Bændablaðið - 16.05.2024, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 16. maí 2024
Sjávarútvegssýningin í Barcelona,
áður í Brussel, er ein stærsta sinnar
tegundar í heiminum. Sýninguna
sóttu 2.244 fyrir- tæki og sýnendur
frá 87 ríkjum. Talið er að um 35.000
kaupendur og framleiðendur hafi
heimsótt sýninguna sem var á
51.000 fermetra gólffleti.
Áætlaðar tekjur
Barcelonaborgar
af sýningunni
eru 156 milljónir
evra, eða jafnvirði
23 milljarða
króna. Sýningin
lagði í fyrsta
skipti áherslu á
að tengja konur
í sjávarútvegi
saman. Það fór því sérstaklega vel á
því að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
nýskipaður matvælaráðherra,
heimsótti sýninguna og kynnti sér
hana en þó sérstaklega sýningarbása
íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, en
tæplega 50 íslensk fyrirtæki voru með
sýningarbás.
Bjarkey er kennaramenntuð,
fædd og uppalin á Siglufirði en
flutti 15 ára til Ólafsfjarðar, og
starfaði sem kennari og náms-
og starfsráðgjafi fram til þess að
hún var kjörin á þing, hún sá um
bókhald Vélsmiðju Ólafsfjarðar í
mörg ár auk þess að vera gjaldkeri
og almannatryggingafulltrúi á
sýsluskrifstofu. Frá árinu 2000
hefur hún verið virkur þátttakandi í
stjórnmálum á vegum Vinstri grænna,
fyrst á heimavelli í Ólafsfirði en frá
2013 hefur hún setið á Alþingi.
Greinarhöfundur hefur farið á
yfir 20 sjávarútvegssýningar, fyrst
í Brussel og síðar Barcelona, en
þetta var fyrsta sýning Bjarkeyjar.
Honum þótti forvitnilegt að fá annað
sjónarhorn en sitt á sýninguna, því
glöggt er gests augað. Það lá því beint
við að fá Bjarkeyju til að segja okkur
frá sinni sýn á sjávarútvegssýninguna
sem og markaðs- og sölustarf
íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja auk
þess að fá að heyra um hugmyndir og
spurningar sem kviknuðu hjá henni
við heimsóknina.
Stærðin, gróskan og hagaðilar í
sjávarútvegi komu á óvart
Hvað kom Bjarkeyju mest á óvart við
sýninguna? „Maður var búinn að heyra
ýmislegt um stærð sýningarinnar en
þegar ég kom þarna þá kom mér mest
á óvart hversu gríðarlega stórt þetta er.
Stærðin raungerist þegar maður mætir
á staðinn. Þetta gríðarlega umfang og
gaman að sjá hvernig allt kraumar af
lífi og maður heyrði á tali fólks að það
var margt að verða til í samtali þess
og nýjar hugmyndir að fæðast. Þetta
var eiginlega suðupottur hugmynda.“
Bjarkey hafði ekki mikinn tíma
til að skoða sig um á sýningunni og
saknaði þess. En tímann nýtti hún til
að heimsækja öll íslensku fyrirtækin
sem voru með bása á sýningunni.
Það lá því beint við að spyrja
ráðherra hvernig henni þótti
íslenski hlutinn vera. ,,Mér fannst
gaman að sjá alla þessa grósku hjá
íslensku sjávarútvegsfyrirtækjunum
og sérstaklega hjá íslensku
tæknifyrirtækjunum.
Það kom mér mikið á óvart hversu
mikill fjöldi hagaðila tengdum
sjávarútvegi, alls staðar að úr
heiminum, voru á svæðinu. Ýmiss
konar samtök í sjávarútvegi, bankar,
fulltrúar stjórnvalda, tryggingafélaga
og svo má lengi telja. Ég átti heldur
ekki von á því.“ sagði Bjarkey.
Hátt hlutfall íslenskra tækni-
og tækjafyrirtækja
Langstærsti hluti sýningarinnar eru
fyrirtæki, þjóðir mynda þjóðarbása til
að kynna afurðir sínar, bæði með vörur
til áframvinnslu en einnig fullunnar
vörur. En eins og áður sagði, þá eru
tæknifyrirtæki líka að kynna sig.
Ísland er þekkt fyrir hversu mikill
árangur hefur orðið af samvinnu
sjávarútvegsfyrirtækja og tækni-,
tækja- og annarra þekkingarfyrirtækja
sem sprottið hafa upp úr þessum frjóa
jarðvegi. Þann hluta þekkir Bjarkey
vel frá fyrri störfum sínum sem bókari
í vélsmiðju.
„Það var gaman að sjá Vélfag,
Marel, Héðin, Slippinn, Kælismiðjuna
Frost auk fjölda annarra íslenskra
tækni- og tækjafyrirtækja þarna. Það
var líka augljóst að hlutfall íslensku
tækni- og tækjafyrirtækjanna var mun
hærra en gerðist meðal annarra þjóða.
Það var gaman að sjá og kom mér líka
á óvart,“ sagði ráðherra.
Markaðssetning íslensku
fyrirtækjanna stóð upp úr
En þar sem Bjarkey var að fara sína
fyrstu ferð þá gat greinarhöfundur ekki
stillt sig um að spyrja ráðherra hvernig
henni hafi fundist markaðssetning og
framsetning íslensku fyrirtækjanna í
samanburði við aðrar þjóðir.
,,Því miður stoppaði ég ekki lengi,
var svolítið á hlaupum, og því kannski
ekki alveg bær til að leggja fullt mat
á það. En mér fannst þetta mjög flott.
Framsetning hjá Íslendingunum
var klassa ofar en margt af því sem
maður sá á hlaupunum. Svona eftir á
að hyggja þá fannst mér allir íslensku
básarnir grípa augað.“ Þegar Bjarkey
lítur til baka yfir sýninguna, hvað
kemur þá helst upp í hugann?
„Umfangið var svo mikið og
tíminn svo knappur í heimsókninni,
eins og ég hef áður sagt. Ég hefði
gjarnan viljað skoða sýninguna betur
og gera mér betur grein fyrir öllu. En
af því sem ég sá þá fannst mér við,
Íslendingar, standa dálítið upp úr enda
er ég á þeirri skoðun að sjávarútvegur
okkar standi mjög framarlega þótt
auðvitað megi alltaf gera betur. Ég
sannfærðist enn betur um þá skoðun
mína.“
Nýsköpun varðandi hráefni
Nýsköpun vakti líka athygli matvæla-
ráðherra. „Mér fannst allt krauma
í nýjungagirni og áhugaverðum
hugmyndum. Ég hafði tækifæri til að
heimsækja spænskan matarmarkað í
leiðinni þar sem ég fékk tækifæri til
að skoða mig um.
Ég er mikil matarkona og fékk að
bragða á mörgum mismunandi réttum.
En þar vakti athygli mína hversu vel
Spánverjar nýta fiskinn. Þeir borða
bókstaflega allt af honum nema
hausinn!“ sagði Bjarkey að lokum.
Höfundur er búfræðingur og
framkvæmdastjóri Vinnslu-
stöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Nytjar hafsins:
„Íslenskur sjávarútvegur stendur framarlega“
– Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra heimsótti sjávarútvegssýninguna í Barcelona
Sigurgeir B.
Kristgeirsson.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir.
Yfirlitsmynd af þjóðarbási Íslendinga á sjávarútvegssýningunni í Barcelona. Myndir / Aðsendar
Bás Iceland Seafood (ISI) í einum íslenska básnum.
Göngugata í einni af sýningarhöllunum.
HURÐIR
Tunguháls 10, 110 Reykjavík, sími 567 3440, vagnar@vagnar.is, vagnar.is
• Stuttur afhendingartími
• Hágæða íslensk
framleiðsla
• Val um fjölda lita í
RAL-litakerfinu
• Vindstyrktar hurðir
Bílskúrs- og iðnaðarhurðir
Iðnaðarhurðir
Iðnaðarhurðir með gönguhurð
Bílskúrshurðir
Hurðir í trékarma
Tvískiptar hurðir
Smíðað eftir máli
Fyrsta flokks þjónusta og ráðgjöf