Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 34
34 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024Viðtal
Svæðisáætlanir landgræðslu og
skógræktar til heildrænnar land-
nýtingar, samræmt loftslags-
bókhald og kerfisbundin vöktun
á votlendi eru meðal lykilverkefna
sviðs sjálfbærrar landnýtingar hjá
Landi og skógi.
Á sviði sjálfbærrar landnýtingar
innan Lands og skógar fer fram
fjölbreytt vöktun á ástandi gróður-
og jarðvegsauðlinda, auk þess sem
ýmsar rannsóknir eru í gangi til
að skoða áhrif nýtingar á þessar
auðlindir, m.a. beitarrannsóknir og
rannsóknir á endurheimt votlendis.
Hluti af verkefnum sviðsins er
jafnframt að vakta og safna saman
upplýsingum um nýtingu lands, hvaða
land er verið að nýta og hvernig, m.a.
í gegnum verkefnið GróLind. Einnig
eru þar í gangi fjölmargar rannsóknir,
t.d. á kolefnislosun í mólendi og
mýrlendi. Bryndís Marteinsdóttir,
plöntuvistfræðingur og sviðsstjóri
sjálfbærrar landnýtingar hjá Landi
og skógi, segir þær rannsóknir
beintengdar því að safna þekkingu
sem nauðsynleg sé til að Ísland
geti uppfyllt þær kröfur um
upplýsingagjöf sem losunarbókhald
Evrópusambandsins setur.
Svæðisáætlanir í
landgræðslu og skógrækt
„Eins og nafnið gefur til kynna er
það eitt af meginmarkmiðum sviðsins
að stuðla að sjálfbærri nýtingu lands
og vernd vistkerfa með ráðgjöf og
fræðslu. Það er m.a. gert með því
að afla og miðla þeim gögnum
sem fást úr vöktun og rannsóknum
og gera hentugleikagreiningar
á því hvaða landnýting hentar
hvar,“ segir Bryndís. Eitt af stóru
verkefnunum um þessar mundir
segir hún vera svæðisáætlanir í
landgræðslu og skógrækt. „Þar
á að tilgreina landgræðslu- og
skógræktarsvæði, sem og önnur
svæði þar sem æskilegt er að leggja
áherslu á landgræðslu og skógrækt,
með tilliti til náttúruverndar, gildandi
skipulagsáætlana og í sátt við áherslur
eftir landshlutum,“ útskýrir Bryndís.
Jafnframt sé ætlunin að koma fram
með leiðbeiningar og gögn sem stuðli
að því að ráðstöfun lands sé gerð með
sjálfbæra landnýtingu að leiðarljósi.
„Áætlunin er í raun grunnplagg
sem mun nýtast stofnuninni,
sveitarfélögum og landeigendum
vel við sína stefnumörkun og
skipulagsvinnu. Hún stuðlar að
því að við nýtum land á sjálfbæran
hátt og horfum á landnýtingu okkar
heildrænt,“ segir Bryndís jafnframt.
Verkefnið er í þróunarfasa, þar
sem unnið er með einu sveitarfélagi
að því að setja fram áætlun auk þess
sem verið er að kynna verkefnið fyrir
sveitarfélögum.
„Afrakstur verkefnisins verður
verkfærakista, í formi vefkorta og
fræðsluefnis, sem aðilar geta nýtt sér
til að taka upplýstari ákvarðanir um
skipulag og nýtingu lands,“ segir hún.
Bókhald losunar frá landi
Það vita kannski ekki mörg að eitt
af verkefnum Lands og skógar er að
sjá um þann hluta losunarbókhalds
Íslands sem snýr að losun frá landi.
Að sögn Bryndísar fer á sviðinu
fram fjölbreytt vinna sem tengist því,
bæði vinna sem snýr að því að safna
saman gögnum fyrir bókhaldið sjálft
frá fjölmörgum aðilum, setja þau
saman og reikna út ýmsar tölur og svo
vinna sem snýr að því að bæta gögn
sem nýtt eru í bókhaldinu, þannig
að þau uppfylli alþjóðlegar kröfur.
M.a. er stunduð vöktun á losun og
bindingu gróðurhúsalofttegunda frá
m.a. votlendi og mólendi með það að
markmiði að fá upplýsingar um hver
losunin er og hvernig hún er háð t.d.
veðurfari og staðbundnum aðstæðum.
„Opinbera lokamarkmiðið
með þessari vinnu er að Ísland
uppfylli þær kröfur um gagnagæði
sem nauðsynlegar eru til að
uppfylla alþjóðlegar kröfur í
losunarbókhaldinu. Þessi gagnaöflun
mun þó nýtast í öllu okkar starfi, m.a.
við ráðgjöf um hvaða landnýting
hentar hvar og við að meta hvort nýting
sé sjálfbær. Auk þess sem við erum að
fá mjög dýrmætar grunnupplýsingar
um vistkerfi landsins og hvernig
þau eru að breytast m.a. í ljósi
loftslagsbreytinga,“ segir hún.
Rannsóknir í votlendi
Á seinustu árum hafa rannsóknir á
votlendi, bæði röskuðu og óröskuðu,
aukist til muna. „Við erum að setja
upp kerfisbundna vöktun á votlendi í
ýmiss konar ástandi og af fjölbreyttri
gerð, til að auka þekkingu okkar á
þessum vistkerfum og því hvaða
áhrif mismunandi landnýting, rask
og endurheimt hefur á þau.
Þessar rannsóknir eru bæði
gerðar innan stofnunar og í samstarfi
við háskólana og aðrar stofnanir,“
segir Bryndís og heldur áfram:
„Votlendi eru ein af merkilegustu
og mikilvægustu vistkerfum
landsins, eitt vistkerfa ásamt
birkiskógum sem nýtur sérstakrar
verndar í náttúruverndarlögum
landsins. Votlendi er mikilvægt
búsvæði plantna, fugla, fiska og
smádýra, hefur gífurlega líffræðilega
fjölbreytni, geymir verulegan hluta
kolefnisforða jarðar og bætir líka
vatnsbúskap svæða og temprar
vatnsflæði. Ef við horfum á stóru
áskoranirnar okkar, þ.e. loftslagsvána
og missi líffræðilegrar fjölbreytni,
eru votlendi ein af lykilvistkerfum
í því að sigrast á þeim áskorunum.
Meiri vitneskja um votlendi og
það hvaða áhrif inngrip okkar hafa
er nauðsynleg til að við getum
ákvarðað hvar og hvernig best er
að endurheimta votlendi og hvernig
við stöndum best að verndun þessa
mikilvæga vistkerfis,“ segir hún.
Fyrstu niðurstöður rannsóknanna
eru þegar farnar að berast og er
m.a. farið að nýta þær ásamt öðrum
gögnum í að hanna kröfusett um
framleiðslu gæðakolefniseininga
með endurheimt votlendis. Bryndís
segir stefnt að því að kröfusettið
fái alþjóðlega vottun seinna á árinu
og í kjölfarið muni aðilar geta nýtt
sér það til að framleiða vottaðar
kolefniseiningar með endurheimt
votlendis.
Stórfelldar breytingar
Aðspurð um hvaða breytingar og
þróun Bryndís sjái markverðastar
á sínu sviði svarar hún því til að í
raun séu ótrúlegar breytingar í gangi.
„Það er alltaf að verða meiri
og meiri áhersla í samfélaginu á
sjálfbærni, líffræðilega fjölbreytni,
náttúrumiðaðar lausnir og
vistkerfisnálganir. Við finnum það
í þeim verkefnum sem við erum að
sinna og þeim fyrirspurnum sem við
fáum, enda eru öll þessi atriði nátengd
sjálfbærri landnýtingu og verkefnum
sviðsins og stofnuninni Landi og
skógi í heild. Á seinustu árum hefur
t.d. verið mikil aukning í ráðgjöf
til sveitarfélaga, félagasamtaka,
einstaklinga og stjórnvalda tengt
þessum verkefnum,“ segir hún
jafnframt.
En betur má ef duga skal. „Aukin
áhersla í samfélaginu, sem ég nefni
hér að framan, kallar á meiri og betri
upplýsingagjöf og ráðgjöf um þessi
málefni. Það er eitt af því sem þarf
að efla – gera þá þekkingu sem við
söfnum aðgengilegri á því formi
að hægt sé að hagnýta hana, t.d.
við skipulagsgerðir sveitarfélaga,
stefnumótun stjórnvalda og við
ákvarðanir um landnýtingu hjá
landnotendum,“ segir Bryndís.
Einnig megi búast við að verkefni
tengd sjálfbærri landnýtingu í
tengslum við umferð ferðafólks
muni aukast á næstu árum samhliða
auknum fjölda ferðafólks og
tilheyrandi álagi á gróður- og
jarðvegsauðlindina.
Viðamikið samstarf
Bryndís segir mikilvægasta verkefni
sviðsstjóra eflaust það að vera
stuðningur við starfsfólk og vinna
með því til að verkefni sem eru á
sviðinu nái fram að ganga innan
þess ramma sem þeim er sett, hvort
sem það er með því að skapa gott
vinnuumhverfi, koma á tengslum
milli stofnana eða efla starfsfólk.
Auk þess felist í starfinu ýmis
samskipti innan og utan stofnunar
um málefni sviðsins.
„Svið sjálfbærrar landnýtingar
er ekki eyland og við vinnum
okkar verkefni í nánu samstarfi
við önnur svið innan Lands og
skógar, enda býr stofnunin yfir
víðtækri og fjölbreyttri þekkingu
og dýrmætum mannauði. Þar
að auki erum við í mjög öflugu
samstarfi við aðrar stofnanir, t.d.
við Náttúrustofur víða um land,
um vöktun kolefnislosunar og í
samstarfi við Háskóla Íslands um
líkanagerð og vöktun ræktarlands,“
segir Bryndís að endingu. /sá
VARAHLUTIR Í
KERRUR
Vagnhöfða 7, 110 Reykjavík | Sími 517 5000 | stalogstansar.is
st’ al og
Bílabúðin
Stál og stansar
Land og skógur:
Sjálfbær landnýting teygir anga sína víða
– Aukin þekking og aðgengilegri
Bryndís Marteinsdóttir.
Verkefni sviðs sjálfbærrar landnýtingar hjá Landi og skógi eru afar fjölbreytt.
Hér er svipmynd frá athugunum vinnustofu á Snæfellsnesi í vor.
Myndir / Aðsendar
Vöktun á búskap gróðurhúsalofttegunda og öðrum tengdum þáttum í
vöktunarreit í Pollengi, Bláskógabyggð. Að vori þegar vöktun hófst var
vatn yfir öllu svæðinu en í þurrkunum sumarið 2024 fór vatnsyfirborð niður
fyrir -50 cm dýpt jarðvegsyfirborðs.