvæð loftslagsáhrif aukinnar
kolefnisbindingar með skógrækt.
Fríform ehf.
Askalind 3,
201 Kópavogur.
562–1500
Friform.is.
Sumaropnun:
Mán. – Föst. 10–17
Laugardaga LOKAÐ
Hjarta heimilisins
Við hönnum innréttingar að þínum þörfum
2000 — 2022
Ingibjörg Svala
Jónsdóttir.
Ólafur S.
Andrésson.
Þóra Ellen
Þórhallsdóttir.
Pétur
Halldórsson.
„Í grein Hasler o.fl. er birt kort sem sýnir nettóloftslagsáhrif nýskógræktar. Þar er gerð grein fyrir bæði breytingum
á endurskini og kolefnisbindingu til að áætla hámark loftslagsmögnunar í koltvísýringsígildum (CO2e) á hektara.
Rauð og appelsínugul skygging gefur til kynna svæði þar sem endurheimt trjáþekju leiðir til nettó-hlýnunar; blár
gefur til kynna svæði þar sem ræktun nýrra skóga leiðir til nettókælingar en daufgulur litur táknar lítil áhrif. Láglendi
Íslands lendir, skv. þessari greiningu, í fremur hlutlausum flokki; í kringum núll (sýnt sem daufgult) þegar kemur að
þessum nettó-loftslagsáhrifum. Að baki tölum um mögulega kolefnisbindingu skógar á hverjum stað á hnettinum
liggur líkan Walker o.fl. (2022).“ (AS, BB, BDS, AS, PH).
Framhald á næstu opnu.
„Þrjátíu og fjögurra ára laufskógur (alaskaaspar) í Gunnarsholti á
Rangárvöllum. Engin trjátegund á Íslandi bindur kolefni hraðar en öspin.
Náið hefur verið fylgst með þessum tilraunareit frá því hann var gróðursettur
árið 1990. Þarna hefur mælst örasta kolefnisbinding í nokkrum íslenskum
skógi.“ (AS, BB, BDS, AS, PH). Mynd / Aðalsteinn Sigurgeirsson.